Beint í efni

Blysfarir

Blysfarir
Höfundur
Sigurbjörg Þrastardóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fjórða ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur sker sig nokkuð frá hinum fyrri þremur, en bókin er heill ljóðabálkur, saga í ljóðum, sem lýsir ástarsambandi og fíkn. Fyrri ljóðabækur Sigurbjargar, Blálogaland (1999), Hnattflug (2000) og Túlípanafallhlífar (2003), einkennast af fremur glaðlegum, dálítið forvitnum tónum, þó vissulega sé alvarleiki í þeim líka. Af þessum eru Blysfarir skyldastar Hnattflugi, allavega að forminu til, en sú bók hefur einnig yfir sér sterka heildarmynd sem helgast af því sem gefið er til kynna í titlinum, en þar er lýst ferðum, bæði um heiminn og innan Reykjavíkurborgar. Tóntegundin í Blysförum er hinsvegar mun nær skáldsögu Sigurbjargar, Sólar sögu (2002), sem lýsir dvöl ungrar stúlku í evrópskri borg, en þar er ráðist á hana.

Stúlkan sem er ljóðmælandi Blysfara hefur þó ekki beint orðið fyrir árás, annarri en þeirri að verða ástfangin af manni sem er háður eiturlyfjum. Eiturlyfin myndhverfir Sigurbjörg í hvítum dreka sem vísar til litar efnisins og margvíslegra áhrifa þess, en þar spila saman heillun - ævintýri - og ógnartilfinning þess að vera háður einhverju, eða einhverjum. Því önnur skýrasta myndhverfing bókarinnar er samlíkingin milli fíknar og ástar, þess að vera háður eiturlyfjum og vera háður ástinni eða ástmanninum.

Hinn elskaði er, eins og áður segir, eiturlyfjaneytandi og ljóðmælandi er í stöðugri samkeppni við hvíta drekann um ást hans. Þessi samkeppni felur óhjákvæmilega í sér einhverskonar niðurlægingu fyrir stúlkuna sem birtist í sársauka og þörf fyrir ást hans, hún dvelur við minningar um hið góða og reynir að banda hinu slæma frá sér, án árangurs: “og ég / finn hvernig það kemur yfir mig núna hvernig sumt / fölnar hvernig eitthvað strengist ég finn hvernig ég verð / fyrirvaralaust eins og það er orðað í ævintýrabókunum / hnuggin”. Hér birtist ævintýraminnið um prinsessuna sem er fangi drekans - og drekinn er bæði efnið og andinn, eitrið og ástin.

Þetta samband teiknar skáldkonan skýrum og skerandi dráttum og dregur ekkert undan, sem gerir lestur bókarinnar nokkuð erfiðan, þrátt fyrir að færni höfundar með ljóðmál og myndmál sé augljós. Dæmi um það eru ljóðlínur undir lok bókarinnar sem hljóða svo:

mér finnst líka dálítið
fallegt
hugtakið svívirðing
það er í því einhver virðing

En þær draga vel saman tilfinninguna í bókinni, þarsem vegið er salt milli virðingar og svívirðingar, og svo er þetta einnig dæmi um það hvernig skáld dregur fram og minnir á margræðni orða.

Myndmálið í kringum hvíta drekann er líka sérlega vel unnið, allt frá vísunum til Íslendingasagna til kínverskra orðasambanda og annað sláandi stef bókarinnar er (miserótísk) lýsingin á líkama elskhugans og eitrinu sem fer um hann.

Það er nokkuð sterk þrenning, ástin, fíknin / sorgin, og ljóðið, en eftirminnilegt dæmi um ljóð-ástar-sögu er bók Lindu Vilhjálmsdóttur, Öll fallegu orðin (2000), sem er einnig átakanleg lýsing á ómögulegri ást. Ljóðið, sem form, fangar sérlega vel þessar mótsagnakenndu tilfinningar og þegar vel er á öllu haldið, eins og í Blysförum, upplifir lesandi krefjandi en jafnframt nauðsynlega ferð um tilfinningaskala.

Umbrot og kápa segja sitt og gefa dramatískri ljóð-sögunni dálítið léttari umgjörð, blái liturinn í samspili við óreglulega appelsínugula fleti undir titli og texta á bakhlið virkar næstum barnslegur, og hvíti drekinn með eldtungurnar og rauða hjartað í loppunni er sömuleiðis glaðlegur að sjá. Aftan á kápunni er svo aðeins skuggamynd hans, sem fangar vel myndmálið kringum efnið og andrúmsloft bókarinnar í heild.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007