Beint í efni

Blótgælur

Blótgælur
Höfundur
Kristín Svava Tómasdóttir
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

„fyrst tökum við hundrað og einn, svo tökum við Berlín“ segir í ljóðinu „Kuldakast í mars“ en þar hefur stormurinn skollið á „eins og hnefahögg“, „og á börunum drekkja unglingarnir stuttbuxnaklæddum vonum“. Ljóðið er einskonar ákall á unglingauppreisn, „í dag verður hefnt fyrir allt og ekkert“, en er jafnframt háðsádeila á slíka, eins og kemur fram í línunni: „kallið út skæruliðana / sem iða í skólaleikritum“. Aðallega býr í ljóðinu einskonar svartur húmor, kaldhæðni í bland við sjálfsháð, því ljóðmælandi er meðvitaður um að vera hluti af þeirri máttvana unglingauppreisn sem hann gerir grín að.

Þessi tóntegund einkennir mörg ljóða þessarar fyrstu ljóðabókar Kristínar Svövu Tómasardóttur, Blótgælur, og slær bæði flottan og fyndinn tón í íslenskri ljóðlist. Hér er heilmikill töffaraskapur að hætti ‘vondra stelpna’, mikið drukkið, mikið káfað og mikið ráfað um. Eins og upphafslínan gefur til kynna er líka mikið af vísunum í samtímamenningu, sönglagatexta, ljóð og kvikmyndir. Vísanirnar spanna allt frá misheppnuðum parodíum („Eia“ og „Klof vega menn“) yfir í skemmtilega, ef ekki endilega háfrumlega, klisjupælingu um veruleika kvikmynda eins og í ljóðinu „Ef allt klikkar“, en þar „er þetta planið: / ég næ í þig inn í gamla fantasíu / og tvær hríðskotabyssur úr sömu“. Þau ræna flugvél og „framhaldið spinnur sig sjálft / upp úr vel þekktum hasarmyndum“.

Í „Dýrunum í Hálsaskógi“ er aftur gert grín að mótmælum: „hér er / umburðarlyndi gagnvart öðrum menningarheimum / (nema Ameríkönum og starfsmönnum í þungaiðnaði)“ og seinna er sagt frá dansi í kringum lopakálfinn „sem ekki verður fórnað af eintómum grænmetisætum”. Þjóðarhrokinn er tekinn fyrir í „Mallorca“, en þar ráfar drukkinn ljóðmælandi um og hrópar „Island, Island, über alles“, og súmmar svo fjölda vel heppnaðra vísana saman í línunum „ó þú blindsker örlaga minna, útungunarstöð hógværra stórmenna, Ó GARGANDI SNILLD!“

Vissulega eru ljóðin missterk og bókin sem heild virkar því dálítið óslétt. Sá ‘vondu stelpu’ töffaratónn sem er, eins og áður sagði, gegnsýrður (viðkvæmnislegu) sjálfsháði, er hinsvegar sterkur og nokkur nýlunda í íslenskum skáldskap, það er kannski helst Didda sem kemur upp í hugann, en svarti húmorinn minnti mig einnig á stundum á myndasögur Hugleiks Dagssonar (já, ég veit að hann er litli bróðir minn, en það er bara ekki mér að kenna). Það má finna þræði milli ljóða Kristínar Svövu og skáldverka eftir ‘reiðar konur’ níunda áratugarins, en þó er einnig skýrt að hér hefur ýmislegt breyst, sérstaklega hvað varðar háðsádeiluna á vægi þeirra margvíslegu byltinga, mótmæla og uppreisna sem malla í textunum.

Almennt séð er myndmálið fremur einfalt og hreinskiptið, sem gefur ljóðunum einhvern hráan kraft, en í lokaljóðinu er þó að finna sérlega vel heppnaðan myndmálsleik sem sýnir að Kristín Svava hefur vel á valdi sínu að gerast ofurlítið ‘ljóðrænni’. Ljóðið heitir „Ljósin meðfram flugbrautinni“ og þar veltur ljóðmælandi „upp og niður stigana á Broadway” og ljósin í stigunum minna á „ljósin meðfram flugbrautinni“. Áfram heldur drykkjan, samviskusamlega og við færumst úr partýi í partý og endum á því að horfa á ljóðmælanda æla yfir bíl stráksins sem hún svaf hjá. En þá leggst ljóðmælandi í sjálfskoðun, og sér að hún er komin „fram úr þeim öllum“ og að „ekkert er fram undan nema ljósin meðfram flugbrautinni / sem liggur upp frá þessari héluðu jörð“. Enn er sjálfsháðið áberandi, en þó ekki endilega yfirgnæfandi. Hér er búin til einföld mynd flugbrautar og flugtaks sem síðan breiðir úr sér og skapar sterkan endi á fyrstu ljóðabók ungrar skáldkonu sem einmitt býður lesanda uppá það að vænta mikils af áframhaldandi flugferðum með henni.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2007