Beint í efni

Blokkin á heimsenda

Blokkin á heimsenda
Höfundar
Arndís Þórarinsdóttir,
 Hulda Sigrún Bjarnadóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Elín Björk Jóhannsdóttir

Formáli Blokkarinnar á heimsenda (2020) er óvenjulegur og á meira skylt með bókmenntagrein glæpasagna en barnabókmenntum. Á þessum fyrstu blaðsíðum er aðalsöguhetjan innilokuð í óskilgreindri prísund og reynir að ímynda sér að atburðir síðustu átta mánaða hafi ekki gerst. Ónefndur aðili liggur á gólfhleranum svo hún kemst ekki út og henni verður hugsað til föður síns sem dúsir í fangelsi. Myndin sem dregin er upp í blábyrjun bókarinnar er ansi dökk og er að vissu leyti á skjön við það sem tekur við þó að vissulega vofi margvíslegar ógnir yfir íbúum eyjasamfélagsins og að aðalpersónan, Dröfn, þurfi að takast á við ýmsar áskoranir.

Þegar foreldrar Drafnar og Ingós stinga upp á aukasumarfríi til „ömmu Eyju“ taka krakkarnir hugmyndinni fagnandi enda hafa þau aldrei hitt föðurömmu sína en það sem Dröfn heldur að sé frí reynist vera flótti frá vandræðum fjölskyldunnar sem meðal annars eru fjárhagsleg. Systkinin eru nútímabörn og því er þeim nóg um þegar þau sjá fram á að festast veturlangt eyjunni „á heimsenda“. Dröfn er vön að verja tíma sínum í Minecraft á meðan eldri bróðir hennar, Ingó, leggur sig fram við að skapa efni fyrir Youtube-rásina sína: Ingóland. Á eyjunni er ekkert einsog þau höfðu búist við en fyrir komuna vita þau lítið um einangraða samfélagið sem faðir þeirra ólst upp í. Amman, sem heitir Bríet þó að fjölskyldan hafi árum saman kallað hana „ömmu Eyju“, hefur ekki verið að bíða eftir barnabörnum til að dekra við eins og Dröfn hafði gert ráð fyrir og hefur lítinn áhuga á fjölskyldunni sem dúkkar óboðin upp hjá henni. Hún er ekki bara fullfær um að sjá um sig sjálf þrátt fyrir mjaðmagrindarbrotið sem foreldrarnir notuðu sem átyllu fyrir heimsókninni heldur er hún að auki „Húsvörður“ blokkarinnar sem er mikilvægasta hlutverk þessa samfélags sem býr jú allt í blokkinni.

Heimurinn sem dreginn er upp í Blokkinni á heimsenda er kunnuglegur þó að sumt komi spánskt fyrir sjónir. Samfélagið á eyjunni hefur þurft að aðlaga sig að breyttu loftslagi og gjörbreyttum lifnaðarháttum. Eini lífvænlegi bústaðurinn á eyjunni er blokkin og þar verða íbúar eyjunnar að mestu að hafast við innanhúss vegna veðurs. Þótt aldrei komi fram nákvæmlega hvar eyjan sé staðsett einkennist veðurfar þar af snjóþunga og miklum kulda og eiga veðurhamfarirnar rót sína í þeim loftslagsbreytingum sem steðja að jörðinni. Sökum einangrunar og veðurfars byggist samfélagsskipulagið í blokkinni að öllu leyti á gagnsemi, nýtni og er ýmsum lausnum beitt til að mæta orkuþörf blokkarinnar. Eins og amma Drafnar segir við hana: „Við notum rafmagnið saman og við framleiðum rafmagnið saman“ (58). Það gera allir íbúar á hjólum í Orkusetrinu en á leiksvæði krakkanna er orkunni sem skapast þegar þau róla sér einnig safnað til nýtingar því íbúum óar við að sóa orku. Dröfn öðlast nýja sýn á neyslumenningu vestrænna samfélaga í dvöl sinni á eyjunni. Sú heimsmynd sem dregin er upp af hinu einangraða og sjálfbæra samfélagi blokkarinnar er í vissum skilningi fantasía um sjálfbært samfélag þó svo að yfir sumartímann komist vissulega vistir að utan til eyjunnar. Samheldnin í blokkinni er áberandi stef, til dæmis kunna allir íbúar hennar táknmál sem þeir lærðu eftir að heyrnarlausar tvíburasystur fæddust á eyjunni.

„Það getur verið erfitt“, hélt amma svo áfram, „fyrir nýtt fólk að aðlagast lífinu hér á Eyjunni.“
Ég leyfði litlu taugaveiklunarflissi að sleppa frá mér. „Það er líka frekar erfitt fyrir Eyjuna að aðlagast nýja fólkinu!“ (250)

Þrátt fyrir allar þær áskoranir við að aðlagast blokkarlífinu reynir fjölskyldan að finna sig í sínum nýju hlutverkum. Dröfn er utanveltu í þessu nýja samfélagi, hún passar illa inn í lífið í blokkinni þótt hún hafi einnig verið einangruð í fyrra lífi fjölskyldunnar. Sýn blokkarbúa á Dröfn er að hún sé hnýsin, aðlagist illa og fari ekki eftir neinum reglum. Sjálfri finnst henni augljóst að hún sé svalasti krakkinn á svæðinu, aðallega vegna þekkingu sinnar á Minecraft – sem blokkarkrakkarnir hafa aldrei heyrt um og geta þar af leiðandi ekki meðtekið yfirburði hennar í leiknum, sem er afar húmorískt enda er feykinóg af húmor í bókinni sem að miklu leyti tengist væntingum Drafnar sem sífellt eru brotnar á bak aftur. Dröfn tekst þó eins og öðrum í fjölskyldunni að plumma sig á sinn hátt á endanum, hún eignast vin í blokkinni og finnur not fyrir hnýsnina og tilhneiginguna til að fara ekki eftir reglum.

„Einhver í Blokkinni virtist vera í stríði við okkur hin.“ (183)

Fyrir utan erfiðleika fjölskyldunnar, og þá aðallega Drafnar, við að aðlagast samfélaginu verður Dröfn ljóst að einhver annar á í erfiðleikum með þá samfélagsheild sem blokkin kallar eftir, einsog faðir Drafnar hafði sjálfur upplifað sem ungur maður og sem olli því að hann átti ekki afturkvæmt á eyjuna árum saman. Það er Dröfn sem tekur eftir óvenjulegum atburðum og ítrekuðum tilkynningum um að ýmsir hlutir hafi horfið frá íbúum. Síðan taka skemmdarverkin að vinda uppá sig og Dröfn einsetur sér að leysa ráðgátuna um hver standi að baki þessa óskunda og er það sú ætlun hennar sem að lokum kemur henni í þær aðstæður sem lýst er í formála. Við eftirgrennslanir sínar nýtir hún sér hlutverkið sem amma hennar úthlutar henni, sem Sendiboði Húsvarðarins, sem og goðumlíka stöðu ömmu sinnar í blokkinni þar sem „Vegir Húsvarðarins eru órannsakanlegir“ (172).

Eins og tæpt er á hér að ofan reynast aðstæðurnar sem lýst er í formálanum ekki vera jafn mikið úrslitaatriði í söguþræði bókarinnar og ætla má í upphafi. Glæpirnir sem hin utanvelta persónan er sek um reynast heldur ekki vera svo hræðilegir. Væntingar lesandans eftir formálann eru því ekki uppfylltar og þó að loftslagsváin sé áberandi þráður í bókinni endar hún á léttum nótum með áherslu á að við þurfum að vinna saman að verkefnunum sem upp koma en einnig þau að það þurfi að passa uppá að öllum finnist þeir eiga heima í samfélaginu. Þrátt fyrir þá loftslagsógn sem liggur að baki söguþræðinum er úrvinnslan á því efni ekki jafn ítarleg og sumir lesendur myndu hafa viljað. Hinsvegar gefur sú ógn sem sett er upp í formála Blokkarinnar og sá boðskapur sem henni lýkur með, að vinna úr vandamálum í sameiningu, til kynna að mannkynið sem byggir þessa plánetu verði einnig að takast á við loftslagsvána í sameiningu.

Höfundar Blokkarinnar á heimsenda eru tveir, þær Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir sem hafa áður gefið út bækur í sitthvoru lagi. Arndís er höfundur nokkurra barna- og ungmennabóka og einnig ljóðabókarinnar Innræti (2020) og Hulda Sigrún hefur áður gefið út ungmennabækur á ensku undir höfundarnafninu Rune Michaels. Blokkin á heimsenda hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur árið 2020 og hún er svo sannarlega „ævintýraleg saga af undarlegum stað“ eins og stendur á baksíðu. Undarlegi staðurinn hefur samt sem áður skýrskotanir í raunveruleika okkar þegar yfir okkur vofir loftslagsvá sem við þurfum að vinna saman að lausnum við.

 

Elín Björk Jóhannsdóttir, júlí 2020