Beint í efni

Bieber og Botnrassa

Bieber og Botnrassa
Höfundur
Haraldur F. Gíslason
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Í Bieber og Botnrassa eftir Harald Frey Gíslason er sagt frá Andreu sem er 12 ára, nemandi í Öldó og einn af fjórum krökkum sem saman mynda hljómsveitina Botnrössu. Í byrjun sögunnar fær Andrea veður af ótrúlega spennandi hljómsveitakeppni sem á að fara fram í Hörpu. Hver sem vill má skrá sig til leiks og keppa um þátttökuréttinn í enn stærri keppni í London, þar sem nokkrar hljómsveitir verða valdar úr til að hita upp fyrir sjálfan Justin Bieber á tónleikum. Andrea og félagar hennar í Botnrössu hafa litla reynslu af því að koma fram en ákveða að slá til og fá leyfi foreldra sinna til að taka þátt. Krakkarnir semja svo nýtt lag sem þau eru sannfærð um að eigi möguleika á að slá í gegn og vinna keppnina. Þau eru yngstu keppendurnir og með minnsta reynslu en ætla að reyna að láta það ekki hafa áhrif á sig: erlenda dómnefndin sem velur sigurvegarann veit ekkert hverjir eru frægir á Íslandi og hverjir ekki og allir hljóta því að eiga jafna möguleika á að hreppa sætið í stóru keppninni í London. Á sama tíma og krakkarnir undirbúa sig fyrir keppnina ákveða þau að taka sig saman um að hjálpa mömmu Andreu, en hún er í miklum vanda stödd og svo virðist sem engin leið sé úr þeim ógöngum sem hún er komin í. Einhver hefur varpað sök á hana í alvarlegu máli og Andrea og vinir hennar halda að þau viti hver það gæti verið. En svo virðist sem einhver sé alltaf skrefinu á undan þeim í leitinni að sökudólgnum og sá hinn sami er tilbúinn til að leggja ýmislegt á sig til að koma í veg fyrir að þau komist að sannleikanum.

Tónlistin skipar stóran sess í lífi krakkanna í sögunni og lesandinn fær góða innsýn í þetta helsta áhugamál þeirra. Þó nokkuð hefur verið skrifað af bókum um börn sem æfa fótbolta og það er skemmtileg tilbreyting að hér sé fjallað um annars konar æfingar og keppnir. Félagarnir í Botnrössu æfa stíft og í sögunni er lögð áhersla á hljómsveitaræfingar, lagasmíð og ýmislegt annað sem tengist tónlistinni og þátttöku þeirra í keppninni. Stundum verða lýsingarnar á æfingum þeirra, útsetningum, uppstillingum og fleiru kannski fulltæknilegar, en þó ekki svo að það verði truflandi. Lesandinn fær hins vegar áhugaverða og sannfærandi innsýn í það hvernig hljómsveitaræfingar fara fram, hvernig stóru keppnirnar sem við sjáum stundum í sjónvarpinu eru settar upp og skipulagðar og hvernig sviðsskrekkur og spenna gagntekur krakkana og aðra keppendur áður en þau fara á stóra sviðið í Hörpu. Lýsingarnar á þessum tveimur síðastnefndu atriðum eru skrifaðar af miklu innsæi og auðvelt að setja sig í spor krakkanna við þessar aðstæður. Lagið sem þau semja fær titilinn Natalía María (áhugasamir geta hlustað á það á Youtube) og fjallar um afleiðingar eineltis, þegar gerandi og þolandi hittast mörgum árum seinna og sárin hafa ekki gróið um heilt. Textinn kallar fram sterk viðbrögð hjá hinum fullorðnu í sögunni, sem krakkarnir skilja ekki alveg en þau komast að þeirri niðurstöðu að þetta séu bara almennar áhyggjur fullorðinna af einelti. Síðar kemur í ljós að textinn hefur óbeina tengingu við atburði í fortíðinni en sú tenging er frekar óljós og hefði mátt styrkja hana í gegnum söguna.

Þegar meðlimir Botnrössu eru ekki að æfa sig fyrir keppnina eru þau að rannsaka mál mömmu Andreu. Það er glæpamál sem virðist í fyrstu hafa litla tengingu við daglegt líf krakkanna en vindur upp á sig eftir því sem líður á. Þau fer að gruna ákveðinn kennara í skólanum um að hafa eitthvað með málið að gera: hann er alltaf eitthvað svo skuggalegur og skrítinn og Andreu er sérstaklega uppsigað við hann af þessum sökum. Það eru þó fleiri sem koma til greina og ýmsar vísbendingar sem benda til þess að einhver annar en hann hafi verið að verki. Lesandinn velkist í vafa fram á síðustu síðurnar um hver hinn raunverulegi glæpamaður er og vel tekst til við að byggja upp spennu í kringum atburðarrásina og lokaniðurstöðuna.

Aðalpersónurnar eru allar mjög ólíkar týpur og þó að Andrea sé í aðalhlutverki kynnumst við hinum líka ágætlega. Aukapersónur eru hins vegar svolítið staðlaðar og fá minna rými í sögunni, að undanskildum pabba Andreu og trommraranum Adda sem bjargar krökkunum þegar þau lenda í vandræðum fyrir keppnina. Addi er, eins og fleiri persónur sem koma við sögu, byggður á raunverulegri persónu en þó nokkuð af frægu fólki á Íslandi kemur við sögu. Í flestum tilvikum er þátttaka þeirra í sögunni aðallega í formi spjalls við krakkana fyrir keppni og lítið á persónulegu nótunum og er hlutverk þeirra aðallega að auka spennuna í keppninni og gera þátttöku krakkanna áhugaverðari. 

Bieber og Botnrassa er spennandi og grípandi, hún heldur lesandanum algerlega við efnið og hann fær mikla samúð með Andreu og hinum persónunum. Þó að tónlistin sé í stóru hlutverki þarf ekki endilega að hafa rosalega þekkingu eða áhuga á tónlist til að bókin verði spennandi, en hún veitir innsýn í heim sem mörgum finnst áhugaverður og gerir það á býsna skemmtilegan hátt.

María Bjarkadóttir, desember 2017