Beint í efni

Bavíani

Bavíani
Höfundur
Naja Marie Aidt
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Einhverra hluta vegna var það ekki alveg auðhlaupið að setja saman ritdóm um smásagnasafn Naju Marie Aidt, Bavíana. Áður en ég vissi af var ég komin á kaf í að laga til í frystinum og dúllaði mér dágóða stund við að höggva klaka og telja rækjur. Kannski kemur þetta til af því að ég veit ekki vel hvað ég á að segja um bókina og kannski er þetta bein afleiðing þess skorts á mannlegri hlýju sem bókin lýsir svo vel.

Ég hafði hlakkað lengi til að lesa Bavíanann, ég er dáldið smásagnanörd og svo hlaut bókin Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs alveg eins og bækur þeirra Sjóns og Gyrðis. Kannski voru væntingarnar of miklar en einhvernveginn fór þetta svo að ég tengdi ekki vel við sögurnar, hreifst ekki af þeim, þó vissulega snertu sumar þeirra mig. Og það óþægilega. Ég fór með bókina í frí og las hana í þremur slumpum, í einum millikaflanum varð hún eftir á borði þarsem frænka mín komst í hana, en hætti strax. „Mér leist ekki á þetta”, sagði hún, enda er hún manngæskan uppmáluð og mikil ungamóðir og ég gat rétt ímyndað mér að fyrsta sagan um grátandi barn sem verður að einhverskonar bitbeini milli foreldra sinna hafi ekki glatt hana. Aðallega er ég fegin að hún skyldi ekki ná lengra inn í bókina, í hörmulegu söguna um konuna sem ber son sinn linnulaust og föðurinn sem fylgist með úr fjarlægð, aðgerðalaus. Andrúmsloftið í þeirri sögu, „Torben og María”, minnir næstum á tilraun, líkt og faðirinn hafi gert þá tilraun að eignast barn með þessari konu, sem er á allan hátt fábrotin manneskja (upphafsorð sögunnar eru: „Hvað er eiginlega hægt að segja um Mariu?”), og fylgist svo með því hvað gerist eiginlega. Og það sem gerist er sumsé að Maria er ekki hamingjusöm manneskja og lemur son sinn.

Myrkur mannssálarinnar eru viðfangsefni sagnanna, en þó eiginlega ekki myrkur, því ekki er hægt að segja að sögurnar lýsi illsku, heldur miklu frekar tómleika og ömurleika, tengslaleysi, einmanaleika og á stundum, fyrirlitningu og jafnvel hatri. Jákvæðar tilfinningar eru ekki til (hverjar sem þær nú eru) og andrúmsloft sagnanna er kæfandi og eftirbragðið beiskt. Ein sagan fjallar um hjón sem eru glöð á leið í sumarfrí en þá er konan ásökuð um búðarstuld og allt breytist í martröð. Önnur sumarfríssaga frá Grikklandi lýsir því hvernig kona virðst skyndilega eipa og saga frá ráðstefnu sýnir endurfundi (eða ekki) fólks sem hafði greinilega átt í ástarsambandi eða átt ástarfund fyrir nokkru síðan, mögulega á annarri ráðstefnu. Ung og ástfangin hjón iðka líflegt kynlíf, sem kemur ekki í veg fyrir að karlinn stundi kynlíf með körlum, vinnufélögum sínum og öðrum sem til falla. Þannig fjalla sögurnar um ást og ástleysi, og tilfinningarnar sveiflast á milli tryllings og tómleika, hvorttveggja á einhvern óþægilega ýktan hátt.

Sem slíkar eru sögurnar í Bavíana ákaflega áhrifaríkar og enn og aftur má vel hugsa sér að ástæðan fyrir því að ég heillaðist ekki endilega sé einfaldlega sú að þær eru hannaðar til að fæla frá, vekja jafnvel andúð en þó kannski enn frekar tilfinningu fyrir tilgangsleysi, endalausi hringekju án allra skemmtilegu reiðdýranna. Í viðtali við skáldkonuna í tímaritinu Spássíunni (sumar 2011) kemur einmitt fram að hún vill trufla og koma óþægilega við fólk: „Ég vil taka fólk á taugum, þannig að fólk fái á tilfinninguna að það bókstaflega hlaupi í gegnum sögurnar með hjartsláttinn á fullu. Þetta neyðir fólk til að finna fyrir sér og ég held að það sé gott, jafnvel þótt það sé kannski ekki þægilegt.” Og hún líkir stíl sínum við Stephen King, „að láta eitthvað óhugnanlegt birtast skyndilega og hræða líftóruna úr persónunum.” Þessi samlíking við hrollvekjuna, sem einmitt kallar iðulega á sterk líkamleg viðbrögð er áhugaverð því á margan hátt eru sögurnar andstæða alls sem almennt er tengt við hrollvekjur, sem tiltekna tegund afþreyingarbókmennta. Hinsvegar eru sögurnar óneitanlega hrollvekjandi í meðferð sinni á fólki og jafnvel lesanda. Og hvað sem öðru líður er bókin ákaflega vel skrifuð og haganlega smíðað verk. Tóntegundin er hlutlaus, mitt í allri ömurðinni, stíllinn einfaldur og látlaus, og allt ýtir þetta undir þær erfiðu tilfinningar sem sögurnar höfða til.

Sjónarhornið ýtir svo enn undir þessa tilfinningu framandleika og fjarlægingar, en Aidt leggur sögurnar iðulega þannig upp að það er erfitt að átta sig á hver það er sem segir þær, karl eða kona? Sögumaður eða persóna sögunnar? Þetta er svo enn undirstrikað í einni sögunni en þar er það beinlínis afar óljóst hvers kyns sú persóna sem segir söguna er. Hér kemur þáttur þýðandans sterkur inn, en það getur ekki hafa verið auðveld glíma að líma þetta allt saman svo vel sé og þannig að lesandi haldist sem lengst í óvissunni. Þessu skilar Ingunn Ásdísardóttir með sóma, sem og hinum látlausa stíl sagnanna sem geymir í fórum sínum svo margskonar átök.

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2011.