Beint í efni

Ávítarastríðið, Dularfulla bókin og Rúnatákn

Ávítarastríðið, Dularfulla bókin og Rúnatákn
Höfundur
Lene Kaaberböl
Útgefandi
Jentas
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Ávítarastríðið, Dularfulla bókin og Rúnatákn
Höfundur
Lloyd Alexander
Útgefandi
Æskan
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Ávítarastríðið, Dularfulla bókin og Rúnatákn
Höfundur
Joanne Harris
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fantasía er afar víðfem bókmenntategund, þvert á hugmyndir margra sem halda að allar fantasíur séu eins. Á undanförnum árum hefur streymt fram heil flóðbylgja af fantasíubókmenntum fyrir unga lesendur og skyndilega er fantasían, sem lengi vel hafði verið hálfgert jaðarform, orðin að almenningseign og næsta sjálfsagður þáttur í bókmenntaflórunni. Þetta er auðvitað af hinu góða, enda eru vel heppnaðar fantasíur með því langskemmtilegasta sem hægt er að hugsa sér, auk þess sem fantasían getur búið yfir sterkum pólitískum víddum, þegar svo á við.

Fantasían hefur ennfremur löngum verið vinsælt form kvenna og femínista sem nota frelsi fantasíunnar til að stokka upp í viðteknum hugmyndum, til dæmis um kynhlutverk og dæmi um slíka er Rúnatákn Joanne Harris (Uppheimar, 2007). Þar er sótt í heim norrænna goðsagna, en sagan segir frá unglingsstúlkunni Möllu sem býr í Malarbæ. Fimmhundruð ár eru liðin frá ragnarökum og í kjölfar þeirra hefur Reglan haslað sér völl í heiminum, með boðum og þó aðallega bönnum sem snúa að hverskyns óreglu, en til hennar teljast bæði draumar og galdrar. Hér er því verið að fjalla um hvernig sjálft ímyndunaraflið er bælt niður og þrátt fyrir að hvergi sé kristin trú nefnd á nafn er augljóst að önnur tilvísun bókarinnar eru galdraofsóknir sextándu og sautjándu aldar í Evrópu. Fulltrúar Reglunnar nefna sig Rannsóknardómara og þeir búa yfir máttugum krafti sem þeir nefna Orðið. Þannig liggja átök trúarheima undir í þessari þykku bók, jafnframt því sem verið er að fjalla um mikilvægi fantasíunnar sjálfrar, þátt ímyndunaraflsins og draumanna.

Malla er óvenjuleg, hún hefur fæðst með rúnatákn í lófa sínum. Slíkt gerir hana sjálfkrafa göldrótta og þetta óttast þorpsbúar. Mátt sinn uppgötvar hún þó ekki fyrr en hún hittir Eineygan, flakkara sem einnig ber rún á andliti og tekur að sér að kenna stúlkunni. Það þarf ekki mikla þekkingu á norrænni goðafræði til að átta sig á hver er hér kominn og áður en varir bætast Loki og Mímir í þennan guðlega hóp, auk þess sem vanir eru vaktir upp og fyrr en veit er lesandi kominn á kaf í undirheima goðafræðinnar, til Heljar og Niflheima.

Harris nýtir sér dularfull fyrirbæri úr enskri menningu eins og rauðu hestmyndina og límir saman við norræna goðafræði á einstaklega vel heppnaðan hátt. Sagan fer nokkuð hægt af stað en svo streymir hún fram, líkt og fljót undirheimanna, í spennandi átökum milli goðmagna og í hinum nafnlausa guði Reglunnar. Þáttur Loka er sérlega áhugaverður í höndum Harris, en sýn hennar á öll goðmögnin er frumleg og flott. Sjálf er Malla gott dæmi um sterka kvenhetju og þann möguleika fantasíunnar að snúa uppá kynhlutverk, en komu hennar er spáð í Völuspá, nema bara þar er auðvitað spáð fyrir komu karlhetju!

Rúnatákn er af þeirri grein fantasíubókmennta sem á sér algerlega stað í tilbúnum heimi, þó hann hafi vissulega ákveðin líkindi við Bretland. Það er iðulega talað um J.R.R. Tolkien sem brautryðjenda slíkra bókmennta en Hobbitinn og Hringadróttinssaga eru af þessu tagi, en þar er einmitt einnig unnið með norræna goðafræði. Áhrif Tolkiens verða seint eða aldrei ofmetin og þau eru áberandi í bók Lloyds Alexanders, Dularfulla bókin: Á háskaslóðum (Æskan, 2007), en þar er á ferðinni fyrsta bók í nýrri seríu fantasía. Þar segir frá svínahirðinum Taran sem þráir að verða hetja - og verður það. Sagan gerist í tilbúnum heimi (sem vísar til Wales) og þar hefur komist rót á ill og máttug öfl, konungur dauðaríkisins hefur sent út óvígan her gegn fulltrúum hins góða. Þetta veldur róti allsstaðar í landinu Prydain og meðal annars sleppur spádómsgyltan Hen Wen úr kró sinni og þarmeð hefst ævintýrið. Taran eltir og hittir aðalhetjuna, prinsinn Gwydion og hálfgerðan förunaut hans, Gurgi, sem er einskonar millistig dýrs og manns og sækir fyrirmynd sína greinilega til Gollums Hringadróttinssögu. Þess má reyndar einnig geta að gylta leikur sömuleiðis lykilhlutverk í sögu Harris, og þótt hvorugt fljúgi virðist ljóst að fantasíuhöfundar séu eitthvað uppteknir af svínum um þessar mundir.

Dularfulla bókin er afskaplega hefðbundin fantasía á allan hátt og mun minni um sig og mun minna pólitísk en Rúnatákn. Hér höfum við ungu hetjuna sem verður að læra, af sér eldri og reyndari hetju. Eins og formúlan segir til um hefur hetjan með sér aðstoðarmenn, en fyrir utan Gorgi hittir Taran unga stúlku, Eilonwy, sem er dálítið göldrótt en talar aðallega linnulaust og á málæðið í henni ríkan þátt í að gera söguna skemmtilega aflestrar. Vissulega er hlutur þessara aðstoðarmanna gerður mikill, en slíkt er einnig hluti af formúlunni, að í fyrstu eru aðstoðarmennirnir mikilvægir, en hefðin segir svo til um að hlutur þeirra minnki - en það á auðvitað eftir að koma í ljós eftir því sem seríunni vindur áfram.

Ávítarastríðið (Jentas, 2007) er hinsvegar lokabókin í fjögurra bóka fantasíu dönsku skáldkonunnar Lene Kaaberbøl. Hér lýkur einum albesta fantasíuflokki síðustu ára, en þessar sögur eru, líkt og bækur J.K. Rowling og Philip Pullmanns, sögur sem henta ungum jafnt sem eldri lesendum. Ávítaraserían er dæmi um frekar einfaldar fantasíur, án mikils glyss og glingurs, furðudýra eða ævintýra, og er á einhvern hátt einstaklega norræn, þrátt fyrir að vera, eins og Rúnatákn og Dularfulla bókin, dæmi um fantasíu sem gerist í eigin skálduðum heimi. Þar eru að sjálfsögðu valdaátök milli hins góða og illa, eins og í öllum fantasíum, en hér hefur óskilgetinn hálfbróðir steypt hinum rétta fursta af stóli. Vondi maðurinn, Drakan, ræður yfir drekum en í blóði þeirra felst meðal annars máttur hans. Gegn honum er teflt konu, móður þriggja barna, en tvö þeirra eru aðalhetjur sagnanna. Konan er göldrótt sem felst í því að hún býr yfir svokölluðum ávítarahæfileika, en sá felst í því að krefja fólk um að játa sekt sína og skammast sín. Þennan hæfileika óttast Drakan og því gerir hann það sem hann getur til að valda fjölskyldunni skaða, eins og lýst er í fyrri bókunum. Dóttirin, Dína, hefur erft hæfileika móður sinnar, en í síðustu bók, Mætti slöngunnar, kom einnig í ljós að hún hefur erft hæfileika föður síns, en hann var galdramaður af öðru tagi. Þetta eru helstu andstæðingar hins illa Drakans og uppsetningin gefur til kynna að hér sé höfundur, líkt og Harris, að nota sér fantasíuna til að brjóta upp hefðbundin hlutverk. Auk þess ber einfaldleiki sögunnar og óvenjulegt yfirbragð þess merki að hér sér einnig verið að vinna með sjálft form og hefðir fantasíubókmennta, til dæmis með því að færa hana meira niður á svið hversdagsleikans.

Í sögunni dregur til lokastríðsins við Drakan, en nú hefur ungi bardagafælni furstinn Nikó fengið nóg af yfirgangi hans og drífur sig af stað í stríð. Dína og bróðir hennar Davín elta, en þau treysta Nikó illa til að bjarga sér sjálfur. Þannig fjallar meginhluti sögunnar um ferðalög þeirra þriggja og tilraunir systkinanna til að halda aftur af Nikó. Stríðið sjálft fær ekki mikið vægi, sem er enn eitt dæmið um hvernig Kaaberbøl vinnur með formið.

Það er sjálfsagt ekki alltaf auðvelt að koma fantasíubókmenntum yfir á önnur tungumál, því oft og tíðum er tungumálið mikilvægur hluti af sögunum, með tilbúnum orðum og fyrirbærum sem finna verður samsvarandi eða nýtt heiti yfir. Ávítari er dæmi um þetta, en á dönsku heitir þetta ‘skammer’ og þó ‘ávítur’ séu vissulega formlegri en ‘skammir’ þá er ljóst að heitið er vel heppnað og fangar vel þann dálítið háfleyga anda sem vissulega ríkir í sögunum. Sömuleiðis eru þýðingarnar á Dularfullu bókinni og Rúnatákni vel unnar, og ber þar sérstaklega að geta sérlega liðlegra samtala Möllu og Loka í síðarnefndu bókinni.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007