Beint í efni

Aukaverkanir

Aukaverkanir
Höfundur
Halldóra Kristín Thoroddsen
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Á „Nýársnótt“ nenna kýrnar ekki lengur að tala, þær eru svo uppteknar við að hlusta á fréttir „um niðurskurð í mjólkur- og kálfakjötsframleiðslu.“ Sú eina sem tjáir sig er Ljómalind, en hún fer þó ekki með þekkt kvæði heldur muldrar með sjálfri sér: „Sama tuggan“.

Eins og þessi lýsing gefur til kynna er þjóðsagan í nútímabúningi viðfangsefnið í smásagnasafninu Aukaverkanir eftir Halldóru Kristínu Thoroddsen. Bókin er nokkuð frábrugðin fyrri skrifum höfundar en hún hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur og eina bók með stuttum prósum. Hér ræðst hún í all metnaðarfullt verkefni sem er að færa nútímalíf í annálabúning, oftar en ekki með pólitískum vísunum í samtímamálefni. Þannig er dæmisagan aldrei mjög fjarri með tilheyrandi boðskap og það er kannski þar sem málin fara að vandast því það er erfitt að halda öllu þessu til haga án þess að taka upp umvöndunartón. Því miður gerir slíkur á stundum vart við sig og sumar sagnanna detta niður í klisjur eins og sagan af „Jónsmessunæturdraumnum“ og „Fallið“, en þar segir annarsvegar af hjónaklúbbi og hinsvegar af hinum fullkomna gráa skrifstofumanni. Aðrar sögur eru vel heppnaðar eins og „Séð úr lofti“ þarsem lesandi skoðar mannlífið ofan frá, og fylgist með elliærri mannveru sem veldur „töfum í samfélaginu“ sem orsaka „minni framleiðslugetu“ og auka „árásargirni umtalsvert“ til dæmis með því að sinna ekki umferðarreglum. Sagan af „Pilti og stúlku“, sem uppgötva ástina á ný í netheimum er líka vel heppnuð pæling og svo er auðvelt að heillast af Rauðhettu með vasadiskó og sögunni af selshamnum í glænýjum búningi. „Fáfnir og félagar“ er saga sem bæði má lesa sem fantasíu og táknsögu, en þar óttast drekar hlátur manna allramest, og sagan af „Kringlukastinu“ þarsem hin borgaralega hlýðni lendir í ógöngum býr líka yfir ýmsum blæbrigðum.

Almennt séð er líklega best að lesa þessa bók í smáskömmtum, því tóntegundin er á stundum óþarflega eintóna og sögurnar vilja renna saman. Eftir situr þó tilfinning fyrir nokkuð skemmtilega heppnaðri samfellu stílbragða og viðfangsefna, myndir sem vekja upp samfélagslegar vangaveltur og aðrar sem þjóna því ekki síður eðla hlutverki að vekja kátínu.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007