Beint í efni

Arfurinn

Arfurinn
Höfundur
Borgar Jónsteinsson
Útgefandi
Boxi bókaforlag
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Útdráttur söguþráðar Arfsins sem birtist á baksíðu bókarinnar vekur sannarlega forvitni. Aðalsögupersóna bókarinnar, Ásgeir, er lentur í blindgötu eftir skilnað og vinnur við sölumennsku sem hann sýnir lítinn áhuga. Hann fær dularfullt bréf frá lögfræðistofu og í ljós kemur að honum hefur tæmst arfur eftir afa sinn sem allir álitu löngu látinn. En svo hafði hann bara verið á lífi öll þessi ár, í felum í Argentínu líkt og margir fyrrverandi nasistar. Afinn hafði að vísu ekki verið nasisti en allavega verið í SS sveitunum og unnið að ýmsum verkefnum á vegum þýska hersins á styrjaldarárunum. Ásgeir afræður að fara til Argentínu til að vitja um hluta arfsins þar. Hann kynnist þar ekkju afa síns og dóttur hennar, Ísabellu. Þau tvö eru sem sé ekki blóðskyld. Sem betur fer. Já, þetta er forvitnilegt og svo er líka forvitnilegt að sjá  hvernig til tekst hjá höfundi sem er að senda frá sér fyrstu skáldsögu sína.

Og það er í sjálfu sér ekki hægt að segja annað en nokkuð vel hafi tekist til. Þetta er lauflétt afþreying, í raun átakalítil ástarsaga með spennuívafi eða spennusaga með rómantísku ívafi. Ásgeir er reyndar dálítið klaufalegur stundum og svo er hann gjarn á að roðna eins og feimin yngismær. Hann er engin hetja sem sýnir visst raunsæi. Alvarlegustu kaflarnir og jafnvel þeir bestu tengjast dagbókarfærslum, bréfum og minningum afans frá því úr stríðinu og eftir að hann er kominn til fyrirheitna landsins, Argentínu.

Ekki er hægt að kalla þetta glæpasögu þótt stríðsglæpir komi við sögu í fjarlægri fortíð en kannski spennusögu, með góðum vilja. Allavega er þetta saga sem maður gleypir í sig á tveimur kvöldstundum og má mæla með sem slíkri.

Bókin er í kilju og laglega gengið frá henni en nafn höfundar kannski í of ljósum og hógværum  lit til að sjást greinilega. En þetta er sem sé ein af þessum sögum sem renna viðstöðulaust ofan í lesandann. Þrátt fyrir að stíllinn sé í heild dálítið flatneskjulegur, nánast talmálsstíll, er ekkert verulega vandræðalegt að finna sem pirrar mann. Átti heldur alls ekki von á því. Í einstöku tilvikum hefði mátt laga til málsgreinar, byrja málsgrein á einum stað og enda á öðrum, en það er bara persónulegt mat ; „Þetta eru kannski eigur fólks sem var útrýmt“ (s. 246) er til dæmis ekki gott orðaval en ekki er það rangt. „Ég fékk einn himneskan sopa úr döggvotu bjórglasinu“ er eitt dæmi af mörgum um ótal lýsingar á því sem persónur bókarinnar láta eftir sér í mat og drykk, þarna vantar að vísu „mér“ (vona ég) en annars eru fá dæmi um yfirlestrarmistök. Á einum stað stendur að vísu „stakst“ í stað „stakkst“  og á einum stað var eitt „n“ í stað tveggja. En slíkt og þvílíkt er alvanalegt að sjá í bókatextum. Þegar undirrituðum fannst lýsingar á kakóbaunarækt vera farnar að lengjast heldur í annan endann lauk þeim blessunarlega. Einnig er ekki hægt að setja út á flugferðalýsingar sem höfða helst til áhugafólks um flug. Þær tóku svo snöggt af að allt var það í lagi líka. Við þetta má bæta að á einum stað segir einhver „Ok,...“ Síðast þegar ég vissi var Ok hopandi jökull eða fyrrverandi jökull sem á lítið erindi í samræðurnar þarna, enda mun þetta eiga að vera „Ókei“ sem er allt annað.

Ekki er gefinn upp nákvæmur sögutími en ætla má að atburðir eigi að gerast nú á dögum. Þó kemur Hótel Esja hér við sögu en ekki Hilton Reykjavík Nordica, eins og það heitir nú illu heilli, sem vísar til þess að atburðir hafi átt sér stað fyrir fáeinum árum eða sagan hreinlega verið skrifuð fyrir nokkru síðan. Miðað við ýmsar aðrar afþreyingarbókmenntir, til að mynda eftirtaldar sem stórt forlag gaf út nýverið; 20 tilefni til dagdrykkju og Þessi týpa, þá hefur Arfurinn heldur betur vinninginn yfir þær báðar. Athyglisverð frumraun.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2014