Beint í efni

Alltaf sama sagan

Alltaf sama sagan
Höfundur
Þórarinn Eldjárn
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Skáld með ritstíflu verður fyrir því að hundurinn hans ljóðar á hann. Þessi skilaboð koma að vísu brengluð í gegn þannig að kveðskapur hundsins er í raun snöggtum betri en skáldsins...að áliti hundsins. Skáldið ákveður að fara með kveðskapinn til útgefanda síns sem lengi hefur beðið eftir bók frá skáldinu. Við því getur hundurinn ekkert gert enda gefa hundar ekki út bækur heldur þefa þeir upp kvæðin hver hjá öðrum ef því er að skipta. Má segja að við útkomu bókarinnar fari allt í hund og kött. Ekki slær bókin í gegn en útgefandinn og skáldið skilja að skiptum. Í lok sögu hafa hlutverk herra og hunds snúist við hvað kveðskapinn varðar.

Þetta er meinfyndin saga og þannig eru þær nokkrar í nýjasta smásagnasafni Þórarins Eldjárns, Alltaf sama sagan. Meinfyndnar geta þær kallast en engin samt þannig að hún framkalli svakaleg hlátrasköll enda er það kannski ekki alveg tilgangurinn. Þessar sögur fjalla gjarnan um eitthvað sem menn eru að bauka við að velta fyrir sér í hálfgerðu iðjuleysi og verður stundum meira úr en ætlað var í upphafi en einnig gerist það að ekki verður neitt úr neinu. Þetta verða þá eins konar engan veginn sögur eða sögur þar sem fátt eitt gerist. Þannig er til dæmis sagna „Silla á Klömbrum”. Sögumann langar mikið til að kynnast þessari Sillu en missir eiginlega af tækifærinu. Þegar hann áttar sig á því fær hann „sting í hjartað eins og ég hefði gleymt að endurnýja í happdrætti og misst af stóra vinningnum.” En er frá líður fennir yfir þau vonbrigði og í ljós kemur að þetta skipti svo sem ekki neinu máli.

Þannig er það með svo margt sem við mannfólkið erum að bjástra við. Eitthvað heltekur huga okkar um stund og skiptir þá ægilega miklu máli en er í raun smámunir miðað við heila ævi. Stundum getur þó eitthvert svona smáræði skipt sköpum. Í raun veit maður það aldrei. Í fyrstu sögu bókarinnar, „Kauði”, er sögumaður að fylgjast með manni sem hann sér öðru hverju bregða fyrir. Hann gerir sér ákveðna hugmynd um hvernig maður þetta sé en kemst svo að því að hann hefur haft alrangt fyrir sér. Þarna eru engin mikil átök eða dramatík. Samt segir þessi saga okkur heilmikið um fordóma.

„Stanleyhamarsheimt” er skondin nútímaútfærslu af ferð Þórs og Loka til Útgarðs þar sem hinn óþolinmóði Þór segir söguna. Síðasta sagan í bókinni, „Flökkusaga”, er þó einna bitastæðust. Þar segir frá manni sem leggst út sem flökkumaður. Eins og venjulega á hinn hlutlausi og tiltölulega meinlausi sögumaður hlut þar að máli þótt hann vilji tæplega við það kannast, enda er hann oft meiri gerandi en hann sjálfur heldur eða ætlar sér. Í þessu tilfelli má vera að fremur ógáfuleg hugmynd hans sé meiri örlagavaldur en hann hafði ætlað í upphafi. En í þessari sögu, sem og í mörgum hinna, er líka verið að fást við þessar meinlokur sem hlaupa í fólk svo að ekkert verður við ráðið. Um stund er allt undirlagt en þegar frá líður er oft eins og ekkert hafi gerst. Þannig er það með svo margt.

Eins og svo oft áður hreyfa smásögur Þórarins við manni. Þetta er ánægjulegur lestur.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2009