Beint í efni

Allt er ást

Allt er ást
Höfundur
Kristian Lundberg
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er ekki mikil rómantík í skáldsögu Svíans Kristians Lundbergs, Allt er ást, þó nóg sé af ástinni, eins og titillinn gefur til kynna. Bókin er þó ástarsaga, en í stað rómantískrar sögufléttu sem gengur út á kynni elskendanna og það hvernig þau ná að lokum saman byggir höfundur upp heim algerra andstæðna, heim eyðileggingar og niðurlægingar sem hann speglar í ástinni sem skyndilega kemur inn í líf hans. Þessar andstæður koma ágætlega fram í lýsingu aftarlega í bókinni en þar er sögumaður á göngu og hugsar um þær breytingar sem orðið hafa á umhverfi hans og lífi: „Staðurinn er að umbreytast. Á göngustígnum meðfram ströndinni sé ég rotturnar koma – en bara ef ég hef staðið kyrr í langa stund. Já, ég elska hana. Allt annað er óhugsandi. Þetta er eins konar endurfæðing til lífsins ef svo má segja“ (150).

Þetta er athyglisverð mynd – ást og rottum slær þarna saman eins og ekkert sé sjálfsagðara – en um leið lýsandi fyrir söguna í heild, en fyrir utan ástina og niðurlæginguna er mikið fjallað um sögusvið hennar, bæinn Málmey í Svíþjóð.

Annað athyglisvert er að sögumaður heitir Kristian eins og höfundurinn og þegar upplýsingar um höfundinn eru skoðaðar er ljóst að sögumaður á ýmislegt sameiginlegt með höfundi. Meðal annars það að vera rithöfundur, en missa vinnuna og neyðast til að taka að sér verkamannastörf, og á endanum skrifa skáldsögu um það tímabil (ekki þó þessa sögu, heldur aðra). Sömuleiðis að hafa átt geðsjúka móður og verið ódælt ungmenni og fíkill, alkahólisti og eiturlyfjaneytandi. Sagan virðist því að nokkru leyti sjálfsævisöguleg, þó ekki sé um hefðbundna sjálfsævisögu að ræða. Frásögnin er sett saman úr brotum sem lýsa minningum úr bernsku og ungdómsárum sögumanns, verkamannavinnunni og aðbúnaði þeirra sem eru háðir mönnunarfyrirtæki sem misnotar þá miskunnarlaust, ástinni sjálfri og loks því að skrifa bókina, en skrifin eru mikilvægt þema verksins. Annað mikilvægt viðfangsefni er stéttamismunur og aðbúnaður verkafólks, en sögumaður lýsir því hvernig hann flakkar milli stétta þegar hann neyðist skyndilega til að taka að sér illa launuð störf og verða háður duttlungum mönnunarfyrirtækisins. Einnig er komið inn á stöðu ólöglegra innflytjenda og þar með tengist sagan að nokkru inn í undirheima Málmeyjar, undirheima sem sögumaður hefur auðvitað áður kynnst á tímum fíknarinnar.

Það sem knýr söguna er þó ástin, eða kannski frekar óttinn við ástina, efinn um að hún sé raunveruleg, að sögumaður eigi skilið þessa miklu hamingju. Sú elskaða er nefnilega gömul kærasta, frá tímabili fíknarinnar, sem sögumaður fældi frá sér en hefur alltaf elskað í raun. Nú er hún komin aftur og þetta krefur sögumann um sjálfsskoðun og sjálfsrýni sem meðal annars kemur fram í upprifjunum á æskunni og vangaveltum um niðurlæginguna á verkamannaplaninu. 

Í sjálfu sér er þetta kannski ekki brjálæðislega spennandi viðfangsefni en það sem gerir söguna athyglisverða og ánægjulegra aflestrar er hversu vel hún er smíðuð. Brotaformið, sem felur í sér stöðugt flakk milli sviða, er tilgerðarlaust og teiknar upp mynd af manni sem stendur, kannski á göngustíg við ströndina, og lætur hugann flögra um minningar meðan augun flökta um umhverfið og þannig myndast einskonar mósaík mynda, minninga og hugleiðinga sem allar hverfast um einn punkt: ástina. Á margan hátt virðist þetta undarleg leið til að nálgast þetta uppáhaldsviðfangsefni heimsbókmenntanna jafnt sem sjoppusagna, en þó hlýtur að læðast að lesanda sú hugmynd að kannski einmitt svona sé best að ná taki á því ljúfsára fyrirbæri sem ástin er; með varúð, aðgát og augun opin fyrir rottum.

Þýðing Þórdísar Gísladóttur er afbragðsgóð og fangar vel þau margvíslegu blæbrigði trega, reiði og gleði sem skiptast á í verkinu.

úlfhildur dagsdóttir, maí 2012