Beint í efni

Afturelding

Afturelding
Höfundur
Viktor Arnar Ingólfsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Hvað gerir það að verkum að maður trúir því að raðmorðingi gangi laus hér á landi? Er íslenskt samfélag orðið þannig að allt getur þar gerst sem annars staðar gerist í veröldinni? Fylgjumst við svona vel með? Er maður búinn að horfa á svo margar breskar og bandarískar kvikmyndir og sjónvarpsþætti um morð og aðra óáran að manni fyndist það ekkert skrýtið þótt eins og einn fjöldamorðingi láti Ísland njóta starfskrafta sinna. Er maður búinn að lesa of mikið af glæpasögum? Hvað íslenskt samfélag varðar þá er það með þvílíkum ólíkindum undanfarin misseri að maður trúir því að allt geti gerst. Fyrirtæki og bankar þenjast út og sigra heiminn. Heimsyfirráð eða dauði virðist mottóið. En áður en lengra er haldið verður fyrst að sigra landann. Fá hann til að taka þátt í lánastefnu bankanna og gera kjarakaup í Bónus. Því fer fjarri að bankarnir stundi fjöldamorð … nema hægt sé að tala um fjárhagsleg fjöldamorð. En, sem sé, öllu má trúa nú til dags og Viktor Arnar Ingólfsson fer létt með að gera það trúanlegt að fjöldamorðingi birtist á okkar litla landi og geri ýmsum lífið leitt og sumum leiðara en öðrum.

Illmennið í sögu þessari leggst einkum á gæsaskyttur. Atburðarásin hefst í Dölunum, næst er skytta slegin af í Landeyjum og í þriðja sinn á Mýrum. Þar sem fórnarlömbin komu frá Reykjavík fer rannsókn málsins að mestu fram þar. Reyndar bætist lík í hópinn á Norðurlandi þannig að Akureyri kemur rétt aðeins inn í myndina líka. Aðalsöguhetjurnar eru lögreglumennirnir Birkir Li Hinriksson og Gunnar Maríuson. Auk þeirra koma fleiri löggur við sögu svo að segja má að um ekta löggusögu sé að ræða. Kannski er þetta upphafið að seríu. Þeir eru ágætis löggupar, Birkir og Gunnar, og er vel hægt að sjá þá fyrir sér í fleiri bókum. Aðrar löggur í rannsóknarhópnum eru ekki dregnar eins skýrum dráttum en Dóra, Símon og Magnús mæta samt til sögu með stuttar ævisögur á bakinu þannig að hægt er að átta sig nokkuð vel á þeim. Þau eru samt veigalitlar persónur í sögunni.

Viktor Arnar hefur sem fyrr gaman að leikjum og gátum. Í þessari sögu fer morðinginn í bókmenntalegan gátuleik við lögreglumennina og reyndar mátti rétt eftir útkomu bókarinnar stunda álíka spurningaleik á heimasíðu höfundar. Leikur þessi viðheldur spennu í bókinni einmitt þegar slíkar sögur vilja gjarnan detta niður meðan löggur ganga í hús og ræða við fólk til að fá skýrari mynd af atburðum. Vel til fundið. Annar leikur, eins konar „veruleika-paintball“, birtist í sögunni en vísast betra að fara ekki nánar út í þá sálma.

Fléttan er ekki eins stórkostleg og í Engin spor, persónur ekki eins lifandi og skemmtilegar og í Flateyjargátu, en samt er hér um fyrirtaks skemmtun að ræða. Alls konar smærri atriði hjálpa frásögninni áleiðis en verða aldrei fyrirferðarmikil. Höfundur lætur ekkert trufla sig í þeirri viðleitni að skrifa góða glæpasögu. Niðurstaðan er enda sú að Afturelding er góð glæpasaga. Aðdáendur Viktors munu þó hugsanlega sakna skrýtilegheitanna úr hinum sögunum, þessara atriða sem lyftu þeim upp en færðu þær kannski um leið í átt frá hefðbundnum glæpasögum. En þessi lesandi hérna var eldfljótur að gleypa í sig Aftureldingu og naut lestursins í hvívetna.

Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2005.