Beint í efni

Af hundum og hetjum

Af hundum og hetjum
Höfundur
Hafsteinn Hafsteinsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Barnabækur
Af hundum og hetjum
Höfundar
Hulda Jóns Tölgyes,
 Allie Doersch
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Barnabækur
Af hundum og hetjum
Höfundar
Jóna Valborg Árnadóttir,
 Elsa Nielsen
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Myndabækur fyrir yngstu börnin eru yfirleitt fullar af gagnlegum lærdómi, þar sem er reynt að koma á framfæri ýmsu sem snertir tilveru barna, á hátt sem þau skilja. Oft er fjallað um hversdagslegar aðstæður sem börn geta lent í eða vandamál sem þau geta staðið frammi fyrir og  stungið upp á lausnum. Myndirnar eru afar mikilvægar fyrir söguna og bæta miklu við textann sem er gjarnan einfaldur og skýr; þær eru gjarnan fullar af smáatriðum sem segja hluta af sögunni, auk þess sem hægt er að sýna svipbrigði og tilfinningar persóna til að gera söguna dýpri og gæða hana lífi.

Enginn sá hundinn eftir Hafstein Hafsteinsson

Enginn sá hundinn er ekki bara litrík og fjörug saga af hundi sem fer í ævintýraleit, heldur líka ádeila á hegðun okkar nútímafólksins og mikilvæg hugvekja fyrir marga, bæði fullorðna og börn. Sagan segir af fjölskyldu sem fær hund í jólagjöf eitt árið. Allir eru yfir sig glaðir með hundinn, þau taka upp á ýmsu skemmtilegu saman og hundurinn verður miðpunktur fjölskyldunnar. En næstu jól koma spjaldtölvur upp úr öllum pökkum og fjölskyldan hverfur á bakvið skjáina og gleymir algerlega að sinna hundinum. Hundurinn skilur ekki neitt í neinu og reynir allt hvað hann getur að ná athygli þeirra. Hann þrífur heimilið, vaskar upp, slær grasið og spangólar en allt kemur fyrir ekki. Dag einn rekst hann á kött sem er í sömu sporum, fjölskyldan hans er líka búin að gleyma honum. Þeir ákveða að fara saman í leiðangur og taka upp á ýmsu til að reyna að vekja athygli á sér en alls staðar er fólk niðursokkið í skjáina sína og tekur ekki eftir neinu. Á endanum gefast þeir félagarnir upp. Þeir ákveða að hætta að eltast við mannfólkið og skella sér frekar saman í ferðalag.

Sagan er ríkulega myndskreytt fallegum myndum sem eru fullar af lífi og fjöri. Hundurinn og kötturinn virðast bæði á sífelldri hreyfingu og svipbrigði þeirra eru mjög lýsandi fyrir það sem bærist innra með þeim. Umkomuleysi og einmanaleiki hundsins þegar fjölskylda hans hefur gleymt honum hittir beint í mark og vekur samúð lesandans á sama tíma og skilaboð sögunnar eru undirstrikuð. Þegar myndirnar eru skoðaðar nánar vekur athygli að umhverfi sögunnar og borgin sem þeir félagarnir fara til sýna mjög greinilega að sagan gerist ekki á Íslandi. Borgin er stórborg með fjölmörgum háhýsum þétt saman og greniskógar umlykja húsið sem hundurinn býr í. Kannski býður það að staðsetja söguna á óræðum stað upp á fleiri möguleika í uppátækjum fyrir þá félaga en umhverfið verður fyrir vikið svolítið framandi.

Sagan við myndirnar er sögð á vísnaformi en textinn lendir nánast í aukahlutverki við hliðina á myndunum. Vísurnar eru þó stórskemmtilegar, sniðugt orðalag og orðaleikir eru einkennandi ásamt skondnum myndum sem dregnar eru upp af hlutum sem eru hversdagslegir fyrir menn en sem verða undarlegir frá sjónarhorni hundsins. Sjónarhornið í textanum er einmitt alfarið hundsins og hann veltir mikið fyrir sér undarlegheitunum sem mannfólkið fæst við. Hann spyr sig til að mynda þessarar áleitnu spurningar: „Missir fólk mál við að mæna á ál? // Rænir það sál að rýna í stál?“ og á þar vitaskuld við spjaldtölvurnar sem breyta mönnum í hálfgerða svefngengla.

Hekla skilur hundamál eftir Huldu Jóns Tölgyes og Allie Doersch

Í annarri hundabók, Hekla skilur hundamál, segir frá Heklu og Huga sem eru bestu vinir, Hekla er stelpa og Hugi er hundur en þau tvö eru mjög náin. Í sögunni fara þau saman í göngutúr þar sem þau sjá og reyna ýmislegt um það hvernig best er að koma fram við hunda til að þeim líði vel í félagskap manna. Þau hitta krakka að leik og verða vitni að því þegar hundur skemmir sandkastala en Hekla útskýrir fyrir börnunum, sem eru bæði sár og reið, að þetta hafi verið alveg óvart hjá honum. Þau hitta líka börn sem eru að reyna að klæða hundinn sinn í búning og aðra krakka sem eru að busla í lítilli laug og skvetta vatni á sofandi hund og Hekla útskýrir fyrir þeim hvers vegna má ekki koma svona fram við hunda. Þau vinirnir fara líka í göngu úti í náttúrunni þar sem þau skoða sig um og leika sér og Hugi fær að gera það sem honum finnst gaman, eins og að velta sér í drullu og synda í læk. En þó að Hekla og Hugi séu vinir og Hekla viti hvernig eigi að umgangast dýr getur hún líka gleymt sér og þá er gott að aðrir viti líka hvað er best fyrir dýrin og geti minnt á að hugsa vel um þau.

Sagan gerist á Íslandi, umhverfið sem kemur fram á myndunum minnir á nýbyggt úthverfi í Reykjavík með nokkrum blokkum og mikilli víðáttu í bland. Myndirnar eru hráar og litirnir sækja innblástur í íslenska náttúru með dempuðum grænum, brúnum og gráum tónum. Yfirbragðið verður fyrir vikið kunnuglegt og vísun í íslenskan hversdagsleika skýr. Bæði börn og dýr eru teiknuð með afar stór augu og sækja að vissu leyti innblástur í teiknimyndamenningu samtímans. Augun verða sérstaklega áberandi í frábærri mynd af Heklu sem stendur með stjörnur í augum fyrir utan tívolí þar sem hún gleymir algerlega að hún eigi að hugsa um Huga líka.

Ekki fer á milli mála að ætlunin með bókinni er að kenna börnum að umgangast hunda og sagan er byggð upp í kringum nokkur dæmi af aðstæðum sem geta komið upp þegar börn og hundar koma saman. Göngutúr Heklu og Huga er sniðug leið til að koma mörgum dæmum að án þess að söguþráðurinn líði fyrir það eða verði samhengislaus. Aðalpersónan Hekla er ekki fullkomin þó að hún kenni öðrum börnum og það er ágætis áminning um að þó að maður kunni reglurnar geti manni orðið á en þá sé bara að bæta ráð sitt.

Hetjubókin eftir Jónu Valborgu Árnadóttur og Elsu Nielsen

Hetjubókin er fjórða og síðasta sagan af Sólu sem er hér nýbyrjuð í skóla. Henni finnst mjög gaman í skólanum en líður samt ekki nógu vel. Mamma hennar fer með hana til augnlæknis þar sem kemur í ljós að Sóla sér illa og þarf að nota gleraugu. Þær mæðgur fara saman og velja á hana falleg gleraugu en þegar Sóla kemur með þau í skólann verða hinir krakkarnir mjög hissa. Sólu finnst leiðinlegt að sjá viðbrögð þeirra og hleypur heim þar sem mamma hennar hughreystir hana og útskýrir fyrir henni að hún sé sama stelpan og áður þó að hún þurfi að nota gleraugu. Hún bendir henni á að það sé mikilvægt að vera sáttur við sjálfan sig og hugsa ekki um hvað öðrum finnst. Sóla ákveður að fara aftur í skólann, orð mömmu hafa sýnt henni að ekki sé ástæða til að líða illa. Á leiðinni aftur í skólann lendir hún í óvæntu ævintýri sem sýnir henni að allir eru einstakir og enginn er eins, en ævintýrið endar með því að hún bjargar skólafélögum sínum úr háska og áttar sig á því að hún sé bæði sterk og klár alveg eins og áður.

Myndirnar í sögunni eru líkt og í fyrri Sólubókunum einfaldar teiknaðar myndir sem minna stundum á stílinn í sígildum barnabókum eins og bókunum um Tuma og Emmu eða Einar Áskel, en eru brotnar upp með sérlega hugmyndaríkri notkun á klippimyndum. Klippimyndirnar eru litríkar og bæta skemmtilegum smáatriðum við söguna, til dæmis má sjá maríuhænu á laufblaði, banana á hillu, pottaplöntu og pípuhatt sem eru ekki teiknuð heldur klipptar út úr stærri ljósmyndum. Bakgrunnurinn í flestum myndunum er auk þess klipptur saman úr stærri myndum, til dæmis er parketið heima hjá Sólu mynd af trégólfi, ljósakrónan vaxlitað mynstur klippt til í ljósakrónuform og svo framvegis. Þetta gerir myndirnar einstaklega hrífandi og áhugaverðar og endalaust hægt að velta fyrir sér smáatriðum.

Í Hetjubókinni er fjallað um að vera öðruvísi en aðrir, hér eru gleraugun það sem gerir Sólu öðruvísi og hún þarf að finna að hún sé sama stelpan og áður þó henni finnist hún hafa breyst. Sóla er óörugg í fyrstu en lærir að hún sé alveg eins og hún var áður og fær þá sjálfstraustið á ný. Hún lærir líka hverjir eru styrkleikar hennar og notar þá til að hjálpa öðrum. Textinn er einfaldur og skýr og skilaboðin sömuleiðis. Það eru allir einstakir og það er mikilvægt að vera maður sjálfur.

Þessar þrjár myndabækur eru allar afar ólíkar. Myndskreytingarnar, söguþráðurinn og skilaboðin eru öll sitt úr hvorri áttinni en allar eiga það sameiginlegt að skilaboðin eru skýr og eiga fullt erindi við lesendur, bæði stóra sem smáa.

María Bjarkadóttir, nóvember 2016