Beint í efni

Að gæta bróður míns

Að gæta bróður míns
Höfundur
Antti Tuomainen
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er margskonar arfur sem heiðarlegi fasteignasalinn Klaus Haapala burðast með í farangrinum í sögu Antti Tuomainen, Að gæta bróður míns. Annars vegar er það saga föður hans og afa og hinsvegar saga samskipta milli Finna og Rússa. Ofan á það bætist samfélag nútímans, nútímaviðskiptahátta og gróðasjónarmiða sem hann þarf að takast á við. Ekkert af þessu fellur vel að sjálfsmynd hans sem heiðarlegs fasteignasala, enda er orðasambandið heiðarlegur fasteignasali hrein mótsögn.

Eftir að Klasu missir vinnuna hjá fasteignasölunni vegna óviðeigandi viðskiptahátta (heiðarleika) fær hann heimsókn frá lögreglunni; bróðir hans hefur verið handtekinn fyrir fíkniefnasölu. Að auki eru brestir í hjónabandinu því bótox-eiginkonan Leea er ekki sátt við þá tilhugsun að geta ekki lengur notið hins ljúfa lífs, reyndar kemur síðar í ljós að hún heldur við fyrrum yfirmann Klasu. Og áfram heldur lánið að leika Klasu illa, dekkin á bílnum hans eru skorinn og hann er barinn. Samt þrjóskast hann við að hjálpa bróður sínum, með hjálp föðurins.

Faðirinn er, líkt og Klasu, ekki sérlega leikinn við lukkuna. Hann hefur setið í fangelsi og reynir að halda út bílasölu, en vegna heiðarleika síns gengur honum illa – hann neitar að selja druslur sem annað en druslur, alveg eins og Klasu neitar að selja land undir sumarbústaði á eyju þar sem jarðvegurinn er eitraður af mengun.

Það er þó afinn sem fær mun meira pláss, en saga hans myndar einskonar uppistöðu í skáldsögunni, inni á milli bréfa sem faðir Klasu sendir móður hans úr fangelsinu. Afinn hefur alla tíð verið frekar óheppinn og tekst á undraverðan hátt ekki aðeins að tapa aleigunni í spilum heldur drepa í kjölfarið fjölda manns, meira eða minna óvart. Því eyðir hann miklum tíma í fangelsi. Það er svo auðvitað þessi ólukka sem fylgir syni hans og sonarsonum.

Klasu er þó ekki á þeim buxunum að gefast upp þótt í móti blási og sérstaklega er honum annt um yngri bróður sinn og því fer af stað nokkuð skrautleg og hæfilega ruglingsleg og kómísk – en þó grafalvarleg – atburðarás.

Það er sérstakt andrúmsloft í sögunni, eitthvað sem ég, án þess að hafa mikið fyrir mér, skynja sem ákaflega finnskt, og vísa þar til finnskra kvikmynda, tónlistar og annarra finnskra skáldverka. Þó er stór hluti finnskra skáldverka sem ég hef lesið mun alvarlegri en þessi saga, en breytir ekki þeirri ímynd sem ég hef af þeim. Ef marka má nýjustu skáldsögu Harukis Murakamis, Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans (2014), sem meðal annars lýsir ferð til Finnlands, þá eru fleiri en ég sem hafa þessa sérstöku ímynd af Finnum, því þar birtist akkúrat sama andrúmsloft og ég skynja.

Líkt og í Græðaranum, annarri sögu Tuomaninen sem komið hefur út í þýðingu Sigurðar Karlssonar, og í sögu Rosu Liksom, Klefi nr. 6, sem einnig er þýdd af Sigurði, er allmiklu komið fyrir í stuttri sögu, nokkuð sem er frekar óvenjulegt í doðrantavæðingu bókmennta undanfarið. Græðarinn gerist í nálægri framtíð, þegar verstu spár um loftslagsbreytingar hafa ræst, og Klefinn fjallar meðal annars um samskipti Finna og Rússa. Því það eru nefnilega þau samskipti sem liggja að baki eitruðu eyjunni sem Klasu neitar að selja sem sumarbústaðaland; Rússar höfðu einhverntíma tekið sig til og grafið holu í finnska eyju og holað þar niður eitruðum úrgangi. All í óleyfi að sjálfsögðu, en nokkuð sem þeir komust upp með í ljósi stöðu Finna gagnvart þeim. Umhverfismál koma því hér aftur við sögu, líkt og í Græðaranum, eða réttara sagt, átökin í kringum afneitun afleiðinga umhverfismengunar.

Þessi arfleifð er svo spegluð í arfi afans, sem eins og áður sagði, drepur menn að mestu í ógáti og algerlega án þess að ætla sér það. Hann er því heiðarlegur morðingi líkt og Klasu er heiðarlegur fasteignasali. Óheiðarleikinn er hinsvegar allur hjá þeim sem síst skyldi, og þar liggur hundurinn grafinn.

Öllum þessum vangaveltum um siðferði, erfðir og samsetningu samfélags er komið til skila á léttan og kíminn hátt og miðlað útfrá sjónarhorni Klasu sem er ákaflega bláeygur og saklaus og skilur bara ekki hvað gengur eiginlega á seyði – en skilur samt ansi margt.

Þýðing Sigurðar Karlssonar skilar öllum þessum blæbrigðum hins knappa verks með miklum glæsibrag og sem fyrr er það hrein gleði að lesa texta hans.

úlfhildur dagsdóttir, júlí 2015