Beint í efni

Abarat

Abarat
Höfundur
Clive Barker
Útgefandi
JPV
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Clive Barker kom fyrst fram um miðjan níunda áratuginn með smásagnasöfn sín Books of Blood eða Bækur blóðsins (1984-1985). Þessar smásögur sem lýstu ævintýralegum líkamlegum hryllingi, sundrungu og afmyndun hverskyns, vöktu mikla athygli á höfundinum og má segja að með þessari útgáfu hafi hann orðið brautryðjandi í hrollvekjuskrifum, og þá sérstaklega þeirri tegund hrollvekju sem einbeitir sér að líkamanum og ókennilegum innri veruleika hans. Barker fylgdi smásögunum eftir með röð af skáldsögum, meðal annars The Hellbound Heart (1986), Weaveworld (1987), Everville (1994) og Coldheart Canyon (2001).

Þó þær geti allar talist til hrollvekjunnar varð fljótlega ljóst að fantasían, sem vissulega fyrirfannst í smásögunum líka, var einnig fyrirferðamikil. Með tímanum breyttust líka tök Barkers á hrollvekjunni, þó hann yfirgæfi hana aldrei alveg. 1992 gaf Barker út barnabókina The Thief of Always og sagði af því tilefni að honum fyndist mikilvægt að gera hrollvekjandi fantasíur fyrir þennan aldurshóp, bæði þyrfti að ala upp lesendahóp! og svo þyrftu börn að fá að takast á við sögur af því tagi. Þar er hann á svipaðri línu og Þorvaldur Þorsteinsson, sem einmitt hefur ítrekað mikilvægi átakamikilla sagna fyrir börn. Það var þó ekki fyrr en áratug síðar sem Barker sendir frá sér aðra bók fyrir börn og unglinga, Abarat, og nú er hún komin út í íslenskri þýðingu Guðna Kolbeinssonar. Sagan er ríkulega myndskreytt, en samhliða rithöfundarstörfum hefur Barker starfað að myndlist og kvikmyndagerð (m.a. kvikmyndunum á eigin sögum) og mun þessi saga hafa átt upphaf sitt í röð af málverkum.

Eitt einkenni verka Barkers eru sterkar kvenpersónur og í Abarat hittum við fyrir unglingsstúlkuna Candy, en hún býr með foreldrum sínum í smábæ í Bandaríkunum. Stúlkan býr yfir auðugu ímyndunarafli og finnst sín hversdagslega tilvera fremur ómerkileg, ekki síst þarsem faðirinn er atvinnulaus og kemur illa saman við móður og dóttur. Þegar hún leitar fanga fyrir skólaverkefni kemst hún á snoðir um dularfullan atburð í gömlu hóteli bæjarins og í kjölfarið lendir hún í óvæntu ævintýri, sem endar á því að hún ferðast yfir í annan veruleika í leit að frekari ævintýrum. Og í þessum veruleika er eyjaklasinn Abarat með öllum sínum undrum. Tíminn hér er afstæður, því eyjarnar eru tímaeyjar, hver eyja á sér sína klukkustund og ber merki staðsetningar sinnar innan sólarhringsins. Á ferðalagi sínu um eyjarnar kemst Candy að því að þar hafa dramatískir atburðir átt sér stað og að ekki ríkir beint friður í þessari paradís ævintýranna. Sjálf er hún miðpunktur skelfilegrar valdabaráttu, því hún hefur undir höndum lykil nokkurn sem margir vilja komast yfir. Eins og í öllum góðum ferðasögum uppgötvar hún svo ýmislegt um sjálfa sig og tengslin sem eitt sinn voru milli hennar heims og Abarats.

Sem fyrr er Barker að vinna með hugmyndir um annan veruleika, en tök hans á slíku eru sérlega frumleg – í Weaveworld býr annar heimur í teppi, í Coldheart Canyon er slíkan að finna í postulínsflísum – eins og tímaeyjarnar bera með sér. Átökin við annan veruleika, annan heim, eru svo samþætt gagnrýni á hið viðtekna og fordóma gagnvart hinu óvenjulega, án þess þó að hér sé verið að predika! Þetta kemur vel fram í upphafi bókarinnar, þegar Candy er útskúfuð fyrir sitt ríka ímyndunarafl og áhugaleysi á kjúklingum, en hænsn eru uppistaðan í atvinnuvegi bæjarins.

Þýðing Guðna Kolbeinssonar er lipur, en á stundum fannst mér óþarflega mikill ''unglingabókastíll'' á textanum, sem er ekki beint í anda Barkers. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hér sé afbragðsævintýri á ferðinni. Nálgun Barkers á fantasíuna er fersk að vanda og hann skapar hér áhrifamikinn og fallegan heim sem gaman er að heimsækja, hverri eyju fylgja ný undur og nýjar upplifanir. Sagan er hæfilega óhugnanleg og hæfilega kómísk líka, og dramað er í hefðbundnum ævintýrastíl, hér er dreki, prinsessa og prins, eilíf ást og hrollvekjandi óvinur, og síðast en ekki síst vaxandi skemmtanaiðnaður, en lýsing hans minnti mig skemmtilega á Gleði-Glaum Andra Snæs í Sögunni af Bláa hnettinum. Barker kynnir okkur fyrir fjölmörgum skrýtnum og skemmtilegum persónum og furðuverum og hefur greinilega engu gleymt þegar kemur að því að rissa slíkar upp sterkum og eftirminnilegum dráttum. Dæmi um þetta er að finna snemma í bókinni þegar Candy svamlar í úthafi Abarat og hittir þar fyrir nokkrar sjávarverur sem ''sitja'' að tafli í miðjum ólgusjó. Myndirnar gera mikið fyrir söguna og tengjast myndrænum lýsingum svo úr verður ein undraheild.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2004