Beint í efni

8 gata buick

8 gata buick
Höfundur
Stephen King
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ég verð að játa að ég var orðin óttalega leið á mínum gamla vini Stephen King, mér fannst hann vera orðinn óttalega vellulegur eitthvað og gaf upp andann af leiðindum yfir Grænu mílunni. Og hef ekki litið í bók eftir hann síðan. En þá rak upp í hendurnar á mér nýja bílabókin hans, From a Buick 8 (2002), sem nú hefur verið gefin út á íslensku í ágætri þýðingu Helga Más Barðasonar sem 8 gata buick, og svei mér þá ef ég tók bara ekki minn mann í sátt. Hér er hann aftur kominn í sitt gamla góða stuð, hæfilega reyfaralegur, hæfilega dramatískur og dásamlega andstyggilegur.

Sagan segir í stuttu máli frá því að árið 1979 er bíll skilinn eftir á bensínstöð, að því er virðist í reiðileysi. Þegar lögreglumenn koma á staðinn reynist bíllinn vera eitthvað dálítið furðulegur og eftir nokkrar rannsóknir kemur í ljós að hér er í raun ekki um bíl að ræða heldur einskonar eftirhermu, sem samt virkar eins og bíll, því hann ók jú inn á bensínstöðina. Þetta er enginn smábíll, átta gata bjúikk, rosafalleg græja, nema það er eitthvað að, efnið sem hann er gerður úr er einhvernveginn næstum því eins og það á að vera, en passar þó ekki alveg. Ekki framleitt neinsstaðar á jörðu eins og einhver segir. Allavega ekki í Detroit. (Þessi hluti minnir skemmtilega á Manninn sem féll til jarðar, en þar var einmitt búið að búa til allskonar dót handa geimverunni, sem var næstum því eins og venjulegt dót en ekki alveg: utan á asperíndósinni var til dæmis bara óskiljanlegt smátt letur, því geimverurnar höfðu séð jörðina í sjónvarpinu og sáu ekki vel smáatriðin!) Og svo fara enn undarlegri atburðir að gerast, bíllinn virðist lifandi að því leyti að hann lagar sjálfan sig ef hann skemmist, og svo stendur hann fyrir miklum ljósagangi og á það til að borða fólk, gleypa það með húð og hári – og þegar það gerist, þá gubbar hann einhverjum furðuverum út í staðinn. Mesta umferðin virðist vera gegnum skottið, sem er jú alltaf langvarasamasti staðurinn á bílum. Ljóst er að bíllinn er ekki þessa heims, en hvers heims er hann?

Allt hljómar þetta afskaplega eitthvað svona 'far out', en eins og vanalega setur King þetta upp í sínum hefðbundna raunsæislega frásagnarstíl og það er það sem gefur þessu kikk. Lögreglumennirnir sem koma til að hirða upp bílinn taka hann í geymslu og fylgjast með athæfi hans, reyna að rannsaka ófreskjurnar sem bíllinn gubbar og passa að hann borði ekki neinn (eða, passa og passa, einn óheppinn var kannske ekki passaður um of), og þetta eru bara afskaplega venjulegir menn sem eru fremur skelkaðir og undrandi á þessari óvenjulegu uppákomu. Sagan er sögð í bakliti að mestu, en lögreglumennirnir týna tölunni (mögulega vegna áhrifa þessa bílamáls), og sonur eins fer að halda sig á stöðinni og fær söguna í skömmtum, með lesandanum. Eins og áður sagði er þýðing Helga Más bæði fín og rennileg og nær vel þeim afslappaða tóni sem er svo nauðsynlegur léttum og liðlegum texta Stephen King, en íslenskar þýðingar á mörgum verka hans hafa verið of uppskrúfaðar og ritmálslegar. Sjálfur er meistarinn hér í algeru stuði, skemmtir sér greinilega mjög vel, og nær að koma þeirri tilfinningu til lesandans. Hann nær að skapa dularfulla stemningu og andrúmsloft skelfingar og martraðar og á stundum fannst mér ég vera komin inn í skúrinn með helv… bílnum.

Nú um daginn bárust fréttir af því að King hefði verið úthlutað merkum bókmenntaverðlaunum og hefði sú afhending ekki vakið lukku meðal bókmenntamanna. Verðlaunin umdeildu heita National Book Award-verðlaunin og eru að sögn virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna. Ýmsir hneyksluðust á því að hér væri þessi 'söluhöfundur' settur á stall með höfundum eins og Philip Roth, John Updike, Saul Bellow og Toni Morrison. King svaraði þessu hiklaust og tilkynnti um leið að hann ætlaði að gefa verðlaunaféð til verkefna bandarísku bókastofnunarinnar sem vinnur meðal annars að því að örva lestur barna og unglinga. Verðlaunin voru afhent 20. nóvember og við afhendinguna ræddi King stöðu afþreyingarhöfunda og fordóma gagnvart þeim.

Allt er þetta mjög viðeigandi og ánægjulegt og ég var innilega ánægð með minn mann. Nú þegar Harry Potter æðið geysar með tilheyrandi umræðum um aukinn áhuga barna á lestri má ekki gleymast að það hafa alltaf verið starfandi duglegir og vinsælir höfundar, eins og Stephen King, sem höfða til ungs fólks og hafa haft lestrarhvetjandi áhrif. Að auki er King enginn venjulegur reyfarahöfundur, einhverntíma þegar sölutölur bóka hans voru teknar saman var reiknað út að á hverju bandarísku heimili væru allavega tvær bækur, Biblían og einhver bók eftir Stephen King. Á áttunda áratugnum tókst King einhendis að vekja hrollvekjuna sem sérstaka bókmenntategund til lífsins, en þrátt fyrir að eiga sér merkilega sögu allt frá átjándu öld, tíma gotnesku skáldsögunnar, hafði hrollvekjan dalað um og uppúr miðri tuttugustu öldinni og runnið saman við fantasíur eða það sem kallað var 'yfirnáttúrulegt' efni. King hristi hismið utan af hrollvekjunni og kippti henni aftur inn í hringinn, og þar hefur hún verið síðan. Og það er sérlega vel við hæfi að kallinn skuli fá þessi verðlaun nú, þegar enn ein bylgjan af hryllingsmyndum gleður augað.

Og svo er bara að renna sér í að glugga í gömlu bækurnar aftur (og jafnvel ná upp því sem ég missti af) og byrja að sjálfsögðu á hinni bílabókinni: Christine.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2003