Beint í efni

1983: skáldsaga

1983: skáldsaga
Höfundur
Eiríkur Guðmundsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Í 1983, nýjustu skáldsögu Eiríks Guðmundssonar, segir af 12 ára dreng, sem þó gæti allt eins verið 112 ára, sem býr í litlu þorpi milli hárra fjalla og reynir að kortleggja heiminn og lífið: „Ég er 12 ára gamall og lífið er strax orðið mér ofviða“ (32). Hann er nafnlaus, sögumaðurinn okkar, þótt „það væri einfaldlega þannig að hvorki hér né annars staðar kæmust menn langt án nafns, þeir gætu ekki einu sinni dáið“ (68). Í upphafsorðum verksins segir sögumaður að hann hafi „snúið aftur til að sækja það sem hann gleymdi fyrir mörgum árum“ (8). Hann keyrir um á litlum bílaleigubíl, tiltekur nákvæmlega tegund, árgerð og kílómetrafjölda, „þá hef ég fært ykkur inn í veruleikann, síðan mun ég taka hann frá ykkur“ (8). Verkið er þannig á barmi draums og veruleika, fortíðar og samtíðar, skáldskapar og minninga. Við erum hér í heimi Tvists, vinar drengsins úr þorpinu, þar sem enginn greinarmunur er gerður „á staðreyndum og furðum“ (133).

Árið er 1983 og lesandinn er minntur á það með ýmiss konar vísunum í bókmenntir, dægurmenningu, útvarpsdagskrá, verslanir, bíóhús og sérkennileg fyrirbæri eins og heimilissýninguna í Laugardalshöll. En fyrst og fremst er 1983 ákveðin tónlist, þessi bók hefur hljóðrás og manni finnst það ætti að fylgja með henni spóla með tónlistinni, já spóla, geisladiskar og youtube er alltof nútímaleg tækni fyrir þessa bók. Árið sem verður fyrir valinu segir hann vera „dularfulla árið í lífi mínu“ (26). „Kannski stendur það enn yfir því þetta var árið sem ég uppgötvaði hverfulleikann og maður gleymir honum ekki svo auðveldlega“ (26). Sögumaður kortleggur þorp, verkið kortleggur millet-úlpu kynslóðina eða að minnsta kosti einn anga hennar í norðrinu.

Þorpið er á milli hárra fjalla á hjara veraldar, í „680 kílómetra fjarlægð frá bíóhúsinu Broadway, 684 kílómetra fjarlægð frá Laugardalshöllinni“ (53). „En ég segi fyrir mína parta og fer ekki leynt með það, mér er sama hvort þetta er hjari veraldar eða hér um bil ekki neitt eða allra síðasti básinn á heimilissýningunni í Laugardalshöll árið 1983, í mínum huga er þetta og verður efsti reiturinn á slönguspilinu“ (24). Hér er hjartað, hér er kjarninn, sem næstum því hefur gleymst, en sögumaður vitjar til þess að reyna að fanga, ná utan um, jafnvel til að leiða 12 ára dreng sem er einungis „illa skilgreind lambhúshetta á ferð“ (184).

Okkar maður gerist ‚ritari‘ Tvists vinar síns sem er heltekinn af sögu lofbelgja og lendir þá í því sem Sigurður Pálsson lýsir Bernskubók (2011) þegar hann ungur uppgötvaði að hlutskipti skrásetjarans er óviðráðanlegt:

En með því að skrásetja er alltaf að einhverju leyti verið að frysta rás tímans, það er álíka vonlaust og stífla rennandi vatn. Það heldur áfram að renna, safnast upp og ryður stíflunni úr vegi. Þessi piltur sem ég var, hann gat ekki lengur lifað lífinu vegna þess að hann var að skrifa lífið, reyna að ná utan um framvindu atburða, lítilla og stórra atvika. (Bernskubók, bls. 208)

Tvistur segir þetta snúast um baráttuna við gleymskuna (85), og það sama mætti segja um skáldsöguna sem við höfum í höndunum. Skrásetjari og kortleggjari (því hann vinnur líka að miklu korti af bænum) hefur vald yfir heiminum, hann getur strokað út það sem honum ekki líkar, látið snjókorn falla, fjarlægt fjöll og fólk. Það þarf að einhvern veginn að festa lífið niður áður en það svífur burt með loftbelg og sögumaður hefur fundið leið til þess í skrifunum: „Ég hef áttað mig á því að það að lifa er að færa lífið til bókar“ (96), en sér þó fyrir sér sömu vandræði og Sigurður, skrásetjarahlutverkið „dæmir mann sjálfkrafa úr leik, maður er einfaldlega of upptekinn, má ekki vera að því að lifa. Um leið og einhver réttir þér skriffæri og biður þig um að færa eitthvað til bókar, ertu svo gott sem búinn að vera. Þú gleymir sjálfum þér og átt heima í bilinu milli þess sem er sagt og þess sem er ósagt“ (133–134). Paul Auster hefur sagt að til þess að skrifa þurfi maður að gleyma sjálfum sér, einungis þannig geti maður lifað lífinu þannig að ekkert tapist (The Invention of Solitude, 138). Gleymskan hefur því mótsagnakenndu hlutverki að gegna í varðveislu á fortíð; minni, frásögn og gleymska er flétta sem vonlaust er að leysa upp í frumþræði sína. Sögumaðurinn þarf líka að ná tökum á formi, hann reynir sig við knappa formið fræga og gerir tilraun til að fanga efni verksins í það form (183, 249), og er stoltur af, en það virðist þó ekki duga til. Í staðinn höfum við 300 síðna doðrant með frásögnum úr æsku, úr þorpi, af ástum, af sérkennilegu fólki, af döprum lyfsala og skipinu Hafrúnu í sandinum, „40 tonn af gömlum blótsyrðum“, sem renna saman í belg og biðu, fá greinaskil stöðva flæðið, knappa formið eftirsótta er hvergi sjáanlegt. Sögumaðurinn, sem lýsir sér sem meistara þagnarinnar, er óstöðvandi.

Þótt vissulega sé kunnuglegt efni hér á ferð, þ.e. eins konar þroskasaga drengs sem veltir fyrir sér vináttu, ást, kynlífi, skrifum o.s.frv., er sneitt framhjá klisjum og hefðbundnum kennileitum. Einkum er það 12 ára drengurinn sem er óvenjulegur, skilin milli hans og eldri sögumanns sem snýr aftur eru ekki eins skörp og oft er, það er ekkert beinlínis ‚barnalegt‘ við drenginn, heldur er hann strax orðinn gamall, en þó ekki beinlínis fullorðinn. Sálfræðingur segir hann næman með athyglisgáfu, sem skipti þó ekki máli því hann færi hvort sem er bara í fisk, en drengurinn losar sig undan „spennitreyju greiningarinnar“ (197) með því að fara upp í fjall, þar á ytri mörkum þorpsins er raunveruleikinn. Hann neitar að taka á sig skilgreiningar annarra, neitar að hlusta þegar einhver ætlar að segja honum hvernig lífið verði: „ég vil nota mín eigin orð um mitt eigið líf“ (270). Tónninn í hans eigin orðum er allt að því angurvær, sumir kaflar í ætt við tregaljóð, en þó fullur af húmor og einstaklega skemmtilegum lýsingum á því sem er eiginlega ekki neitt; 12 ára drengur að kortleggja heim, fullan af skuggum, síkjum, stelpum og kanarífuglum.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2013