Beint í efni

Vansæmd

Vansæmd
Höfundur
J. M. Coetzee
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2000
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Disgrace eftir J. M. Coetzee í þýðingu Rúnars Helga.

Suður-Afríski rithöfundurinn J. M. Coetzee, hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2003. Hann fékk Booker verðlaunin fyrir skáldsöguna Disgrace (Vansæmd) árið 1999. 

Vansæmd segir frá miðaldra háskólaprófessor frá Höfðaborg sem leitar athvarfs á búgarði dóttur sinnar eftir að hann hrekst frá störfum vegna sambands við nemanda sinn.

Úr Vansæmd

En góð stúlka, hugsar hann og faðmar hana, en góðar móttökur eftir langa ferð!

Húsið, sem er stórt, dimmt og svalt, meira að segja um miðjan dag, var byggt á tímum stórra fjölskyldna, þegar fulla bíla af gestum bar að garði. Lucy flutti inn fyrir sex árum sem þátttakandi í samyrkjubúi, hópi ungs fólks sem seldi leðurvarning og sólbakaða leirmuni í Grahamstown og ræktaði daggarplöntur milli maísraða. Þegar samyrkjubúið leystist upp og obbinn af liðinu flutti til New Bethesda, varð Lucy eftir á landareigninni litlu ásamt Helen vinkonu sinni. Hún féll fyrir staðnum, sagði hún; hún vildi stunda þar alvörubúskap. Hann hjálpaði henni að kaupa landareignina. Nú er hún hér, í blómakjól, berfætt og allt hvaðeina, í húsi sem angar af bakkelsi, ekki lengur barn í bændaleik heldur sönn sveitakona, boervroui.

Ég set þig í herbergið hennar Helenar, segir hún. Þar færðu morgunsólina. Þú getur ekki ímyndað þér hvað það hefur verið kalt á morgnana í vetur.

Hvernig líður Helen? spyr hann. Helen er stórskorin kona með hryggðarsvip, djúpa rödd og slæma húð, eldri en Lucy. Hann hefur aldrei skilið hvað Lucy sér við hana; með sjálfum sér óskar hann þess að Lucy finni sér einhverja betri, eða að sú finni hana.

Helen hefur verið í Jóhannesarborg síðan í apríl. Ég hef verið ein, fyrir utan hlaupastrákana.

Þú sagðir mér það ekki. Ertu ekki öryggislaus svona alein?

Lucy yppir öxlum. Ég hef hundana. Hundar hafa enn sitt að segja. Þeim mun fleiri hundar, þeim mun meira öryggi. Það er hvort sem er ekkert víst að tveir væru betri en einn ef brotist yrði inn.

Mjög heimspekileg afstaða það.

Já. Þegar allt annað bregst kemur heimspekin að góðu haldi.

En þú ert með vopn.

Ég er með riffil. Ég skal sýna þér hann. Ég keypti hann af nágranna. Ég hef aldrei notað hann en hef hann hjá mér.

Gott. Vopnaður heimspekingur. Það líst mér vel á.

Hundar og skotvopn, brauð í ofninum og uppskera í vændum. Merkilegt að hann og móðir hennar, borgarbúar, menntafólk, skuli hafa getið af sér þessa afturhvarfsveru, þessa þróttmiklu ungu landnámskonu. En kannski gátu þau hana ekki af sér, kannski átti sagan meiri þátt í því.

(s. 58-59)

Fleira eftir sama höfund

Barndómur

Lesa meira