Beint í efni

Uppvöxtur Litla trés

Uppvöxtur Litla trés
Höfundur
Forrest Carter
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

The Education of Little Tree eftir Forrest Carter, í þýðingu Gyrðis Elíasonar. Eftirmáli eftir Gyrði Elíasson.

Litla tré er kynblendingur af ættum Séróka-indíána sem leitar skjóls í fjallakofa afa síns og ömmu þegar hann stendur uppi munaðarlaus, fimm ára gamall, við upphaf heimskreppunnar miklu. Þar kynnist hann siðum og menningararfi indíána og lærir að horfa á heiminn með augum þeirra.

Sagan um Litla tré er öðrum þræði æskusaga sem geislar af kátínu og lífslöngun þess sem nemur tilveruna með skilningarvitum barnsins. En jafnframt er hún saga heillar þjóðar, lituð trega og dapurleika fólks sem sá menningu sína fótum troðna af valdsherrum hvíta kynstofnsins og átti sér þann eilífa draum allra þjáðra manna að mega sameinast aftur í landi fyrirheitanna.

Úr Uppvexti Litla trés

Meðan við vorum að borða leit afi á mig og sagði: “Sjáðu til Litla tré, ég varð að láta þig afskiptalausan svo þú gætir lært af þessu. Ef ég hefði nú meinað þér að kaupa kálfinn, hefðirðu alltaf verið að hugsa um að þú hefðir átt að eignast hann. Ef ég hefði hvatt þig til að kaupa hann, þá hefðirðu ásakað mig fyrir dauða kálfsins. Maður verður að læra af reynslunni.”
“Já afi,” sagði ég.
“Jæja,” sagði afi, “og hvað lærðirðu þá?”
“Ja, ég hef lært að maður á ekki að versla við kristið fólk,” sagði ég.
(s. 90-91)

Afi sagði að indíánar réttu fram lófa til að undirstrika “frið”, að þeir hefðu engin vopn. Þetta þótti afa skynsamlegt, en öllum öðrum þótti þetta mjög fáránlegt. Afi sagði að hvíti maðurinn meinti það sama með handabandi sínu, nema hann væri svo slunginn að hann reyndi að hrista vopn fram úr ermi náungans sem segðist vera vinur. Afi var ekki mikið fyrir að taka í hendur á fólki, þar sem hann sagði að sér líkaði illa að menn reyndu að hrista eitthvað fram úr ermi hans eftir að hann hefði kynnt sig vinsamlega. Þetta væri fullkomið vantraust á orðheldni manna. Og það má til sanns vegar færa.

(s. 126-127) 

Fleira eftir sama höfund