Beint í efni

Ungfrú fótbolti

Ungfrú fótbolti
Höfundur
Brynhildur Þórarinsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Unglingabækur

Um bókina

Vinkonurnar Gerða og Ninna eru alveg fótboltaóðar. Götuboltaliðið æfir þrotlaust og stelpurnar eru stórhuga, þær vilja keppa á alvöru velli eins og strákarnir. En þá þarf að taka slaginn við samfélag sem hefur mjög skýrar hugmyndir um hvað 13 ára stelpur mega gera. 

Ungfrú fótbolti er baráttusaga sem gerist innan um hálfbyggðu húsin í Breiðholtinu 1980, sumarið sem Vigdís Finnbogadóttir skoraði hefðirnar á hólm og bauð sig fram til forseta.

Úr bókinni

Annar fjársjóður kom í ljós þegar við gengum út á handriðslausu svalirnar. Fyrir neðan þær var risastór sandhrúga. Í jaðri hrúgunnar stóð gapandi steypuhrærivél en nokkrir sementspokar kúrðu undir plastsæng við hlið hennar. Það var greinilega steypuvinna fram undan, en líka heimsins rosalegasta langstökkskeppni. Guffi pantaði að vera fyrstur, hann bakkaði inn í stofu, tók langt tilhlaup og hljóp æpandi fram af svölunum og ofan í sandhrúguna. "Þetta var rosalegt!" hrópaði hann og renndi sér niður úr sandinum. Síðan stukkum við hvert á fætur öðru og hlupum hlæjandi aftur inn í húsið svo að sandurinn barst um öll gólf. Svona æddum við hring eftir hring þar til Óli sló Íslandsmet og rúllaði á steypuhrærivélina sem tók harkalega á móti honum með háum dynki.
  "Ó, nei! Er í lagi með þig?" kallaði Sibba niður til hans, dauðskelkuð. Eins og alltaf átti hún að bera ábyrgð á bræðrum sínum.
  "Bara kúla," kallaði Óli vankaður og brölti á fætur. Við skellihlógum af létti þar til Óli sneri sér við og við sáum að það fossblæddi úr enninu á honum. Sibba saup hveljur. "Það þarf að stoppa blæðinguna strax," sagði hún ákveðin og það leyndi sér ekki að hún hafði áralanga reynslu af slösuðum bræðrum. "Gáið hvort þið finnið eitthvað sem við getum bundið um hausinn á honum," skipaði hún okkur Ninnu um leið og hún stökk niður til Óla sem hallaði höfðinu aftur og bisaði við að stoppa blæðinguna, með þeim afleiðingum að blóðið endaði allt í ljósu hárinu á honum.
  Sibba dró bleikhærðan bróður sinn inn í húsið og þau Guffi stumruðu yfir honum meðan við Ninna æddum um í leit að sárabindi. Við hlupum um stofuna og eldhúsið en þar var ekkert nema smíðadót, ég greip upp málningarlímband og sýndi Ninnu en hún hristi höfuðið og í fáti stakk ég því undir buxnastrenginn. Við hlupum inn ganginn, það angraði mig að húsið var næstum tilbúið því hurðirnar töfðu okkur og ég ímyndaði mér í örvæntingu að Óla væri að blæða út. Við opnuðum herbergin hvert á eftir öðru, þau virtust vera hundrað, en fundum ekkert gagnlegt. Fyrr en við opnuðum síðustu dyrnar á ganginum. Nokkrar málningadósir stóðu á plasti úti á miðju gólfi og umhverfis þær voru alls kyns tuskur sem virtust geta orðið prýðileg sárabindi. "Sjáðu, við getum notað þessar," sagði ég himinlifandi og vísaði Ninnu á tuskurnar en hún stóð eins og frosin. Ég potaði í hana og þá hrökk hún úr leiðslunni og benti á vegginn fyrir aftan mig. Hann var pastelgrænn.
  Við vissum að við værum búnar að leysa ráðgátuna um boltahvarfið.

(24-25)

 

Fleira eftir sama höfund

Óskabarn : bókin um Jón Sigurðsson

Lesa meira

Blávatnsormurinn

Lesa meira

Áfram Óli

Lesa meira

The Saga of Njáll

Lesa meira

Af Artúri konungi, Gunnari á Hlíðarenda og Fróða Bagga: Fornsagnamatreiðsla fyrir börn

Lesa meira

Allt í lagi Reykjavík

Lesa meira

Af lopakörlum og prjónakerlingum

Lesa meira

Byrgir söguþekkingin sýn? Sýning á bronsstyttum þriðja ríkisins

Lesa meira