Beint í efni

Túlkur tregans

Túlkur tregans
Höfundur
Jhumpa Lahiri
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2001
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Interpreter of Maladies eftir Jhumpa Lahiri í þýðingu Rúnars Helga.

Smásagnasafn sem jafnframt er fyrsta verk höfundar sem er af indversku bergi brotin. Bókin hlaut Pulitzerverðlaunin árið 2000.

Úr Túlki tregans

Sexí (brot)

Þetta var það alversta sem eiginkonu gat hent. Eftir níu ára hjónaband, sagði Laxmi við Miröndu, var eiginmaður frænku hennar orðinn ástfanginn af annarri konu. Hann sat við hlið hennar í flugvél á leiðinni frá Delhí til Montreal og í stað þess að fljúga heim til eiginkonu og sonar fór hann úr með konunni á Heathrow. Hann hringdi í konuna sína og sagðist hafa átt samtal sem hefði breytt lífi sínu og þyrfti nú ráðrúm til að átta sig. Frænkan lagðist í rúmið.

Ég lái henni svo sem ekki, sagði Laxmi. Hún seildist eftir flögunum sem hún maulaði alla daga og Miröndu fannst líta út eins og rykugt morgunkorn með appelsínubragði. Hugsaðu þér. Ensk stúlka, helmingi yngri en hann. Laxmi var aðeins nokkrum árum eldri en Miranda en var harðgift og innan á básinn hjá sér, sem var næstur bás Miröndu, hafði hún fest ljósmynd af sér og manninum sínum þar sem þau sátu á hvítum steinbekk fyrir framan Taj Mahal. Laxmi hafði verið í símanum í að minnsta kosti klukkustund og reynt að róa frænku sína. Það varð þess enginn var; þær unnu fyrir útvarpsstöð, í fjáröflunardeildinni, og voru umkringdar fólki sem var í símanum alla daga, að safna framlögum.

Ég finn mest til með drengnum, bætti Laxmi við. Hann hefur verið heima í marga daga. Frænka sagðist ekki einu sinni geta farið með hann í skólann.

Þetta er hræðilegt, sagði Miranda. Vanalega trufluðu símtöl Laxmi - aðallega við eiginmann sinn, um hvað ætti að hafa í matinn - Miröndu við að vélrita bréf þar sem hún fór þess á leit við styrktarfélaga útvarpsstöðvarinnar að þeir ykju árlegt framlag sitt í skiptum fyrir innkaupatösku eða regnhlíf. Í gegnum plasthúðaðan vegginn milli skrifborða þeirra heyrði hún skýrt og greinilega í Laxmi, setningarnar kryddaðar stöku indversku orði. En þennan dag var Miranda ekki að hlusta. Hún var í símanum sjálf, að tala við Dev og ákveða hvar þau ættu að hittast um kvöldið.

(s. 90 - 91)

Fleira eftir sama höfund