Beint í efni

Þorsti

Þorsti
Höfundur
Esther Gerritsen
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Hollenska skáldsagan Dorst eftir Esther Gerritsen í íslenskri þýðingu Rögnu Sigurðardóttur.

Mæðgurnar Coco og Elisabeth hittast sjaldan en þegar þær einn góðan veðurdag rekast hvor á aðra segir Elisabeth dóttur sinni að hún eigi ekki langt eftir ólifað. Coco finnur til ábyrgðar og flytur inn til hennar. Elisabeth umber nærveru dótturinnar, hún veit að þess er vænst af henni sem móður að hún sýni skilning og þolinmæði.

Úr Þorsta

Hún hitti hann á almenningsþvottahúsinu fyrir einu ári síðan. Maður á miðjum aldri sem kunni ekki á þvottavél. Hún var að enda við að setja þvottinn sinn í vél og velti fyrir sér hvort hún ætti að fara aftur í rúmið eða fá sér kaffi einhvers staðar. Hana grunaði að hún væri enn drukkin frá því kvöldið áður og að höfuðverkurinn kæmi seinna. Þá kom hann inn. Hún sat enn á hækjum sér fyrir framan þvottavélina. Hann var í dýrum, síðum, mjúkum ullarfrakka. Hann stóð kyrr fyrir framan vélina við hliðina á hennar. Undir öðrum handleggnum hafði hann bók o g dagblað, undir hinum stóra helgartösku úr leðri fulla af þvotti. Hann beygði sig niður, mjúki frakkinn náði niður á flísarnar. Hann opnaði vélina og setti dökka og ljósa þvottinn inn. Hann var með nýrakaðan háls, enn svolítið rauðan, nýbúinn að vera hjá rakara. Hann starði á vélina, hún starði á hann. Hún velti fyrir sér hvort hann ætti píanó.

Hann andvarpaði og hana langaði að segja: láttu mig fá þvottinn, strákur, láttu mig sjá um þeta. Eins og hún vissi að svona hjálparvana myndi hún aldrei sjá hann aftur, að það yrði að gerast núna, annars myndi maðurinn hverfa strax aftur úr lífi hennar, með mjúka frakkann, nýrakaða hálsinn og píanóið.

Hún ávarpaði hann mjög lágt. Þannig að enginn myndi heyra að hún væri að hjálpa honum.

„Þú verður að taka hvíta þvottinn aftur út. Annars litast hann.“

Hann leit á hana, en gerði ekkert. Hún hugsaði með sér að það væri of nærgöngult að handfjalla þvottinn hans, en gerði það samt. Hún tók tvö hvít handklæði og hvítan stuttermabol úr vélinni.

„Eitthvað meira?“

Hann hristi höfuðið hægt.

„Þú velur mislitann þvott á fjörutíu. Hérna. Fjörutíu er alltaf í lagi. Eða er nokkuð úr ull þarna?“ Hann hristi aftur höfuðið neitandi. „Ertu með þvottaduft með þér? Eða ætlarðu að nota það sem er hérna?“

„Hérna?“

„Það er lélegt.“ Hún tók pakkann með þvottaduftinu úr töskunni sinni. „Notaðu það sem ég er með. Tvær skeiðar. Í skúffuna þarna. Hægra megin, þessi til vinstri er forþvotturinn.“

Hann tók ekki við pakkanum, svo hún setti duft í skúffuna. Hún setti líka mýkingarefnið sitt. Hann horfði á hana á meðan.

Í stað þess að þakka henni fyrir sagði hann: „Þetta er vel gert hjá þér, hvernig þú hjálpar mér, þú hefur hæfileika á þessu sviði, þú ættir að nýta þér þá.“

Tilraun hans til þess að snúa hlutverkum þeirra við svona fljótt snerti hana. Hann varð ennþá meira hjálparvana: maður sem ekki gat þegið hjálp.

(17-9)

 

Fleira eftir sama höfund