Beint í efni

Þetta rauða, það er ástin

Þetta rauða, það er ástin
Höfundur
Ragna Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Elsu langar að mála og að því stefnir hún af miklum metnaði þótt fyrirmyndirnar séu fáar um miðja 20. öld. Hún stundar framhaldsnám í París þar sem hana dreymir um að komast í einkatíma hjá frægasta kennara borgarinnar og sýna verk sín í flottustu galleríunum. En það krefst fórna. Þetta rauða, það er ástin er skáldsaga um unga konu sem berst fyrir því að láta drauma sína rætast en ber eftir það sár sem hún getur ekki nefnt við nokkurn mann. 

Úr bókinni

Granier kom í skólann til okkar í fyrsta sinn í byrjun september. Venjulega var salurinn eins og fuglabjarg á mörgum tungumálum en þennan morgun hafði frést leifturhratt að hann væri væntanlegur og nú heyrðist bara eftirvæntingarfullt þrusk og skrjáf. Við vorum önnum kafin við að koma okkur fyrir og festa pappír á spjöldin. Þetta var föstudagur og módelið hafði verið í sömu stöðu alla vikuna. Ég var með nýja teikningu á trönunum. Ég gerði alltaf fleiri en eina mynd í hverri viku, byrjaði í skólanum og hélt svo áfram heima. 
   Kjartan hnippti í mig. Ég leit á hann og hann hnykkti til höfðinu í áttina að dyrunum. Þar var þá karlinn mættur. Ég hafði séð myndir af honum í dagblaði. Hann var kominn yfir miðjan aldur, hálfsköllóttur og með gleraugu í dökkum umgjörðum, snyrtilega klæddur og með pípu í hendi. Ég starði á hann. Það rann upp fyrir mér að ég var eina konan í salnum sem klæddist buxum og ég fékk allt í einu efasemdir. Var það kannski of framúrstefnulegt? Ég vildi vera sjálfstæð en ég vildi líka að Granier litist vel á mig. 
   Granier stóð á hljóðskrafi við prófessorinn okkar. Ég velti fyrir mér hvort einstaka nemendur bæri á góma. Hann hafði hrósað mér eins og allir aðrir kennarar á undan honum. Ég var örugg með mig og vongóð. 
   Módelið var í sitjandi stöðu, hallaði sér aftur á bak og lagði olnbogann á stólbrík. Þetta var góð stelling sem sýndi bæði þunga og mýkt og ég hafði gott sjónarhorn. Kjartan var í kolateikningu en ég notaði blýant. Ég gjóaði augunum á Granier við og við en einbeitti mér líka að teikningunni. Út undan mér sá ég hann ganga inn í salinn. Stundarkorn heyrðist ekkert nema fótatak hans á trégólfinu, riss í blýöntum og strokur í teiknikolum. Ég sá Mörtu strjúka aftur og aftur niður eftir pilsinu sínu eins og hún væri sveitt í lófunum. Hún var alltaf í þessu sama pilsi, líklega átti hún bara eitt. Firas sagði ekki orð. Philippe tók blaðið af spjaldinu á trönunum og setti nýtt. 
   Ég horfði á módelið og hugsaði í hlutföllum, formum, skuggum og línum. Öðru hverju heyrði ég Granier nema staðar og segja eitthvað í lágum hljóðum. Hann stoppaði hjá Firasi og einum af Ameríkönunum og stóð stundarkorn hjá ítölsku stelpunum, þau hlógu að einhverju. Fótatakið nálgaðist og fjarlægðist á víxl og pípulyktina lagði um salinn. Allan tímann átti ég von á því að Granier kæmi til okkar Kjartans en hann kom ekki nálægt okkur. Loks sá ég hann aftur á tali við prófessorinn í dyragættinni. Þeir ræddu saman í lágum hljóðum nokkra stund og síðan sneri Granier baki í hópinn og gekk út. 
   Ég leit vonsvikin á Kjartan og hann brosti til mín. 
   „Hann kemur bara næst,” sagði hann og hélt hinn rólegasti áfram að teikna. En ég var í uppnámi. Ég steig til baka og horfði á teikninguna mína, mér fannst hún stirðleg og ég dæsti. Ég þurfti ekki að sjá framan í Kjartan til að vita að hann kímdi. 
   „Ég er ekki viss um hvernig mér líst á Granier. Mér fannst hann ekkert horfa í kringum sig og finnst hann dónalegur að kynna sig ekki,” sagði ég. 
   „Já, hann var svolítið stífur í hnakkanum,” sagði Kjartan. 
   „Sperrirófuháttur,” svaraði ég. 
   Kjartan hóaði í Philippe. 
   „Var þetta ekki örugglega Marc Granier?” spurði hann. 
   Philippe kinkaði ákaft kolli. 

(bls 36-37) 

Fleira eftir sama höfund

Bónusstelpan

Lesa meira

Lauch oder Aprikose

Lesa meira

Daði : Ódysseifur

Lesa meira

Stefnumót

Lesa meira

27 Rooms

Lesa meira

Vetrargulrætur

Lesa meira

Vinkonur

Lesa meira

The perfect landscape

Lesa meira