Beint í efni

Svínshöfuð

Svínshöfuð
Höfundur
Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Af hverju fær eldri maður frá Breiðafirði viðurnefnið Svínshöfuð?

Kínversk mæðgin koma til Íslands um miðjan tíunda áratuginn. Nýja fjölskyldan á sér gamlar sorgir, sársaukinn liggur kynslóða á milli. Eins og strengur. Sagan fléttast frá upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar með viðkomu á lítilli, breiðfirskri eyju, suðurhluta Kína. Og útverfi Kópavogs.

 

Úr Bókinni

Það voru fáir á ferli í flugstöðinni. Örfáir útlendingar í gönguskóm. Loksins opnuðust dyrnar og fólk fór að streyma út um komuhliðið. Eftir nokkrar mínútur sá hann þau. Mary og strákinn. Þau voru einu Asíubúarnir svo hann þekkti þau strax. Föl og dálítið úfin, með eina íþróttatösku með sér, það var allt og sumt. Mary leiddi strákinn sem leit út fyrir að hafa grátið. Þegar Svínshöfuð sá þau veifaði hann hækjunni og haltraði til þeirra eins hratt og hann gat. Hann reyndi að kyssa Mary á munninn en hún hörfaði undan, vandræðaleg, svo kossinn endaði á eyranu. Svínshöfuð tók töskuna fyrir þau og vísaði þeim veginn út í bil. Mæðginin gripu andann á lofti þegar þau komu út í kalt loftið og hráslagalegt landslagði. Þau voru í þunnum jökkum sem þau vöfðu þéttar að sér. Hann yrði að byrja á að útvega þeim almennilegan útifatnað. Ullarpeysu og úlpu. Kannski kuldagalla á krakkann.

Mary skellti bílhurðinni á blómvöndinn og afhöfðaði þannig rósirnar. Hún æpti upp yfir sig og reyndi að afsaka sig og tína tætta blómhnappana upp af rykugri mölinni en Svinshöfuð bað hana að hafa ekki áhyggjur. Hún snerti ekki konfektkassann.

Það var farið að hausta og kvöldið framundan var dimmt og langt. Svínshöfuð gat ekki hætt að stara á þessa litlu, alvarlegu konu í farþegasætinu við hlið hans. Hún var líklega engin klassísk fegurðardís, nefið á henni var frekar stórt og það skein í hvítt tannhold þegar hún brosti. Hún var með axlasítt hár sem hún skipti í miðju og freknur um allt andlit, sem höfðu ekki sést á myndinni. Hann vissi ekki einu sinni að þetta fólk fengi freknur.

(s. 82-83)

 

 

Fleira eftir sama höfund

allt sem rennur

Allt sem rennur

á hverju ári sendir hún / fyrrverandi eiginmanni sínum skilaboð / ég lifi
Lesa meira

Daloon dagar

Lesa meira

Flórída

Lesa meira