Beint í efni

Sumardansinn

Sumardansinn
Höfundur
Per Olof Ekström
Útgefandi
Draupnisútgáfan
Staður
Reykjavík
Ár
1953
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Sommardansen eftir Per Olof Ekström í þýðingu Einars Braga.

Úr Sumardansinum

Daginn fyrir jónsmessu var aprílveður: stundum kalsaregn, þess á milli sólskin, og gráðug moldin saug til sín vætuna. Þungir gráskýjaflotar sigldu um loftið frá vestri til austurs, og þegar sólin skein á þá, urðu þeir hvítir sem snjór. Rúgurinn bylgjaðist á ekrunum eins og grænir silkidúkar eða haföldur, og í snörpustu vindsveipunum svignuðu silfuraspirnar heima við bæ Jósía Heldens og sneru hvítu borði út. Þegar Göran kom að stóra steininum, var Kristín ókomin, og hann fékk sér að reykja meðan hann beið. Loftið var rakt hér í skugganum, og sætan ilm lagði af hávöxnu elggrasinu við lækjarfarveginn.

Ætlarðu ekki að koma, Kristín?

Tíminn leið - fimm mínútur yfir, tíu, fimmtán. ... Hann gekk fram og aftur, en fór aldrei svo langt frá að hann missti steininn úr augsýn.

Hann sá ekki hvaðan hún kom, en allt í einu stóð hún hjá steininum kyrr og virðuleg, bros kviknaði í augunum og færðist hægt yfir allt andlitið, munnurinn var opinn og skein í hvítar tennurnar. Hún var klædd ísaumuðum rauðum kjól, sem náði niður á mjóalegg, og hafði jasmínukvist í hárinu.

- Halló-ó! Kvöldinu er borgið! Ég var orðinn dauðhræddur um að þú ætlaðir ekki að koma!

Þau stóðu þögul og horfðu hvert á annað.

Allt í einu small hátt í grein sem brotnaði, og þau litu til hliðar. Það grillti í karlmann milli runnanna, álútan og óhrjálegan; hann hökti í áttina heim að draugalegum bæ Heldens.

- Kannski Botni Vefari með asnahöfuðið! sagði hún. Nei, ég veit svo sem hver það er. Það er sonur Heldens, bætti hún við í fyrirlitningartón.

(s. 97)

Fleira eftir sama höfund