Beint í efni

Strengir

Strengir
Höfundur
Ragna Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2000
Flokkur
Skáldsögur

Einnig gefin út í kilju 2001.

Úr Strengjum:

Reykjavík, haustið 1990

Bogi og María eru hátíðleg þegar þau fara að skoða íbúðina. Leiðast tröppurnar þrjár niður að innganginum. Þegar inn er komið er fatahengi á vinstri hönd og baðherbergi á þá hægri. Næsta hurð til hægri er inn í eldhúsið og beint á móti opið inn í stofu, inn af henni er opið inn í annað herbergi sem verður svefnherbergið. Á gólfum eru gömul teppi, þykk með blómamynstri, illa lyktandi. Öll herbergi þarf að mála, allt þarfnast rösklegra þrifa.
 Þau kyssast á ganginum.
  „Fyrsta heimilið okkar!“ segir María og roðnar af gleði.
 Þau verða feimin hvort við annað þegar þau neyðast til að ræða jarðbundna hluti eins og ráðstöfunarfé og handlagni.  Vandræðaleg í hjónahlutverkinu eftir að hafa verið elskendur og börn.
 Þau fara saman á bílnum hennar Ingunnar og kaupa málningu, rúllur, pensla, gólfdúk og allt sem þarf til hreingerninga. Roðna yfir tuskum og hreinsilegi, stama vandræðaleg upp úr sér fermetrafjölda og ástandi gólfa.
 Viku síðar standa þau inni í stofunni sinni og skála í kampavíni. Allir veggir og loft eru nýmáluð, hurðirnar nýlakkaðar, nýr dúkur á gólfinu. Íbúðin er lítil, en falleg. Gluggarnir ná niður á miðjan stofuvegginn, í gluggakistunni er kveikt á langri röð af sprittkertum. Það eru engin gluggatjöld en skafl byrgir sýn út og inn.
 „Svo giftum við okkur!“ segir Bogi og þau skála og María tárast af gleði, flýr inn á bað svo hann sjái ekki hvað hún er djúpt snortin. Hún hágrætur af tómri hamingu innan um pensla og rúllur, málningardósir og samanvöðlað hlífðarplast. Það hvarflar ekki að henni að hann minnist aldrei á það aftur.
 Þau búa um sig eins og í hreiðri.
 Maríu dreymir drauma um stórbrotið landslag, hún svífur átakalaust yfir fjöll og firnindi, ókunnar plánetur eru á himni, tvær sólir á lofti. Hún gengur í gróskumiklum aldingörðum. Hana dreymir streymandi vatn og hún baðar sig í djúpu, svölu, tæru hafi. Hún nýtur drauma sinna eins og hún nýtur daganna.
 Það er eins og lífið hafi alltaf verið svona, María og Bogi saman, eins og allt það sem áður var tilheyri öðru lífi og hér eftir geti ekki tekið við neitt annað en þau tvö saman, hönd í hönd, um alla eilífð.

(s. 33-34)

Fleira eftir sama höfund

Bónusstelpan

Lesa meira

Lauch oder Aprikose

Lesa meira

Daði : Ódysseifur

Lesa meira

Stefnumót

Lesa meira

27 Rooms

Lesa meira

Vetrargulrætur

Lesa meira

Vinkonur

Lesa meira

The perfect landscape

Lesa meira