Beint í efni

Skipafréttir

Skipafréttir
Höfundar
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur

The Shipping News á íslensku. Höfundur er Annie Proulx.

um bókina

Quoyle er þriðja flokks blaðamaður frá New York. Hann hefur hvorki þegið hæfileika né heppni í vöggugjöf og er auk þess ófríður með afbrigðum. Þegar kona hans ferst sviplega í bílslysi er hann frjáls undan oki og heldur norður á bóginn með föðursystur sinni og dætrum - Bunny og Sunshine - burt frá beiskum minningum. Þau stefna á ystu strendur Nýfundnalands, þangað sem þau eiga rætur að rekja og setjast að í húsi forfeðranna. Þá lýkst upp nýr og magnaður heimur fyrir litlu fjölskyldunni og í nábýli við náttúruöflin vaknar Quoyle smám saman til lífsins.

úr bókinni

Hér segir frá fáeinum árum í lífi Quoyles sem fæddist í Brooklyn í New York og ólst upp í nokkrum dauflegum bæjum í fylkinu.
   Alstirndur af útbrotum og með þarmana drynjandi af vindgangi og magaverkjum lifði hann þó bernskuna af. Í fylkisháskólanum lagði hann hönd yfir hökuna og duldi þjáninguna með brosum og þögn. Skjögraði yfir þrítugsaldurinn og lærði að greina tilfinningar sínar frá því sem hann upplifði og að vænta aldrei neins. Hann borðaði óhemjulega, var hrifinn af svínaskönkum og smjörsteiktum kartöflum.
   Störfin: Sá um dreifingu á sælgæti í sjálfsala, var búðarloka á næturvöktum og þriðja flokks blaðamaður. Þegar Quoyle stóð uppi allslaus, þrjátíu og sex ára, barmafullur af harmi og ást sem sífellt var hafnað, tók hann strikið og stefndi til Nýfundnalands, skersins sem hafði getið af sér forfeður hans, þangað sem hann hafði aldrei komið né ætlað sér.
   Vatnsósa staður. Og Quoyle var bæði vatnshræddur og ósyndur. Aftur og aftur hafði faðir hans þvingað sundur greipar hans og kastað honum út í sundlaugar, ár, vötn og sjávaröldur. Quoyle gjörþekkti bragðið af saltvatni og vatnagróðri.
   Eftir að hafa horft upp á vangetu yngsta sonarins til að halda sér á floti sá faðirinn brestum hans fjölga af sama sprengikrafti og illskeyttum frumum í æxli. Hann gat ekki talað skýrt og greinilega, ekki setið uppréttur, komst ekki á lappir á morgnana, skorti allt í senn, heilbrigða lífssýn, metnað og hæfileika. Í stuttu máli blöstu tómir brestir við pabbanum. Brestir hans sjálfs.
   Quoyle drattaðist áfram, höfðinu hærri en önnur börn, en lingerður. Hann vissi það. „Drumburinn þinn,“ sagði pabbinn. En var sjálfur enginn stubbur. Og bróðirinn Dick, uppáhald pabbans, þóttist þurfa að kasta upp þegar Quoyle birtist í dyrunum. Hann hvæsti á hann, „fituhlunkur, hornefur, ógeð, vörtusvín, fáviti, prumpufýla, fýlubomba, fílapensill,“ lamdi og sparkaði þangað til að Quoyle lá snöktandi í hnipri á gólfinu með hendurnar um höfuðið. Allt átti rót sína að rekja til þess sem Quoyle skorti sárast, eðlilegt útlit.

(1-2)
   

Fleira eftir sama höfund