Beint í efni

Silungsveiði í Ameríku

Silungsveiði í Ameríku
Höfundur
Richard Brautigan
Útgefandi
Hörpuútgáfan
Staður
Akureyri
Ár
1992
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

Trout fishing in America eftir Richard Brautigan, í þýðingu Gyrðis Elíassonar.

Úr Silungsveiði í Ameríku

Silungsveiði í halla

GRAFREITIRNIR TVEIR VORU hvor við annars hlið á tveimur hæðum og á milli þeirra rann Grafaráin, hægstreym einsog líkfylgd á hlýjum sumardegi, og nóg af vænum silungi í henni.
Og þeir dauðu höfðu ekkert á móti því að ég veiddi þarna.
Í öðrum grafreitnum uxu há þinitré og grasinu var haldið grænu í anda Péturs Pan allt árið með því að dæla vatni úr ánni og grafreiturinn var þakinn fínum marmaralegsteinum og styttum og grafhýsum.
Hinn grafreiturinn var fyrir þá fátæku og í honum voru engin tré og grasið lagðist flatt einsog loftlaust bíldekk, brúnt allt sumarið og þannig var það uns regntíminn kom einsog bifvélavirki síðla hausts.
Það voru engir nosturslegir legsteinar hjá þeim fátæku dauðu. Þeirra minnisvarðar voru litlar fjalir sem líktust gömlum brauðendum:

Fórnfús vonlaus faðir

Ástkær dauðþrælkuð móðir

Á sumum gröfunum voru sultukrukkur og blikkdósir með sölnuðum blómum:

Til minningar um
John Talbot,
sem átján ára
gamall fékk
hagladrífu í rassinn á knæpu
þann 1. nóvember
1936
Þessi majónesdolla
með sölnuðum blómum
var skilin hér eftir
fyrir hálfu ári
af systur hans
sem er á hæli núna

Um síðir sæju árstíðirnar fyrir tréskornum nöfnum þeirra einsog syfjulegur kokkur sem brýtur egg yfir grilli á hamborgarastað við hliðina á járnbrautarstöð. Þar sem aftur á móti hinir vel stæðu héldu sínum forréttindanöfnum marmaragreyptum um langa hríð sambærilegir við hestana sem tölta guðlega stigu til himnaríkis.
Ég veiddi í Grafaránni í húminu meðan hrygningartíminn stóð sem hæst og náði nokkrum vænum silungum á land. Aðeins fátækt hinna dauðu þjakaði mig.
Einusinni, meðan ég gerði að silungum áður en ég fór heim í rökkurbyrjun, fékk ég vitrun um að fara yfir í fátækragrafreitinn og tína saman gras og sultukrukkur og blikkdósir og fjalir af leiðunum og sölnuð blóm og maura og illgresi og torfuhnausa - og fara með þetta heim og setja öngul í skrúfstykkið og hnýta flugu með öllu þessu dóti og fara síðan út og kasta henni mót himni og horfa á hana fljóta yfir ský og að lokum inn í kvöldstjörnuna.

(s. 33-35)

Fleira eftir sama höfund

Svo berist ekki burt með vindum

Lesa meira

Vatnsmelónusykur

Lesa meira

Ógæfusama konan: ferðalag

Lesa meira