Beint í efni

Ríki af þessum heimi

Ríki af þessum heimi
Höfundur
Alejo Carpentier
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1983
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

El reino de este mundo eftir Alejo Carpentier í þýðingu Guðbergs.

Hér segir á meistaralegan hátt frá þrælauppreisn á Haítí á átjándu öld.

Úr Ríki af þessum heimi

Allt í einu byrjaði Pálína að ganga um húsið með einkennilegum hætti og forðaðist að stíga á samskeytin á milli gólfflísanna sem voru að sjálfsögðu ferhyrndar, enda vildu hinir guðlausu frímúrarar að svo væri, því þeir sóttu í að fólk træði á krossinum undir fótum sér allan daginn. Nú voru það ekki lengur ilmvötn og hressandi myntuvatn sem Sóliman hellti yfir brjóst hennar, heldur nuddaði hann það upp úr brennivíni, mörðum aldinkjörnum, olíukenndum safa og fuglablóði. Morgun einn sáu frönsku þjónustumeyjarnar sér til skelfingar að negrinn steig einkennilegan dans kringum Pálínu sem kraup á gólfið með slegið hár. Sóliman var í mittislinda einum fata, með hvítan bleðil fyrir kynfærunum, en með skrautlegt blátt og rautt band um hálsinn og hann hoppaði eins og fugl og brá ryðguðu saxi. Bæði emjuðu langdregið líkt og emjið stigi úr djúpi hjartans, ekki óáþekkt spangóli hunds á tunglskinsnóttum. Hálshöggvinn hani flögraði enn eftir maískorni sem hafði verið stráð á gólfið. Negrinn varð æfur þegar hann veitti því athygli að þjónustumey fylgdist með athöfninni og hann spyrnti aftur dyrunum. Um kvöldið höfðu ýmsar helgimyndir verið hengdar í loftsperrurnar og snéru dýrlingarnir höfðinu niður. Sóliman vék nú ekki frá Pálínu og svaf á rauðu gólfteppi í svefnherbergi hennar.

(s. 63)

Fleira eftir sama höfund