Beint í efni

Mæður geimfara

Mæður geimfara
Höfundur
Sigurbjörg Þrastardóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Smásögur

Úr bókinni
 

Mæður geimfara

Það mega heita sorgleg örlög sem fröken Marion Moon, sem hét þessu afgerandi ættarnafni allt þar til hún giftist Edwin E. Aldrin eldri, og er nú kunn sem móðir annars af fyrstu tunglgöngumönnum veraldar, skyldi svipta sig lífi skömmu áður en sonur hennar Buzz tók sporið á tunglinu.
   Ég efast um að það hafi verið vegna yfirvofandi álags sem tengdist tunglgöngunni, þótt sonurinn hafi einhvers staðar haldið slíku fram. Faðir fröken Moon grandaði sér nefnilega líka. Og hið sama gilti um fleiri nána ættingja úr Moon-fjölskyldunni.
   Enginn skilur úr hvaða óradjúpum eða eilífðarmyrkri slík genetísk þyngsli spretta.
   Sumir hafa þó siglt nærri uppsprettunni.

Eftir alla fyrirhöfnina sem það kostaði að senda flaug með lifandi fólki til tunglsins, að ógleymdum nákvæmum útbúnaði til vel heppnaðrar heimkomu, og þrátt fyrir alheimsljómann og frægðarbjarmann sem umlék nafn hans í kjölfarið, er haft eftir Edwin E. Aldrin yngri, sem ávallt er kallaður Buzz - einnig af sínum eigin geðlækni, í óróa ellinnar - að geimurinn sé helvíti einmanalegur staður.

Þrálífi

Á meðan Marilyn Monroe, í kvikmyndinni The Seven Year Itch, slóst við blásturinn frá neðanjarðarlestinni framan við TransLux-bíóið í New York í plíseraða, fílabeinshvíta kokteilkjólnum sem vildi fjúka upp um fagra fótleggina hvernig sem hún sneri sér, slóst jafnaldra hennar í úthverfi Rómaborgar við sinn jafn síða kjól sem fauk með sama hætti upp um fagra fótleggi hennar þegar hún henti sér út um borðstofugluggann. Kjóllinn flaug upp og konan féll niður, þó ekki á þeim hraða sem hún hafði reiknað með, því meðan á stuttum undirbúningi hennar hafði staðið í glugganum náði slökkvilið borgarinnar að koma sér á staðinn - sönn saga! - og sprautaði nú úr vatnsdælu sinni af svo miklum krafti að konan rétt að segja stöðvaðist í loftinu. Í öllu falli dró kraftbunan svo úr fallhraðanum að konan slapp með handleggsbrot og heilahristing, og lifði svo til hárrar elli.
   Af sjálfsmorðstilraun ítölsku húsmóðurinnar í vatnsbaði er til stórkostleg ljósmynd sem ekki hefur orðið jafn víðkunn og myndin af Marilyn Monroe í fílabeinskjólnum yfir göturistinni í New York, þegar hún átti rétt sjö ár eftir ólifuð.
   Má því segja að sú síðarnefnda hafi lifað mun lengur en hin.

Skræfunjólar

Einu sinni var þríhöfða þurs. Höfuðið til hægri froðufelldi, höfuðið til vinstri fnæsti, en hausinn í miðjunni gat ekki gert neitt hræðilegra en að blaka nasavængjunum.
   Fyrir þetta var hausinn hæddur og spottaður meðal íslenskra þursa árhundruðum saman.
   Orðspor hans hefur þó lifað lengst allra, því til hans vísa ýmis íslensk örnefni, svo sem móbergsstaðinn Nasi, skerið Glænefur og svo auðvitað Miðnesheiði.

 

 

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Ljóð í Action Poétique

Lesa meira

Ljóð í Neue Lyrik aus Island

Lesa meira

Fackelzüge: Ein Liebeslied

Lesa meira

Bréf frá borg dulbúinna storma

Lesa meira

Blysfarir

Lesa meira

Ljóð í ICE-FLOE, International Poetry of the Far North

Lesa meira