Beint í efni

Ljóð í mæltu máli

Ljóð í mæltu máli
Höfundur
Jacques Prévert
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1987
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Paroles eftir Jacques Prévert í þýðingu Sigurðar Pálssonar.

Úr Ljóðum í mæltu máli

ATBURÐIR (brot)

Svala flýgur um loftin blá
flýgur í hreiðrið sitt
hreiðrið þar sem ungarnir eru
hún færir þeim litlar sólhlífar
maðka og fíflablöð
allt mögulegt til þess að skemmta krökkunum
í hreiðrinu en í sama húsi
er unglingur að deyja hægt og rólega
í rúminu sínu
í rúminu sínu
á gangstéttinni framan við dyrnar
er náungi á perunni ruglandi
bakvið hurðina er strákur og stelpa að kyssast
og svolítið lengra við enda götunnar
horfir hommi á annan homma
og vinkar honum í kveðjuskyni
annar grætur
hinn þykist gráta
hann er með litla tösku
hann fer fyrir götuhornið
og þegar hann er orðinn einn fer hann að brosa
svalan kemur aftur fljúgandi um loftin blá
og homminn kemur auga á hana
Nei þarna er svala . . .
og hann heldur leiðar sinnar
í rúminu sínu er unglingur að deyja
svalan flýgur fyrir gluggann
horfir inn um hann
Nei þarna er lík . . .
hún flýgur einni hæð ofar
og sér inn um annan glugga
hvar morðingi heldur um höfuð sér
fórnarlambið liggur úti í horni
í hnipri
Enn eitt lík segir svalan . . .
morðinginn heldur um höfuð sér
og spyr hvernig hann eigi að losna út úr þessu
hann rís á fætur og nær sér í sígarettu
og sest aftur
svalan sér hann
hún er með eldspýtu í goggnum
hún bankar í gluggann með goggnum
morðinginn opnar gluggann
tekur eldspýtuna
Þakka þér fyrir svala . . .
og hann kveikir í sígarettunni
Ekkert að þakka segir svalan
það má nú ekki minna vera
og hún flýgur burt með miklum fjaðraþyt . . .
morðinginn lokar glugganum
sest á stól og reykir
fórnarlambið rís up og segir
Það er leiðindavesen að vera dauður
maður er allur kaldur
Reyktu þér hitnar við það
og morðinginn réttir honum sígarettuna
(18-20)

Fleira eftir sama höfund