Beint í efni

Lauf súlnanna : fáein ljóð

Lauf súlnanna : fáein ljóð
Höfundur
Friedrich Hölderlin
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
1997
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Werke und Briefe eftir Friedrich Hölderlin í þýðingu Hannesar.

Úr Laufum súlnanna

Ister

Kom nú, eldur!
ákafir bíðum vér þess
augum að líta daginn,
og er þolraunin hefur gengið
í gegnum merg og bein,
þá kynni að heyrast kvak skógarfugla.
En vér yrkjum óð vorn komnir langveg
frá Indus-fljóti sem og
frá Alfeus, lengi
leituðum vér Hins örlögbundna.
Ei neinn höndlar óvængjaður
það sem í nánd er
krókalaust
og kemst á gagnstæðan bakka.
En hér hyggjum vér nú á ræktun.
Því fljót gera moldir
frjósamar undir bú. Og dafni grös
og gangi þar til vatns
dýr á sumrum,
svo munu og mennirnir á eftir koma.

Og Ister nefnist þetta fljót.
Fagurt er umhorfs. Lauf súlnanna
logar og blaktir. Stórskornar
hefjast þær saman til lofts; ofar
er annað hæðar-mið: þakið
skjagar úr klettahlíðum fram. Fyrir því
undrar mig eigi, að fljótið
bauð til sín Herkúlesi,
sem blikaði í suðri, við Olympos,
frá Istmos hinum funheita kom hann
sér forsælu að leita,
því fullir hugdirfðar voru menn
í þeim stað, en þörf er og andanum
á þægri kælingu. Því hélt hann fús
hingað, að vatns-upptökunum og árbakka gulum,
hátt hið efra vætugrátt, og greniskógurinn
dökkur, í djúpum
dölum fer veiðimaður til yndis sér
um hæstan dag, og heyra má vöxt
kvoðuríkra trjáa við Ister.

Þó er að sjá sem fljótið
falli upp í mót, og það hlýtur,
álít ég, að koma
úr austurátt.
Mörg orð
mætti nú hafa. Og hvers vegna dvelst því
til fjalla svo mjög? Fljótið hitt, Rín,
hefur haldið á braut
fyrir handan. Að nytjalausu streyma ekki
vötn um þurrlendið. En þá hvernig? Teikn verður
til að koma, ei neitt annað, hreint og beint, svo að sól
og tungl séu inngróin því, órjúfanlega,
og áfram stefni það, dag sem nótt, og Hinir himnesku
njóta megi sælla samvista.
Þess vegna eru fljótin
til fagnaðar Hinum æðsta. Hvern veg ella
stigi hann niður hingað? Og sem Herta græn
eru þau Himinsins börn. Þó biðlundað langt um of
þykir mér þetta fljót, ekki
ótrautt sem hæfði, svo hlægir menn næstum, því að
er dagur skal upp renna
í æsku og þroskinn
eflast – hitt fer
þá fram glæsilegt og bryður
sem folar mélin, og langa leið
heyra loftin atgang þess –
lætur það sér hægt;
þarfnast þó fjallið námu-meitla
og moldin plógfara,
annars kostar óbyggilegt, skjótlega;
hvað það ætlar sér þó, þetta fljót,
veit ekki neinn.

(s. 21-24)

Fleira eftir sama höfund