Beint í efni

Krossljóð

Krossljóð
Höfundur
Sigurbjörg Þrastardóttir
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð

Um bókina

Sigurbjörg Þrastardóttir fer hér nýstárlega leið í skáldskap sínum og slæst í för með 40 erlendum skáldum af ólíkum uppruna. Ásamt því að þýða ljóð eftir hvert og eitt þeirra dregur hún fram óbirt ljóð úr eigin fórum sem kallast á við raddir gestanna. Úr verður krosssaumur fjölbreyttra samtímaljóða þar sem skarast vestrænt hversdagslíf, ástir og ofbeldi, húðflúr, húsdýr og mannkynssagan eins og hún blasir við höfundunum.

Bókin á rætur að rekja til þeirra tengsla sem myndast skálda á milli þar sem ljóðvegir liggja vítt og breitt um heiminn.


Úr bókinni

Krystyna Dabrowska

Ferðaskrifstofa

Ég er ferðaskrifstofa fyrir hina látnu.
Ég bóka fyrir þá flug inn í drauma þeirra sem lifa.
Frægar persónur snúa sér til mín, eins og Heraklítos,
sem vill heimsækja höfund sem dýrkar hann, en líka lítt þekktir
dauðir - eins og bóndinn frá þorpinu Wasily, sem þarf nauðsynlega
að koma ráðum um kanínurækt til konu sinnar.
Stundum leigja nokkrar kynslóðir úr sömu familíu flugvél
og lenda á enni yngsta afkomanda síns.
Ég sinni líka hinum myrtu
sem æða reglulega inn í drauma þeirra sem lifðu af
og safna þannig flugpunktum.
Ég neita aldrei neinum um þjónustu mína.
Ég útvega öllum heppilegustu tengiflugin
og álasa mér þegar ungur maður,
á leið inn í draum ástmeyjar sinnar,
neyðist til að skipta um vél í draumi hrjótandi gamlingja.
Eða þegar veðurskilyrði kalla á nauðlendingu
og hinn dauði hringir í mig: Gerðu eitthvað,
ég er fastur í draumi óttaslegins barns!
Svona tilvik auka á streitu og eru áskorun
fyrir mig, lítið fyrirtæki með mikinn metnað
- því jafnvel þótt ég hafi engan aðgang að veröld hinna dauðu
eða draumum annarra
er samgangurinn mér að þakka.


Sigurbjörg Þrastardóttir

Eðlileg verksummerki

Átta ára
fætur eru marðir
og skornir eftir vist
úti

öskugrá andlit
rauðir taumar
eftir ofsa
át

óhljóð úr svefni
skrímsli í skáp
menn á ferð í myrkri að rjátla við glugg

þannig er það

brot úr tanngarði
á dreif um gólf

þannig er það

 

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Ljóð í Action Poétique

Lesa meira

Ljóð í Neue Lyrik aus Island

Lesa meira

Fackelzüge: Ein Liebeslied

Lesa meira

Bréf frá borg dulbúinna storma

Lesa meira

Blysfarir

Lesa meira

Ljóð í ICE-FLOE, International Poetry of the Far North

Lesa meira