Beint í efni

Klakahöllin

Klakahöllin
Höfundur
Tarjei Vesaas
Útgefandi
Almenna bókafélagið
Staður
Reykjavík
Ár
1965
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Isslottet eftir Tarjei Vesaas í þýðingu Hannesar.

Úr bókinni

„Hvað sé ég!

Alveg áreiðanlega var þetta klakahöllin.

Eins og hendi væri veifað hætti að njóta sólar. Gljúfrið var djúpt og með bröttum veggjum, kannski næði sólin síðar þangað niður – nú grúfði yfir því ískaldur skuggi.

Unn horfði niður í jötunheima, sem gerðir voru af litlum strýtum, tindóttum hvelfingum, hrímgum hvolfþökum, fíngerðum bogum og ruglingslegu knipplingaskrauti. Allt var af klaka og vatnið gusaðist í þrengslunum og hélt smíði sinni áfram jafnt og þétt. Sums staðar hafði ísinn breytt rennsli fossins, svo það féll nýjar leiðir og myndaði ný furðuverk. Allt skein. Enn var sólarlaust, en allt skein sínum eigin ísbláu og grænu geislum, helköldum.

Niður í þessa jötunheima miðja steyptist fossinn líkt og í dimma undirganga. Flaumurinn teygði vatnstungur upp yfir gljúfurbrúnina, skipti litum, var ýmist svartur eða grænn, grænn eða gulur og hvítur eftir því sem fossinn herti á fallinu. Upp úr undirgöngunum lyftist öskur vatnsins, niðri tættist það sundur í hvítt löður við botngrjótið. Til lofts hófu sig þykkir móðustrókar.

Unn rak upp fagnaðaróp. Það drukknaði alveg í niði og glymjanda; eins hurfu heit skýin, sem hún andaði frá sér, í kaldan úðann.

Ekki dró eitt andartak úr fossrokinu og vatnsgusunum á báða bóga, sem unnu hægt og markvíst, en af ástríðu. Vatnið rann og rann. Iðjaði með aðstoð frostsins. Stækkaði smíðina og hækkaði, holur, göng og stíga undir hvelfdum klakaþökum. Allt langtum margbrotnara og viðhafnarmeira en nokkuð annað sem Unn hafði séð á sinni lífsfæddri ævi.

Nú hafði hún góða yfirsýn. En hún mátti líka til með að skoða þetta neðan frá og byrjaði að klöngrast ofan bratta, hélaða brekkuna til hliðar við fossinn. Hún var sem heltekin af höllinni, henni þótti hún svo voldug.“

(s. 55-56)

Fleira eftir sama höfund

Fuglarnir

Lesa meira