Beint í efni

Járngresið

Járngresið
Höfundur
William Kennedy
Útgefandi
Almenna bókafélagið
Staður
Reykjavík
Ár
1988
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Ironweed eftir William Kennedy í þýðingu Guðbergs.

Aðalpersóna Járngresisins er fyrrum hafnaboltaleikari, Francis Phelan að nafni. Hann dregur fram lífið með snapvinnu en fyrst og fremst er hann róni. Francis hefur í blóma lífsins yfirgefið fjölskyldu sína eftir að hafa misst ölvaður nýfæddan son sinn á gólfið með þeim afleiðingum að hann dó. Í upphafi sögunnar, sem gerist 1938, er Francis kominn aftur á heimaslóðir með vinkonu sinni Helenu, sem er róni eins og hann. Fortíðin vitjar Francis með ýmsu móti og oft átakanlega. Líf hans hefur verið flótti en hann á til stolt og getur elskað þrátt fyrir niðurlægingu rónans.

Um byggingu verksins hefur Guðbergur Bergsson, þýðandi þess, skrifað: „Hið margflókna net tíma og atburða, sem er þó sáraeinfalt, sést aðeins við lestur þessa snilldarverks. En ef ég ætti að lýsa söguþræðinum, gerð bókarinnar, dyttu mér helst í hug mörg marglit net, sem hengd hafa verið til þerris, hvert fyrir framan annað. Lesandinn sér í gegnum einfalda möskvana, en hann festist í neti frásögunnar, þótt hann viti alltaf engu að síður að hann er frjáls fiskur sem syndir að eigin vild um söguslóðirnar.“

Járngresið eftir William Kennedy er glæsilegt skáldverk sem lætur engan ósnortinn er það les enda færði það höfundi sínum Pulitzer verðlaunin, æðstu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna.

Úr Járngresinu

Úr gröf sinni, sem var kross dreginn í hring, fylgdist Gerald með komu föður síns og hugleiddi hvað væri best að gera þegar þeir hittust. Átti hann að leysa manninn frá allri sekt, ekki fyrir það að hann hafði misst hann, því það var slys, heldur fyrir að hafa yfirgefið fjölskyldu sína, það að flýja eins og gunga þegar staðfastra dyggða var þörf? Gröf Geralds titraði, full af frábærum möguleikum. Honum hafði ekki verið gefið mál meðan hann lifði, enda dó hann meðan hann gat bara gólað og hjalað nokkur atkvæði, en í dauðanum höfðu honum verið gefnir hæfileikar til að tala. Hæfileiki hans til að spjalla og skilja var talinn til snilligáfu meðal hinna dauðu. Honum var unnt að ræða við sérhvern fullorðinn íbúa á hvaða máli sem var, en einstæðari var samt hæfileiki hans til að skilja þvaðrið í íkornunum, þögular merkjasendingar mauranna og bjallanna og hinna sleipu horna á sniglunum, og ormana sem skriðu fyrir ofan og í gegnum moldina hans. Hann gat lesið merkingu dvínandi kraftsins í laufunum og berjunum, þegar þau duttu af boxviðnum fyrir ofan hann. Og vegna þess að örlög hans höfðu einkennst af sakleysi og afneitun, þá hafði hann fengið um sig varnarvef gegn sérhverjum raka, gegn moldvörpunum, kanínum og öðrum dýrum, sem grófu sig niður. Vefur hans var ofinn úr þéttriðnum skínandi silfurþráðum, var hjúpandi net úr flóknum næstum gagnsæjum vefnaði. Líkami hans hafði ekki aðeins verið leystur frá ágangi rotnunarinnar, heldur hafði hann á vissan hátt vaxið - og til dæmis var einnig það að hann hélt öllu hárinu á höfðinu - í fulla líkamsstærð, það var í senn eðlilegt og kraftaverk. Hann hvíldi í ljóma æskunnar, og það stafaði af honum miklum ljóma af því hann dó ungur; húðin á honum var sem skínandi hvítt gull, neglurnar voru silfurgráar, og yfir lokkaflóðinu og stóru augunum var sami gljái og er á fílabeini. Hvorki myndlist né orðlist gat lýst honum, hjúpuðum í gröf sinni. Hann var hvorki fríður né fullkominn í augum áhorfandans heldur var nálægð hans ólýsanlega dýrleg, og í kirkjugarðinum fannst hvergi neitt sem var í líkingu við hann, þótt þarna lægi sægur af dánum sakleysingjum.

(s. 26-27)

Fleira eftir sama höfund