Beint í efni

Hundshaus

Hundshaus
Höfundur
Morten Ramsland
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Bókin Hundehoved (2005) eftir Morten Ramsland. Þýdd úr dönsku af Kristínu Eiríksdóttur.

Ungur maður snýr heim til Danmerkur til að kveðja ömmu sína á banabeði og endurnýja um leið kynnin við allar sögurnar hennar um ævintýri fjölskyldunnar allt frá millistríðsárunum þegar afi hans og amma kynntust heima í Björgvin í Noregi. Drykkjuskapur og sérkennilegt hugmyndaflug heimilisföðurins hrekja fjölskylduna úr einum stað í annan, fyrst í Noregi og síðar í Danmörku þar sem barnabörnin vaxa úr grasi. En ættarsögurnar fylgja þeim: ævintýralegar sögur af svikum og ást, áflogum og útskúfun, draumadísum og galdraskógum, og svo ein af skelfilegum hundshaus ....

Úr bókinni

Eina nóttina vaknaði Björk sveitt í rúminu vegna þess að hana dreymdi að sólfífill væri farinn að vaxa út úr naflanum á henni. Morguninn eftir var henni illt í maganum og þegar Askild var farinn í vinnuna hringdi Randí í Heinz lækni sem kom og lagði stóru, krómuðu hlustunarpípuna sína á stóran og ávalan maga Bjarkar.

„Taktu því alveg rólega,“ sagði hann mildri röddu og blikkaði Randí, „drekktu vatn og sofðu eins mikið og þú mögulega getur. Enn eru þrjár vikur í fæðingu.“ Björk kinkaði kolli því henni fannst alltaf eitthvað róandi við brúnar læknatöskur úr leðri. Engu að síður jókst sársaukinn, kaldur svitinn draup af enninu og hún varð að leggjast á sófann. Þegar gráspör flaug inn um opinn gluggann og blakaði vængjunum ringlaður í stofunni áður en hann klessti á rúðu og datt niður á sófann gat hún ekki séð það sem annað en tákn: „Ég er að fara að fæða núna,“ kallaði hún, „ég er að fara að fæða núna og ég er líka með loft í maganum! Hringið í mömmu!“ Randí hljóp taugaveikluð í símann til þess að hringja aftur í Heinz sem gat ómögulega verið að koma í tíma og ótíma: „Ef stúlkan er með loft í maganum þá skaltu senda hana á kamarinn,“ sagði hann í uppgjafartón, „hún á ekki að fæða strax.“

Björk sat sem sagt kaldsveitt úti á kamri með stingandi verki niður eftir lærunum þegar Askild kom heim úr vinnunni. Í innri vasanum var hann með krumpaða eftirprentun af Fiðlunni eftir Picasso sem hann breiddi úr á eldhúsborðinu um leið og hann kom inn úr dyrunum. „Hvaða kjaftæði er þetta?“ spurði hann þegar hann fékk að vita að Björk sæti á kamrinum samkvæmt fyrirmælum Heinz læknis. Hann hringdi í lækninn sem var orðinn meira en lítið þreyttur á þessum eilífu hringingum. Hann var einmitt að snæða kvöldverðinn en þegar Askild hækkaði róminn var hann þrátt fyrir allt skilningsríkur gagnvart áhyggjum hins verðandi föður og sagði: „Allt í lagi, ég kem eftir klukkutíma.“

En áður en klukkutíminn var liðinn kreisti ógnvekjandi sársauki loftið úr lungum Bjarkar og eitthvað sem flaksaðist og vildi komast í heiminn þrýsti sér út, út. Hana langaði að standa á fætur og hlaupa til baka inn í sófann en hana svimaði af stingandi sársaukanum og meðan Eplahaus fylgdist opinmynntur með því þegar dauði fuglinn rumskaði - „hann flaug sína leið,“ sagði hann seinna, „ég sá það sjálfur!“ - kom eitthvað formlaust út á milli læra Bjarkar, stofnaði til kynna við þyngdaraflið og steyptist ofan í illa þefjandi súpuna af skít og efnablöndum sem kamarinn geymdi. „Askild!“ kallaði Björk meðan veggirnir hringsnerust og út kom Askild með trylling í augnum, stakk báðum höndum ofan í kamaropið og rótaði þar svo öldur af saur skvettust í kringum hann. Loks fann Askild eitthvað ílangt sem vel gat verið naflastrengur og hann togaði í og dró litla hvítvoðunginn upp, á svipinn eins og veiðimaður sem hefur fengið stóreflis þorsk á öngulinn. „Strákur!“ hrópaði hann eftir að hafa undireins athugað kynfæri litlu verunnar, „þetta er strákur, djöfull erum við dugleg!“

Svo hófst Randí handa og vatn var soðið og hvítvoðungurinn þveginn áður en Heinz læknir kom inn um dyrnar og umlaði: „Það getur ekki verið ... ofan í kamaropið! ...“ En þrátt fyrir snemmkomna og nokkuð óvænta kynningu fyrir ruddalegum staðreyndum lífsins var drengurinn úrskurðaður hraustur; vafinn í teppi og sýndur foreldrum sínum í stofunni. Þeim var báðum brugðið þegar þau sáu stór eyru ungbarnsins sem fram að því höfðu verið falin undir illa þefjandi líknarbelgnum. „Hvers konar útlit er þetta eiginlega?“ hvíslaði Askild en engan viðstaddra langaði til að svara.

(s. 75-76)

Fleira eftir sama höfund