Beint í efni

Hringstiginn - og sjö sögum betur

Hringstiginn - og sjö sögum betur
Höfundur
Ágúst Borgþór Sverrisson
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Seltjarnarnes
Ár
1999
Flokkur
Smásögur

Úr Hringstiganum:

Dag einn var ég sannfærður um að hringstigi lægi niður í kjallara safnarabúðar í miðbænum. Ég hafði verið þarna fyrir örstuttu. Minningin var þó einkennilega óskýr. Ég mundi ekki hvað ég hafði verið að vilja niður í kjallarann né hvað var geymt þar; sennilega meira úrval af pappírskiljum, hljómplötum og myndböndum.

Í hringstiganum hafði ég mætt manni í grænni hettuúlpu. Hettan var dregin yfir höfuðið og maðurinn undarlega lotinn og niðurlútur. Ég hafði ekki veitt honum sérstaka athygli þarna á staðnum en eftir atvikið varð hann sífellt áleitnari í huga mér. Hvernig leit hann út undir hettunni? spurði ég sjálfan mig. Gagnslaus spurning en ég gat ekki hætt að hugsa um þetta.

Göngulag mannsins hafði verið draugalegt og varð sífellt óhugnanlegra í huga mér eftir því sem ég hugsaði meira um það. Hettuúlpan hans minnti mig hins vegar á pabba: hann gekk í sams konar úlpu öll æskuár mín. Fyrst man ég eftir henni fjögurra eða fimm ára. Pabbi stóð með hettuna dregna yfir höfuðið í innkeyrslunni fyrir utan eldhúsgluggann eða inni í óupphituðum bílskúrnum og gerði við bílhræ sem hann keypti fyrir slikk eða fékk að hirða, gerði þau upp og endurseldi. Úlpan var örugglega hlý en hann var samt alltaf rauður og blár af kulda þegar hann kom inn í kaffi eða mat. Mig langaði að vera með honum og aðstoða við verkin en ég var allt of lítill.

Pabbi hefur aldrei verið sundurgerðarmaður í klæðaburði og löngu eftir að hann var fluttur frá okkur gekk hann enn í þessari sömu úlpu. Eldgamlir smurolíublettir á faldinum geymdu minningar um viðgerðardagana.

Þegar hann keyrði leigubílinn geymdi hann úlpuna í framsætinu en gekk í henni úti ef kalt var í veðri. Undir úlpunni var hann í svörtum fyrrverandi sparifatajakka og köflóttri skyrtu undir jakkanum. Upp úr brjóstvasa jakkans stóðu fimm bláir bic-pennar. Ég veit ekki hvort hann notaði pennana nokkurn tíma, það var eins og hann vissi ekki af þeim.

(7-8)

Fleira eftir sama höfund

Inn í myrkrið

Lesa meira

Afleiðingar

Lesa meira

Síðasti bíllinn

Lesa meira

Eftirlýst augnablik

Lesa meira

Í síðasta sinn

Lesa meira

Fyrsti dagur fjórðu viku

Lesa meira

Tvisvar á ævinni

Lesa meira

Sumarið 1970

Lesa meira

Hliðarspor

Lesa meira