Beint í efni

Hringnum lokað

Hringnum lokað
Höfundur
Michael Ridpath
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

Prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands telur sig hafa fundið handrit að Íslendingasögu sem menn töldu glatað en sagan á meðal annars að hafa veitt höfundi Hringadróttinssögu innblástur. Skömmu síðar finnst hann látinn í Þingvallavatni. Magnús Jónsson, rannsóknarlögreglumaður í Boston, er á flótta undan harðsvíruðu glæpagengi og leitar skjóls á Íslandi en hann hefur ekki komið til landsins í tvo áratugi. Hér dregst hann inn í rannsókn á láti prófessorsins, ásamt því að takast á við drauga fortíðarinnar – og mennina sem vilja hann feigan.

Michael Ridpath hefur sent frá sér fjölmargar spennusögur sem selst hafa í stórum upplögum víða um lönd. Hann fer nýjar leiðir í þessari alþjóðlegu metsölubók um íslenskan lögreglumann og grefur sig ofan í sögu og samtíma Íslendinga.

Úr bókinni

Magnús rétti Árna síðustu blaðsíðuna. Árni átti enn eftir að lesa nokkrar síður, sem var skiljanlegt því enska var ekki móðurmál hans. Magnús starði út á vatnið og á eyjarnar í því miðju.
   Hann reyndi að róa sig niður. Gat verið að þetta væri raunveruleg fornsaga? Ef svo var gæti þetta verið einn mikilvægasti fundur íslenskrar bókmenntasögu. Og meira en það, þetta væri heimssögulegur atburður.
   Hann var nokkuð viss um að væri þetta þýðing á raunverulegri miðaldasögu þá væri hún óþekkt. Líklega voru til margar stuttar sögur úr bókmenntaarfi Íslendinga sem Magnús hafði aldrei heyrt um. En þessi saga var ekkert minniháttar verk. Að hringurinn var Andvaranautur og aðalpersónan Gaukur á Stöng hefði átt að tryggja að hún væri vel þekkt á Íslandi og miklu víðar. Magnús kannaðist við tvær persónur sem hann hélt mikið upp á, sjálfan Njál á Bergþórshvoli og Ásgrím Elliða-Grímsson.
   En var sagan ófölsuð? Það var ekki gott að vita þar sem þetta var þýðing, en stíllinn benti til þess að svo gæti verið. Íslenskar miðaldabókmenntir voru ekki skrifaðar í þeim ljóðræna tón sem einkennir gjarna aðrar evrópskar miðaldabókmenntir. Stíllinn var oft gagnorður, orðalagið nákvæmt og sögurnar býsna jarðbundnar. Þær voru meira í anda Hemingways en Tennysons. Ólíkt því sem gerðist í Evrópu miðalda voru það ekki bara klerkar og aðrir kirkjunnar menn sem kunnu að lesa á Íslandi, og bækur voru ritaðar á þjóðtungunni en ekki aðeins á latínu. Íslendingar voru bændaþjóð í strjálbýlu landi og hjá bændum sem bjuggu fjarri prestum skapaðist þörf fyrir að geta lesið Biblíuna fyrir sjálfa sig og vinnuhjúin á löngum vetrarkvöldum. Íslendingasögur höfðu sögulegan kjarna og voru ætlaðar alþýðu manna til skemmtunar og fróðleiks.
   Ef þessi saga var raunverulegt miðaldaverk höfðu afkomendur Gauks aldeilis staðið sig vel við að halda henni leyndri í gegnum aldirnar. Allt þar til nú, að prófessor í íslensku, sem annars var ekki merkilegur fræðimaður, hafði tekið upp hjá sjálfum sér að opinbera hana fyrir umheiminum.

(s. 106-107)

Fleira eftir sama höfund