Beint í efni

Horft frá brúnni

Horft frá brúnni
Höfundur
Arthur Miller
Útgefandi
Listasafn Reykjavíkur
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Leikritið A View from the Bridge eftir Arthur Miller í þýðingu Sigurðar Pálssonar.

Úr Horft frá brúnni

(Ljós koma upp á Alfieri við skrifborð sitt)

ALFIERI: Þann tuttugasta og þriðja desember þetta ár datt kassi af skoski viskíi niður úr stroffu við uppskipun - eins og kassi af skosku viskíi er vanur að gera tutugasta og þriðja desenber á bryggju fjörutíu og eitt. Það var snjólaust en kalt. Konan hans var úti að versla. Marco var enn í vinnunni. Drengurinn hafði ekki fengið vinnu þennan dag. Katrín sagði mér síðar að þetta var í fyrsta skipti sem þau voru saman ein heima.

(Ljós kvikna á Katrínu í íbúðinni. Rodolpho fylgist með henni þar sem hún leggur pappírssnið á fataefni sem breitt er á borðið)

KATRÍN: Ertu svangur?

RODOLPHO: Það er ekki matur sem mig langar í. Ég á næstum þrjú hundruð dollara, Katrín.

KATRÍN: Ég heyrði það.

RODOLPHO: Langar þig ekki að tala um það lengur?

KATRÍN: Jú auðvitað, mér er sama þó ég tali um það.

RODOLPHO: Hvað er að, Katrín?

KATRÍN: Mig hefur langað til að spyrja þig um dálítið. Má ég það?

RODOLPHO: Öll mín svör eru í augum mínum, Katrín. En þú hefur ekki horft í þau upp á síðkastið. Þú lumar á einhverjum leyndarmálum. (Hún horfir á hann. Virðist draga sig í hlé) Hvað er málið?

KATRÍN: Setjum nú svo að mig langaði að búa á Ítalíu?

RODOLPHO: (Hann brosir við þessari fjarstæðu) Ætlarðu að giftast einhverjum auðkýfingi?

KATRÍN: Nei ég meina búa þar - þú og ég.

RODOLPHO: (Brosið fölnar) Hvenær?

KATRÍN: Ja.. þegar við erum gift.

RODOLPHO: (Undrandi) Viltu verða ítölsk?

KATRÍN: Nei, en ég gæti búið þar án þess að vera Ítali. Ameríkanar búa þar.

RODOLPHO: Alltaf?

KATRÍN: Já.

RODOLPHO: Þú ert að grínast.

KATRÍN: Nei, ég meina þetta.

RODOLPHO: Hvernig dettur þér annað eins í hug?

KATRÍN: Ja, þú hefur alltaf verið að tala um að það sé svo fallegt þar, fjöllin og hafið og allt...

RODOLPHO: Þú ert að gera grín að mér.

KATRÍN: Ég meina þetta.

RODOLPHO: Katrín, ef ég kæmi með þig heim peningalaus, atvinnulaus, allslaus, þá myndu þeir kalla á prestinn og lækninn og þeir myndu segja: Rodolpho er geðbilaður!
(82-83)

Fleira eftir sama höfund