Beint í efni

Frankenstein: eða Hinn nýi Prómóþeus

Frankenstein: eða Hinn nýi Prómóþeus
Höfundur
Mary Shelley
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Frankenstein or The New Prometheus eftir Mary Shelley í íslenskri þýðingu Böðvars Guðmundssonar. Þetta er fyrsta óstytta íslenska þýðing verksins.

Endurútgefin af Forlaginu 2009 með þeirri kápumynd sem sést hér.

Úr Frankenstein

Það var nöturlega nóvembernótt sem ég fullkomnaði verk mitt. Með næstum sársaukafullum ákafa raðaði ég líftækjunum í kringum mig svo ég gæti tendrað lífsneistann í dauðu efninu sem lá fyrir fótum mér. Klukkan var eitt eftir miðnætti, regnið buldi ömurlega á rúðunum og kertið mitt var næstum brunnið niður er ég í skímu frá næstum útbrunnu ljósinu sá mött, gul augu verunnar opnast, hún dró djúpt andann og krampateygjur fóru um útlimina.

Hvernig get ég lýst tilfinningum mínum við þennan hörmungaratburð, eða lýst óskapnaðinum sem ég hafði kappkostað að búa til? Stærðarhlutföll útlimanna voru rétt og ég hafði léð honum fagra andlitsdrætti. Fagra! Guð minn góður! Gul húðin náði varla að hylja vöðva og æðar, hárið var gljásvart og sítt, tennurnar perluhvítar, en þessi fegurð var skelfileg andstæða við vot augu hans sem sýndust næstum eins á litinn og mógráar augnatóftirnar þar sem þau sátu, húðin hrukkótt og varirnar þunnar og svartar.

Hin ýmsu atvik lífsins eru ekki eins breytileg og mannlegar tilfinningar. Í næstum tvö ár hafði ég lagt hart að mér í þeim eina tilgangi að gæða dauðan líkama lífi. Fyrir það hafði ég hvorki unnt mér hvíldar né gætt heilsu minnar. Ég hafði þráð það heitar en talist gat eðlilegt, en nú þegar verkinu var lokið hvarf fegurð óskadraumsins og ég fylltist kæfandi skelfingu og viðbjóði. Ég gat með engu móti horft á þessa veru sem ég hafði skapað og rauk á dyr og gekk lengi um gólf í svefnherbergi mínu án þess að falla nægilega í ró til að geta sofið. Að lokum sigraði þreytan tilfinningarótið og ég fleygði mér í rúmið í öllum fötunum og reyndi að gleyma öllu í fáein andartök. En það var ekki til neins, vissulega svaf ég en var hrjáður að óráðsdraumum. Mér fannst ég sjá Elísabetu ljómandi af heilbrigði á gangi á götum Ingolstadt. Himinglaður og undrandi tók ég hana í faðminn en þegar ég þrýsti fyrsta kossinum á varir hennar urðu þær dauðableikar, útlit hennar breyttist og mér fannst ég halda á líki minnar kæru móður í örmum mér, nárinn var hulinn líkklæðum og ég sá grafarormana skríða í klæðisfellingunum. Ég hrökk upp í angist, kaldur sviti perlaði á enninu, tennurnar glömruðu og ég fékk krampateigjur í útlimina. Og þá, í drungalegri, fölri tunglskímunni sem þrengdi sér inn um gluggahlerana, sá ég veruna – óskapnaðinn sem ég hafði búið til.

(64-65)

Fleira eftir sama höfund