Beint í efni

Fjallaverksmiðja Íslands

Fjallaverksmiðja Íslands
Höfundur
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Sjö nýstúdentar af fjallamennskubraut á Höfn stefna hver í sína áttina áður en vindurinn blæs þeim öllum inn í sama braggann skammt frá Jökulsárlóni. Þar stofna þau Fjallaverksmiðju Íslands – draumasamfélag til dýrðar náttúru, sjálfbærni og nægjusemi. Í bragganum er prjónað og bruggað, ruslað og eldað, elskað og dreymt, og boðskap Fjallaverksmiðjunnar er streymt beint á netið þar sem sífellt fleiri fylgjast með. En daginn sem Emma finnst á lóninu breytist allt.

Úr bókinni

  Honum sýnist báturinn fullur af dóti. Himnarnir hrynja þegar hann áttar sig á því að Emma liggur í bátnum. Hún liggur þarna eins og vatnadís með krosslagðar hendur á brjósti og krepptan hnefa um ísexi. Hún er ekki í þurrbúningi, bara í göngubuxum og fjallaskóm, í appelsínugulu úlpunni að renndri. Hárið, dökkt og þykkt, er vandvirknislega breitt úr í geislakrans umhverfis höfuðið og steinvölum raðað í hring ofan á hárið, eins og dýrlingamynd í steindum kirkjuglugga. Svipurinn er friðsæll og það er líkt og hún sofi, en hún sefur ekki. Hann heyrir sig öskra, heyrir í sjálfum sér öskra nafnið hennar aftur og aftur. Hann finnur sig hamast á bátnum, hrista hann og rugga. Í örvæntingu augnabliksins hugsar hann þó rökfast og festir krók í lykkju á stefni rauða bátsins. Hann rær lífróður til baka.
  - Hringdu á sjúkrabíl, Stjáni! Móri er frávita af hræðslu og hryllingi. Hringdu strax á helvítis sjúkrabíl og lögreglu! Það þarf lögreglu líka!
  Augnablikið hverfur. Hann man ekkert, finnur ekkert, en æðir upp úr bátnum og dregur þann rauða langt upp á land. Stjáni kemur hlaupandi frá skúrnum, jökulhvítum kaffistofugámi sem hýsir kajakfyrirtækið Lónalóma ehf. Móri grúfir sig yfir rauða bátinn, finnur ekki lífsmark. Um leið og hann hrópar í fáti og örvæntingu eitthvað um sjúkrabíla og lögreglu er hann styrkur og öruggur og grípur Emmu í fangið. Hann fær aukakraft, þennan kraft sem fólk fær þegar lífið liggur við. Móri þrífur sterklega stelpuna upp líkt og hún sé úr fisi. Gætir að höfði, að það hreyfist ekki of mikið, og heldur því að sér í handarkrika. Hann æðir með hana að skúrnum þar sem hann leggur hana varlega á nestisborð fyrir utan. Móri losar föt frá hálsi Emmu. Storknað blóð er á hnakka. Hann leggur hönd á brjóst, fingur á púls, finnst brjóstið bærast kannski, eitthvað örlítið, en veit ekki hvort það er óskhyggja.

(12-13)

Fleira eftir sama höfund

Ríólítreglan

Lesa meira

Fíasól á flandri

Lesa meira

Fíasól í fínum málum

Lesa meira

Kjallari og fyrsta hæð - hætta á hruni: bóklestur barna - alvara málsins

Lesa meira

Fíasól í hosiló

Lesa meira

Markaðsbörnin og ábyrgðin

Lesa meira

Sigurför himintunglanna: glerlist á sporbaug út í heim

Lesa meira

Vorvindar: viðurkenningar IBBY á Íslandi 2004.

Lesa meira

Bókmannsraunir: vangaveltur um staf og blað

Lesa meira