Beint í efni

Félagi Jesús

Félagi Jesús
Höfundar
Sven Wernström,
 Mats Andersson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1978
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Kamrat Jesus eftir Sven Wernström, í þýðingu Þórarins Eldjárn. Myndskreytingar eftir Mats Andersen.

Úr Félaga Jésú

Það var sumar í smábænum Nasaret. Þennan dag var mjög heitt í veðri. Fullorðna fólkið var flestallt innan dyra í litlu hvítu húsunum sínum og svaf hádegisblundinn sinn.
En á einum stað hamaðist hópur af smástrákum á þröngu stræti. Þeir léku ræningja og Rómverja. Allir vildu vera ræningjar og enginn vildi vera Rómverji. Þeir létu öllum illum látum og æptu svo að undir tók í næstu götum.
- Ég er ræningjahöfðinginn Símon fagri! kallaði einn þeirra.
- Nei, ég ætla að vera hann!
- Ég vil líka vera ræningi!
- Ég er ræningjahöfðinginn Jakob!
Fjórir þeir sterkustu fengu að vera ræningjar. Þeir földu sig báðum megin við götuna. Hinir strákarnir hlupu spölkorn í burtu og skipuðu sér í tvær raðir. Síðan komu þeir þrammandi sem rómverskir hermenn: Einn, tveir, einn, tveir!
Ræningjarnir biðu þangað til Rómverjarnir voru alveg komnir að þeim. Þá ruku þeir til með háum hljóðum og fleygðu sér á þá. Úr þessu varð ægilegur slagur. Rómverjarnir töpuðu auðvitað. Ef þeir hefðu verið sterkari en ræningjarnir hefðu þeir fengið að vera ræningjar í staðinn. En þeir voru ekki á því að gefast upp eins og skot, þannig að þetta urðu heilmikil slagsmál.
Þannig stóðu málin þegar smiðurinn Jesús kom gangandi eftir götunni. Hann var þrekinn og sterklegur maður með úfið hár og hrokkið skegg. Hann hafði verið að vinna og var nú á leið heim. Þegar strákarnir komu auga á hann hættu þeir að slást.

s. 6-7.

Fleira eftir sama höfund

Leikhúsmorðið

Lesa meira