Beint í efni

Far heimur, far sæll

Far heimur, far sæll
Höfundur
Ófeigur Sigurðsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Mórar og skottur eru á kreiki innan um litríkar, breyskar og bráðlifandi persónur, og sögumaður fer um í líki hunds sem aðeins sumir sjá – en sér sjálfur allt. Þetta er saga um útskúfun og drauma. Kveikja skáldsögunnar er Kambsránið, eitt frægasta sakamál Íslandssögunnar. Þá brutust fjórir grímuklæddir menn eina vetrarnótt árið 1827 inn á bænum Kambi, bundu og börðu heimilisfólk og rændu verðmætum.

Úr bókinni

Á meðan hún sefur fer ég með hana á æskuslóðir mínar sem liggja undir hrauni. Hún hittir móður mína og hlær þegar hún kallar mig Gnýfara. Segir að ég sé vindurinn. Móðir mín, Álfa-Gugga, þykir kynleg í háttum, sögð af huldukyni. Hverfur að náttþeli. Hefur hún mök við álfa. Dansar í gylltum sölum og skemmtir sér á meðan faðir minn situr úti á bæjarhólnum og kveðjur óendanlega Rímu af Flóres og Leó þar til flaskan tæmist og slokknar á tunglinu innra með honum.
   Ég segi henni að ári áður en ég fæðist strandar freygátan Redeemer með öll möstrin brotin. Bugspjótið farið og skipið stýrislaust og án segla. Skipið er með fullfermi af amerískum stórviðum, bæði eik og furu og bjálkum af blóðvið frá Panama. Fimm menn finnast þar dauðir og naktir en einn maður lifandi. Hann getur enga skýringu gefið á hvað gerst hefur, hvort sem menn mæla á frönsku, latínu eða hebresku. Mennirnir eru blakkir á hörund. Móðir mín færir honum klæði og skýtur skjólshúsi yfir hann í sofnhúsinu hjá okkur því þar er þurrt og hlýtt og enn er langt í kornskurðinn.
   Það er ekki fyrr en á Mikjálsmessu um haustið sem melurinn er skær og farið til sláttar og skipsbrotsmaðurinn er tekinn með. Faðir minn kennir honum að skera og hnýta í knippi og safna í kerfi og hlaða á klyfberana. Síðan skekja þeir kornið saman á hlaðinu og drifta það hlæjandi. Þá kynda þeir sofnhúsið og þurrka kornið. Að verklokum er skipbrotsmaðurinn, þessi ægilegi barbari, reyfari, Serki og sjóvíkingur, fluttur í gamla nautahellinn. Þar býr hann við góðan kost og beina móður minnar, les íslenskar bækur og prjónar sokka. Móðir mín þjónustar hann á fullu tungli en ári síðar kem ég í heiminn og þá er huldumaðurinn tekinn inn á heimilið.
   Melkornið er sjálf auðmýktin og drottnunin, segir faðir minn við okkur, það táknar sjálfræði. Það er verndað af Mikjáli erkiengli. Ef kornuppskeran brestur er engillinn á braut. Skínandi erkiengillinn sker kornið í anda með eldsverði sínu og sigrar hungur sálarinnar. En varastu að glata þér í englafræðum, segir hann, englar eru tilfinningar en ekki fræðigrein eða tímatal, englar hafa engin nöfn, þeir eru nafnlausir eins og allt handan við veröld manna, þeir eru ærir og blessaðir og náðugir, svo sem ritað er, englar þekkjast aðeins af gjörðum sínum og þjónustuhlutverkinu í alheimsskipulaginu, gjörðin er þeirra heiti og aðgreining. Hver er sem Guð, það er Mikjáll erkiengill, hann vinnur gegn ofmetnaði og öfund og er engill auðmýktar og drottnunar, hann stríðir með eldsverði gegn djöflum og drekum í afgrunni hvers manns og heldur þeim í skefjum og jafnframt nærist hann á þeim, hann á tilvist sína þeim að þakka, þannig er Mikjáll, þannig er melgresið, auðmjúkast jurta, græðir upp auðnir en nærist jafnframt á þeim auðnum og eyðandi sandbyljum. Mikjáll tekur í hönd okkar og svífur með okkur yfir blátt fljót angistarinnar.

(s. 176-178)

Fleira eftir sama höfund

Váboðar

Lesa meira

Öræfi

Lesa meira

Skáldsaga um Jón

Lesa meira

Heklugjá

Lesa meira

Skál fyrir skammdeginu

Lesa meira

Handlöngun

Lesa meira

Provence í endursýningu

Lesa meira

Tvítólaveizlan

Lesa meira