Beint í efni

Ég heiti Aram

Ég heiti Aram
Höfundur
William Saroyan
Útgefandi
Uglan Reykjavík
Staður
Reykjavík
Ár
1997
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

My Name is Aram eftir William Saroyan í þýðingu Gyrðis. Eftirmáli eftir Gyrði Elíasson.

William Saroyan (1908-1981) er eitt frægasta og vinsælasta sagnaskáld bandarísku þjóðarinnar á 20. öld. Hann var af armensku bergi brotinn og þótt hann yrði síðar “amerískur” höfundur til jafns við flesta, mátti alla tíð greina streng upprunans í verkum hans sem flest fjalla á einn eða annan hátt um fólkið úr “gamla landinu”. Æskuár hans voru enginn leikur, samtvinnuð fátækt og erfiði, en samt átti hann eftir að skrifa einhverja glaðlegustu bók um bernsku og æsku sem til er í hillu heimsbókmenntanna - Ég heiti Aram.

Úr Ég heiti Aram

Ég gerði það ekki, sagði ég.
Svona, vertu nú ekki þver, sagði herra Derringer. Þetta er heldur svona vafasamur orðrómur sem þú ert að dreifa þarna. Hvernig veistu að ungfrú Daffney er ástfangin af mér?
Er hún það? spurði ég.
Ja, sagði herra Derringer, það stendur hérna. Hvers vegna datt þér það í hug? Hefurðu tekið eftir að hún horfi á mig aðdáunaraugum eða eitthvað svoleiðis?
Ég hef alls ekki tekið eftir því að hún horfi á þig á nokkurn sérstakan hátt, sagði ég. Ert þú ástfanginn af henni eða hvað?
Það á eftir að koma í ljós, sagði herra Derringer. Þetta er ekki svo slæmt ljóð, að vissu marki. Finnst þér virkilega að ungfrú Daffney sé ófríð?
Ég skrifaði ekki þetta ljóð, sagði ég. Ég get sannað það. Ég yrki ekki svona.
Þú meinar að þín rithönd sé önnur en sú sem er á töflunni? spurði herra Derringer.
Já, svaraði ég, og ég er ekkert fyrir svona kveðskap heldur.
Þú viðurkennir að þú yrkir? spurði herra Derringer.
Ég yrki kvæði, sagði ég, en ekki svona kvæði.
Svona orðrómur, sagði herra Derringer, ég vona að þú vitir hvað þú ert að gera.
Jæja, sagði ég, en allt sem ég veit er að ég skrifaði þetta ekki.
Okkar á milli, sagði herra Derringer, þá finnst mér ekki aðeins að ungfrú Daffney sé alls ekki ófríð, heldur finnst mér hún beinlínis lagleg.
Jæja, það er allt í lagi mín vegna. Það eina sem ég vil er að lenda ekki í vandræðum út af einhverju sem ég gerði alls ekki.
Þú gætir hafa ort þetta ljóð, sagði herra Derringer.
Ekki þetta ljóð,  sagði ég. Ég hefði getað ort gott ljóð.
Hvað áttu við, gott? spurði herra Derringer. Fallegt? Eða verulega móðgandi?
Ég á við fallegt, sagði ég, en það mundi aldrei vera um ungfrú Daffney.

(s. 58-59) 

Fleira eftir sama höfund

Geðbilun í ættinni og aðrar sögur

Lesa meira