Beint í efni

Dulstafir : Orrustan um Renóru

Dulstafir : Orrustan um Renóru
Höfundur
Kristín Björg Sigurvinsdóttir
Útgefandi
Björt
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ungmennabækur

Um bókina

Eftir hrakfarirnar í marmaraborginni standa Elísa og gæslumennirnir frammi fyrir krefjandi ferðalagi sem fer með þau um gjörvallt landið. Hættur leynast víða, sterkar tilfinningar krauma og ungmennin þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Lokaorrustan við steingyðjuna er framundan og örlög allrar Renóru hvíla á herðum þeirra. En hvað mun slík orrusta kosta þau?

Fyrsta bókin í bókaflokknum, Dóttir hafsins, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021. Önnur bókin, Bronsharpan, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og valin Besta barna- og ungmennabók af bóksölum 2022. Kristín Björg hlaut Vorvinda IBBY 2023.

Úr bókinni

   Eftir því sem þau færðust nær kom borgin betur í ljós. Mörk silfurborgarinnar voru mjög skýr. Það var eins og einhver hefði dregið línu í jörðina; öðrum megin var gras og hinum megin reis borgarveggur á við tveggja hæða hús. Þau voru komin nógu nálægt til að Elísa sæi að veggurinn var gerður úr stórum hvítum steinum og á nokkurra metra fresti voru útskornar súlur, í laginu eins og litlir kirkjuturnar. Þetta minnti hana mjög á húsið í bronsborginni þar sem silfur-sendiráðið hafði aðsetur. Bak við vegginn risu blokkir upp í þráðbeinni línu með jöfnu millibili. Elísa taldi fimm hæðir. Inn á milli þeirra fannst henni hún sjá stóra fugla fljúga um en hún gat ekki verið viss úr þessari fjarlægð.
   Þegar þau voru komin að borgarveggnum staðnæmdust þau og fóru af baki. Elan leiddi þau að stórum steinboga þar sem nafnið Simra hafði verið skorið í steininn. Innan í steinboganum voru stórar gljáfægðar viðardyr sem stóðu opnar. Þau gengu inn um þær og teymdu hestana á eftir sér. Elísu fannst þetta eins og að ganga inn í annan heim. Aðra stundina var hún stödd á graslendi og heyrði fuglasöng en þá næstu stóð hún á flísalagðri götu og háar byggingar risu í kringum hana. Úr náttúru yfir í siðmenningu.
   Elísa gapti þegar hún leit upp. Fjöldi fólks var á flugi um borgina. Það virtist svífa hljóðlaust áfram í þyngdarleysi. Þegar ung kona lenti skammt frá hópnum sá Elísa að hún var með eitthvað sem líktist bakpoka á bakinu. Þegar konan tók hann af sér sá Elísa að þetta var ekki bakpoki heldur lítill hvítur hreyfill, festur með belti yfir brjóstkassann. Konan lagði flugtækið á stand, þar sem voru nokkur svipuð tæki, og gekk svo í burtu.

(s. 47-48)

Fleira eftir sama höfund

Dulstafir: Dóttir hafsins

Lesa meira