Beint í efni

Djúpríkið

Djúpríkið
Höfundur
Bubbi Morthens
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Barnabækur

Robert Jackson er meðhöfundur og Halldór Baldursson myndskreytti.

um bókina

Dimma nótt í vetrarlok kallar Stórlax á ættingja sína. Það er kominn tími til að leggja upp í ferðina miklu. Hún hefst djúpt í ísi lögðu Norður-Íshafinu og er heitið alla leið upp í heimahylinn - í ánni þar sem allir Hofsárlaxar voru eitt sinn lítil seiði. Uggi og Una eru að fara í ferðina miklu í fyrsta sinn. Þau hlakka til en kvíða líka fyrir. Þau hafa heyrt um allar hætturnar sem bíða þeirra á leiðinni og vita að margir úr hópnum munu ekki komast á leiðarenda.

úr bókinni

Ferðin mikla

Nú er að segja frá því að á hverju ári frá ómunatíð, eina nótt undir vetrarlok, þá dettur á dimmasta nótt allra nótta. Þessa nótt lætur máninn ekki sjá sig og stjörnurnar blika ekki. En á þessari nóttu - þegar engu er líkara en veturinn ætli aldrei að taka enda - birtist tákn á himni.
   Fyrsta sólarupprás vorsins. Ljósið skín gegnum myrkrið svarta, glitrar og glansar á hreistri fiskanna þar sem þeir synda í stórum torfum. Unglingarnir af Hofsárkyni sem ekki muna til þess að hafa séð ljósið fyrr synda burt, æstir og skelfdir, niður í djúpið þar sem stórfiskarnir raða í sig átunni.
   Í þann mund sem ljósið dofnar snýr stór skuggi úr djúpinu og lætur sig fljóta nærri yfirborðinu. Ungfiskarnir hörfa í ótta því hér er Stórlax á ferð, höfðingi Hofsárkyns, konungurinn Stórlax sem ber merki ótal ævintýra.
   Um Stórlax fer hrollur. Slíkur hrollur fer um konung sem veit að hann verður að leiða ætt sína í ferðina miklu. Konung sem veit að þessi ferð verður hans síðasta.
   Ljósið dofnar og síðustu geislarnir glampa á augu Stórlax gamla og glitra örskotsstund á sægrænbláu hreistrinu á baki hans. Stórlax starir á ljósgeislana sem flökta og hverfa, hann mun ekki finna lífskraft þeirra aftur.
   Eftir stutta stund snýr hann sér að vatninu, slær til stórum sporðinum og slæst í hóp ættingja sinna til að búa þá undir ferðina miklu. „Tíminn er kominn,“ segir hann.
   Ofar yfirborði sjávarins dvín dögunin og verður að engu. Fyrsta sólris vorsins hefur ekki vakið neina athygli mannfólksins en gjörvallt dýraríkið hefur heyrt kall þess.
   Vetur er á förum. Vorið er á leiðinni. Ekkert verður aftur eins og það var. „TÍMINN... ER... KOMINN!“
   Boðin ólguðu innra með Stórlaxi, þrýstu sér út og streymdu eins og bylgjur frá honum, ýfðu hreistrið og létu tálkn hans nötra með ofurkrafti sínum.
   „TÍMINN... ER... KOMINN!“
   Boðin bárust um vatnið eins og langvarandi þrumugnýr. Engin leið var að forðast þau, ekki frekar en trumbuslátt í frumskóginum þar sem hann er þéttastur eða sólskinið í auðn eyðimerkurinnar. Þetta var höggbylgja orku og valds. Stórlax hafði tekið á móti lífskraftinum og lét hann nú ganga til tryggra ættingja sinna. Það var stoltasta skylda hans sem konungs þeirra.

(7-8)

Fleira eftir sama höfund

orð, ekkert nema orð

Orð, ekkert nema orð

og niðrí myrkrinu má sjálfsagt finna tilgang.
Lesa meira

Öskraðu gat á myrkrið

Lesa meira

Velkomin

Lesa meira

Hreistur

Lesa meira

Að kasta flugu í straumvatn er að tala við guð

Lesa meira

Bubbi - samtalsbók

Lesa meira