Beint í efni

Ditta mannsbarn

Ditta mannsbarn
Höfundur
Martin Andersen Nexö
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1948
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Ditte mennskebarn eftir Martin Andersen Nexö í þýðingu Einars Braga.

Fyrsta útgáfa kom út hjá Heimskringlu í tveimur bindum árin 1948-9. Önnur útgáfa kom út hjá Máli og menningu 1984.

Úr Ditta mannsbarn

En það kom fyrir, að Ditta hélst ekki við undir sama þaki og móðirin, og þá kunni hún ekki betra ráð en fela sig.

Kvöld eitt lá hún í hnipri í víðikjarrinu. Sörína kom hvað eftir annað út í dyrnar og kallaði á hana blíðlega, og í hvert skipti varð henni flökurt af viðbjóði. Öh! sagði hún eins og hún ætlaði að æla. Móðirin leitaði í kringum húsið, gekk síðan hægt upp að þjóðveginum og aftur til baka, skimandi. Kjóll hennar straukst við andlit Dittu. Síðan fór hún inn. Dittu var kalt, og hún var orðin þreytt á að liggja í felum. En hún vildi ekki fara inn - ekki fyrr en faðir hennar kæmi heim. Ef hann kæmi nú ekki fyrr en komið væri langt fram á nótt - eða alls ekki? Ditta hafði áður reynt annað eins og þetta, en þá var gild ástæða til að þrauka. Nú átti hún ekki von á neinni hirtingu.

En það var yndislegt að láta pabba leiða sig inn. Hann spurði einskis, leit aðeins ásakandi á móðurina og vildi gera manni allt til geðs. Kannski sæi hann um, að hún fengi að bregða sér til - - nei - það - - Ditta fór að gráta. Það var merkilegt, svo mjög sem Ditta syrgði ömmu sína, að stundum uppgötvaði hún skyndilega, að hún hafði gleymt, að amma var dáin. Amma er dáin, amma er dáin, endurtók hún með sjálfri sér, til þess að það kæmi ekki fyrir aftur, en skömmu síðar sótti í sama farið. Henni lá við örvinlan.

Hún iðraðist eftir að hafa ekki farið inn, þegar móðir hennar kallaði - nú var það of seint. Hún dró fæturna innundir pilsið sitt og fór að slíta upp strá til að halda sér vakandi. Hún heyrði hljóð í fjarska og spratt upp - það var vagn að koma! Æ, það var ekki kunnuglega og viðfelldna skröltið í ökutæki föður hennar!

Vagninn beygði út af þjóðveginum heim að Skarfahreiðrinu, og tveir menn stigu af honum og gengu inn. Þeir báru einkennishúfur með gylltum snúrum. Ditta læddist alvg niður að húsinu, falin í víðinum. Hún hafði ákafan hjartslátt. Andartaki síðar komu þeir með móðurina á milli sín. Hún spyrnti við fótum og öskraði æðislega.

Lars Peter! hrópaði hún átakanlega út í myrkrið. Þeir urðu að setja hana upp á vagninn með valdi. Innan úr bænum heyrðust hljóðin í börnunum.

Þá gleymdi Ditta öllu öðru og þaut út úr kjarrinu. Annar maðurinn greip í handlegginn á henni, en sleppti henni aftur eftir bendingu hins.

Átt þú heima hér? spurði hann.

Ditta kinkaði kolli.

Farðu þá inn til systkina þinna og segðu þeim, að þau þurfi ekki að vera hrædd. - Af stað!

Sörína brá fótunum leiftursnöggt yfir vagnbrúnina, en lögregluþjónninn hélt henni. Ditta, hjálpaðu mér! æpti hún, um leið og vagninn rann af stað upp á þjóðveginn og hvarf.

(s. 102-103)

Fleira eftir sama höfund