Beint í efni

Bonita Avenue

Bonita Avenue
Höfundur
Peter Buwalda
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Bonita Avenue eftir Peter Buwalda, í þýðingu Rögnu.

Siem Sigerius er stærðfræðisnillingur, júdómeistari, djassáhugamaður; vinsæll háskólarektor. Heima snúast kona hans og tvær uppkomnar stjúpdætur í kringum hann eins og fylgihnettir, nýi tengdasonurinn sömuleiðis.

Fullkominn maður. Fullkomið líf.

Ef ekki væri fyrir soninn sem situr í fangelsi fyrir morð. Háskólastelpuna sem hann daðrar við. Og klámsíðurnar á netinu sem hann skoðar í laumi. En þegar rektorinn sér kunnuglegt andlit á slíkri síðu – óþægilega, hrikalega kunnuglegt – fara stoðir heimsins að riða.

Úr bókinni

Þarna kom hann. Mágur hans fyrrverandi gekk upp breið þrepin á pallinum, skar sig úr á móti dagsbirtunni sem flæddi inn um háa gluggana að baki honum, nam staðar fyrir framan hann. Maður átti eiginlega von á því að sjá hann með kvittun fyrir sendingu í höndunum, velti fyrir sér hjá hverjum hann væri bílstjóri, af hverju var þessi karl að elta húsbónda sinn? Þráðbeinn, handleggirnir niður með líkamanum, þunginn á táberginu, nákvæmlega eins og þegar hann steig á júdómottuna hér áður fyrr: hér er ég, reyndu það bara. Ekkert handaband.

„Menno,“ sagði Sigerius.

Menno reigði sig. „Þú hefur það gott, sé ég,“ sagði hann með nákvæmlega sama hreim og heyrðist í C-hverfinu í Utrecht fyrir fjörutíu árum. „Ég var í nágrenninu. Ég kom til þess að segja þér að sonur þinn er laus.“

Sigerius ræskti sig. „Hvað segirðu?“

„Afplánunin var stytt. Vegna góðrar hegðunar. Hann er kominn út.“

Orð höfðu stundum líkamleg áhrif á hann, ískalt vatn helltist yfir hann. „Nei, nei,“ sagði hann lágt. „Þú segir fréttir. Slæmar fréttir.“

Wijn kroppaði í stórt hrúður á vanganum, án efa leifarnar af brunablöðru eftir nudd við júdómottu, fálmkennd hreyfing sem fékk hann til þess að líkjast systur sinni heitinni. Á löngutöng var engin nögl.

„Ég ákvað að segja þér það bara. Og ég verð að segja þér líka að ég kem ekki nálægt honum.“

„Hann átti að sitja inni til 2002.“ Það var Tineke sem sagði þetta, hún horfði á Wijn með augu eins og byssuhlaup, en hann hunsaði hana eins og fyrir tuttugu og fimm árum.

„Hvar ætlar hann að búa?“ spurði Sigerius.

„Ekki hugmynd. Sama er mér.“

Síðan horfðu þeir þegjandi hvor á annan, háskólarektorinn og íþróttaskólastjórinn. Tveir menn yfir fimmtugt sem í mörg ár stóðu þrisvar i viku saman undir sturtunni eftir að hafa blandað saman svita í ótal júdósölum í útjaðri höfuðborgarinnar. Það breytti engu. Óvænt, fyrirvaralaust, lyfti Wijn hendinni og rak naglarlausa fingurinn snöggt í enni hans.

„Hundur,“ sagði hann.

Áður en Sigerius fékk ráðrúm til þess að áta sig á að hann átti ekki að bregðast við þessu, áður en honum skildist að hann var ekki í aðstöðu til þess að þrífa í jakkaboðunga mannsins, toga fast niður á við og lyfta honum svo kveikandi aftur upp – að kyrkja hann á staðnum, þennan stóra, níðingslega durg – fór Wijn. Án þess að líta á nokkurn mann lufsaðist hann fram hjá röð heiðursdoktoranna og steig niður af pallinum með holum dynk.

(52-3)

Fleira eftir sama höfund