Beint í efni

Allt er ást

Allt er ást
Höfundur
Kristian Lundberg
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Och allt skall vara kärlek eftir Kristian Lundberg í þýðingu Þórdísar Gísladóttur.

Um bókina

Rithöfundur býr í íbúð með útsýni yfir fyrri vinnustað sinn við höfnina í Malmö. Hann skrifar bók sem hann er ekki viss um að hann vilji eða geti skrifað og veltir því fyrir sér hvort hann muni nokkurn tíma sættast við fortíðina. Hann hefur endurheimt æskuástina, sem hann missti fyrir löngu vegna eiturlyfjaneyslu, en er virkilega hægt að snúa til baka og bæta fyrir gjörðir sínar?

Úr bókinni

Það er hugsanlegt að hin raunverulega frásögn, sem ég ætla að skrá hér á eftir, hafi byrjað á sömu sekúndu og ég gekk út af Planinu, þegar ég lét rimlahliðið bara lokast á eftir mér. Nokkur stutt skref og ég hafði ekki aðeins yfirgefið svæðið að baki mér heldur líka mikinn hluta þess sem ég var orðinn. Ég opnaði hliðið og á því andartaki sem ég sleppti taki á því þá afneitaði ég líka reglunum sem neyddu mig til undirlægjuháttar. Að vera í tímavinnu hjá mönnunarfyrirtæki, að vera daglaunamaður, að vera niðurlægður í ómanneskjulegu kerfi. Maður er eign. Maður vinnur en verður alltaf fátækur. Maður hvorki flýtur né sekkur, maður treður bara marvaðann. Hversu einfalt það var síðan að fara bara og hversu langur tími leið áður en ég áttaði mig á því? Vélrænt hljóð frá sjálfvirku læsingunni og svo var ég farinn. Og já, ég sneri mér við, staldraði við um stund og sá vinnuna halda áfram án mín. Það var kvöld. Ég hengdi vinnugallann í skápinn. Ég lét dyrnar á skápnum í búningsklefanum standa galopnar. Ég var búinn að sparka af mér þungu vinnuskónum og var kominn í sandala. Allt var hljótt. Hendur. Líkamar. Andlit. Stjörnurnar sem kviknuðu hver af annarri. Manneskjur. Hreyfingar. Allir vissu hvað þeir ætluðu að gera. Líka ég sem hafði ákveðið með sjálfum mér að fara og koma ekki aftur.

(s. 19)

 

 

Fleira eftir sama höfund