Beint í efni

Álfheimar: Risinn

Álfheimar: Risinn
Höfundur
Ármann Jakobsson
Útgefandi
Angústúra
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ungmennabækur

Um bókina

Soffía er skyndilega komin í álfaheiminn Tudati ásamt vinum sínum Konál, Pétri og Dagnýju. Fyrir þeim liggur að ríkja yfir hinum fullkomna heimi sem drottningar og konungar. Soffíu finnst hún varla nógu glæsileg og frábær til að verða drottning og hún á erfitt með að trúa því að galdrameistarinn Mestiok hafi álit á henni. Eins vekur eintóm gleði og léttleiki álfanna furðu vinanna, sem og fjarvera annarra lífvera. Og hvað vill greifynjan upp á dekk? Eru Álfheimar mögulega ekki eins fullkomnir og þeir líta út fyrir að vera? 

Risinn er önnur bókin af fjórum um fjögur ungmenni í heimi álfanna eftir prófessor Ármann Jakobsson, sú fyrsta var Bróðirinn.  

Úr bókinni

Strax um kvöldið höfðu þau séð galdrameistarann sjálfan og Soffía gat ekki hætt að hugsa um hann. Þó að Pétur hefði sagt að þetta væri bróðir Dagnýjar brá henni að sjá þennan föla ungling, enda fátt við hann sem minnti á galdrakarla í bíómyndum heldur leit hann út eins og venjulegur íslenskur þrettán ára strákur sem liggur í tölvuleikjum og talar bara um fótbolta. Nema þessi sat í hásæti með kórónu og í veislunni varð honum starsýnt á þau Konál. Fannst Soffía líklega ekki drottningarleg. 

   Soffía hafði aldrei áður séð annað eins af ókunnum ávöxtum og kjöti af dýrategundum sem hún hafði ekki heyrt getið áður. Fyrst hafði hún verið treg að fá sér en þegar hún sá álfana háma í sig matinn af áfergju varð hún svöng og smakkaði. Hver einasti biti var gómsætari en sá á undan, bragðið kunnuglegt en þó nýtt og veitti sælu langt umfram það sem hún þekkti frá matmálstímum heima. Hún hafði borðað yfir sig en var samt ekki bumbult og svaf ágætlega í Álfheimum. Kannski var álfamatur svona léttur og auðvelt fyrir líkamann að vinna úr honum? Hún var vön því að heiman að mikið væri rætt um áhrif matar á heilsuna og var eðlilega forvitin. Hún var furðu lostin að uppgötva óhófið við hirðina. Á milli þess sem álfarnir við borð konungs hlógu og sungu, rifu þeir í sig matinn eins og hungraðir úlfar en ruku öðru hvoru á salernin. 

   - Þeir eru með mikla og hraða brennslu, hvíslaði Pétur að henni til skýringar. - Stundum þurfa þeir að hlaupa frá borðinu. Þess vegna geta þeir borðað svona mikið. Við líka þegar við erum komin í þennan heim, þú skalt flýta þér ef þú finnur fyrir einhverju í maganum. 

   -Þetta er frábært, hvíslaði hún á móti með munninn fullan. - Þó að ég hafi ekki grun um hvað ég sé að borða. 

   - Ég veit, hvíslaði hann. 

   Í matarboðinu skildi hún betur hvers vegna Pétur langaði til að vera þarna. Sjálf var hún full óróa þangað til eftir mat þegar Filippus gekk sérstaklega að henni en leit ekki á hina krakkana. Þau drengurinn voru álíka há þar sem hún var lægst í loftinu af vinunum fjórum. 

   - Hafðu ekki áhyggjur af foreldrum þínum og bræðrum, milda Samalo, sagði hann innilega. - Ég mun kenna ykkur að snúa aftur til sama staðar og sömu stundar og þið lögðuð upp frá. Ég veit ekki hvort þið verðið í sömu fötum því að galdurinn virkar ekki beinlínis þannig, en eftirtekt er af skornum skammti í hinum miskunnarlausa og hraða gráa heimi þannig að þau munu einskis spyrja og engar áhyggjur hafa. 

   - Þetta er sjálfsagt það sem allir spyrja um fyrst? spurði hún, steinhissa á að hann vissi að hún ætti bræður. 

   - Nei, sagði hann. - Enginn spyr að þessu en ég les hugsanir og finn að þetta fyllir hug þinn. Þú óttast líka að gleyma þínum eigin heimi og það er skiljanlegt. Hér í hinu fagra Tudati verður gestum okkar sjaldan hugsað til þeirra litlausu og niðurdrepandi heima sem þeir ólust upp í. Eflaust er það þáttur í þínum eigin ótta, vitneskjan um að grái heimurinn er auðgleymanlegur og jafnvel ástvinir geta gleymst. Konungar og drottningar í Tudati gleyma þó engu. Þau eru vitur sem hafið, skýr í hugsun líkt og himinninn, mild eins og jörðin og ráða yfir mætti sem er handan skilnings hins venjulega álfs. 

   Hann skýrði þetta ekkert frekar. Fleiri orð fóru ekki á milli þeirra fyrsta kvöldið og hún sá Filippus ekki aftur fyrr en að loknum hádegisverði daginn eftir. Eins og í fríi á íburðarmiklu hóteli snerist allt um matmálstímana.

(bls. 19-20)  

Fleira eftir sama höfund

álfheimar bróðirinn

Álfheimar: Bróðirinn

Bróðirinn er fyrsta bókin af fjórum um fjögur ungmenni í heimi álfanna
Lesa meira

Útlagamorðin: saga um glæp

Lesa meira

Brotamynd

Lesa meira

Síðasti galdrameistarinn

Lesa meira

Glæsir

Lesa meira

Fréttir frá mínu landi. Óspakmæli og örsögur

Lesa meira

Vonarstræti

Lesa meira

Urðarköttur: saga um glæp

Lesa meira

Bölvun múmíunnar

Lesa meira