Jump to content
íslenska

Stekk (Jump)

Stekk (Jump)
Author
Sigurbjörg Þrastardóttir
Publisher
JPV-útgáfa
Place
Reykjavík
Year
2012
Category
Novels

Um Stekk:

Alexandra Flask íhugar að stökkva fram af svölum litlu íbúðarinnar sem hún leigir í Barselónu. Þrátt fyrir hitabylgju í borginni er þrálátt kul í hjartanu – harmi blandin sektarkennd – og ekki bætir úr skák að hömlulaust ástarlíf annarra gegnsýrir hversdaginn.

 

Er besta svarið við eftirsjá að skaða líkamann fyrir lífstíð? Hvers vegna hafna sumir holdlegum fýsnum? Er hægt að taka líf sitt einungis til hálfs? Maður spyr sig – á meðan maður vonar hálfpartinn að stelpugarmurinn stökkvi.

 

Úr Stekk:

 

Danska stelpan sem ég vinn með á nuddstofunni lítur út fyrir að vera kóresk. Það er engin tilviljun, því að hún er ættleidd frá Suður-Kóreu. Þriggja mánaða gömul var hún flutt í handfarangri frá Seoul til Álaborgar ásamt viðeigandi pappírum, hún á mömmu sem heitir Vibeke og pabba sem heitir Knut, hvers frændi vann Dönum inn silfurmedalíu í sundi á Ólympíuleikunum í Seoul í þeim sama mánuði. Þeir frændur hittust þó ekki þar ytra.

 

Þetta er meðal þess fáa sem ég veit um Janne. Mér líkar vel við hana. Hún er líka góð í því sem við gerum, er handsterk eins og hún ætti kyn til ef hún væri blóðskyld dönsku sundættinni – sem er sniðug tilviljun – og eftirsótt í starfi. Hún æsir menn án þess að ætla sér það.

 

Janne er bláeyg á sinn sérstaka hátt en dugleg, mér skilst að hún sé komin langt með að greiða upp spænskunámið sitt með kvöldvöktunum einum saman.

 

Við klárum millivaktina, látum hinar stelpurnar hafa kúnna listana og röltum út.

 

Janne er óvenjuræðin og segir margt fyndið. Til dæmis segir hún að í stórborgum bregðist það ekki að Kínverjar veifi sér á götum úti og vilji jafnvel stoppa til að spjalla. En Janne skilur enga kínversku, ekki frekar en kóresku, svo hún svarar þessu fólki á dönsku og fer sína leið.

 

Mér finnst sögurnar hennar skemmtilegar og held að ég hefði haft meira gaman af starfinu á stofunni ef ég hefði oftar lent með henni á vakt.

 

Við röltum yfir Universitat-torgið í blankalogni og upp úr eins  manns hljóði spyr Janne hvort ég sé til í að fá mér tattú – segist vanta einhvern með sér, að hún hafi ætlað að fá sér tattú síðan hún var níu ára, helst á hálsinn aftanverðan, nú sé komið að því. Ég segist ekki sjá tilganginn með húðflúri undir hárinu, en Janne útskýrir að það sé fyrir karmað, ekki útlitið, hún hafi engan áhuga á pjatti, máli sig til dæmis eiginlega aldrei. Það skil ég reyndar – eða hvar ætti hún svo sem að setja maskarann? Hún er ekki með nein augnhár.

 

Ég fellst á að fylgja Janne áleiðis út í óvissuna. Klukkuna vantar tuttugu mínútur í fimm, við setjumst á málmstóla framan við sjúskaðan bar í Raval-hverfinu og Janne sötrar Fanta til að drekka í sig kjark. Húðflúr og hamstrar hf. er til húsa handan við hornið.

 

– Í hvaða sundi var frændi þinn aftur bestur? spyr ég til að drepa tímann.

 

– Flugsundi, svarar hún og blæs loftbólur í drykkinn. – Næstbestur, leiðréttir hún svo.

– Og af hverju hittust frændi þinn og foreldrar þínir ekki í Seoul?

 

– Bara. Við erum frekar óheppið fólk.

 

– Nú.

 

Ég íhuga að stappa stálinu í Janne en þegar líður á samræðurnar kemur í ljós að hún virðist hafa nokkuð til síns máls með lánleysið. Satt að segja virðist hún slíkur lífeðisfræðilegur hrakfallabálkur að ég efast um að hún eigi yfirleitt að fá sér húðflúr. Ekki einasta er hún með arfgengan galla í lithimnunni – eins konar súvenír frá Kóreu – sem gerir hana litblinda á kvöldin, heldur bregst líkami hennar skringilega við ýmsu áreiti. Þegar hún lét gata á sér eyrun á unglingsaldri fékk hún til dæmis umfangsmikla sýkingu sem færðist þvert í gegnum höfuðið og kom út hinum megin, eftir því sem hún lýsir. Hún reyndist þar á ofan hafa ofnæmi fyrir sýklalyfjunum. Þá skilst mér að blóðið hennar storkni fremur seit og þá er ekki annað að gera en vona að húðflúrari dagsins láti hálsæðarnar í friði.

 

Ég dæsi og horfi á janne sötra úr glasinu. Þegar hún lygnir aftur skásettu augunum kem ég um síðir auga á fáein augnhár í sólskininu, stutt en fullkomin. Ég brosi með sjálfri mér. Um leið spyr ég mi g hvers vegna það séu Kínverjar sem veifi henni á förnum vegi, ég hélt að það væri vestræn fráfræði að rugla saman Asíubúum, aldrei datt mér í hug að þeir rugluðu sér saman sjálfir ...

 

– Heldurðu að það sé sárt að fá sér tattú? spyr Janne upp úr sötrinu.

 

– Já, segi ég hiklaust.

 

Hún virðist vonsvikin, ég horfi beint á hana.

 

– Sársaukinn skiptir samt minnstu, hann tekur fljótt af. Spurningin er um eftirsjána. Hún varir miklu lengur ef þú ert ekki handviss.

 

(82-5)

 

More from this author

Fackelzüge: Ein Liebeslied

Read more

Poems in Neue Lyrik aus Island

Read more

Poems in Moord liederen

Read more

Poems in Action Poétique

Read more

Ljóð í leiðinni: skáld um Reykjavík (Poetry to Go: Poets on Reykjavík)

Read more

Bréf frá borg dulbúinna storma (Letters From the City of Undercover Storms)

Read more

Blysfarir (Torching)

Read more

Ljóð (Poems)

Read more

Poems in ICE-FLOE, International Poetry of the Far North

Read more